Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins:
Í amstri dagsins og dægurþrasi gleymum við stundum stóra samhengi hlutanna. Það er eðlilegt og mannlegt enda af nægu að taka í lífi og starfi okkar allra. Það má oftar minna á þær framfarir sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum á ríflega einni öld. Fæst ríki heimsins hafa upplifað viðlíka framfarir í einstaklingsfrelsi, lífskjörum, heilsu og svo tækifærum. Þessi árangur er ekki tilviljun og það væri ákaflega misráðið að taka honum sem sjálfgefnum hlut.
Árið 1929, árið sem Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður, var landsframleiðsla á mann svipuð og nú er í Nígeríu. Fátækt var útbreidd, tíðni ungbarnadauða 2,5% (eitt af 40 fæddum börnum lifði ekki til eins árs aldurs), vænt ævilengd 61 ár og ef undan er skilinn kostnaður vegna húsnæðis fóru 59% heimilistekna í mat.
Við vorum fátæk þjóð en búum í dag við einhver bestu lífskjör sem finnast á jörðinni. Ísland er eitt öruggasta land í heimi. Landsframleiðsla á mann er með því hæsta, kaupmáttur launa er sá hæsti meðal OECD-ríkja, við lifum lengi og hlutfallsleg fátækt er sú minnsta meðal samanburðarríkja og hér er einhver mesti jöfnuður sem fyrirfinnst og félagslegur hreyfanleiki sömuleiðis sem þýðir á mannamáli að á Íslandi eru jöfnust tækifæri.
Það er efni í marga og langa pistla að tíunda allt það sem hefur gert okkur kleift að byggja upp gott, sterkt og öflugt samfélag með mikinn viðnámsþrótt. Ísland náði að nýta sér og taka þátt í hröðum framförum í tækni, læknavísindum og iðnaði sem var ekki sjálfsagt og verður aldrei sjálfsagt. Það þurfti, og þarf enn, að sá í jarðveginn þannig að framtaksamt fólk gæti ræktað hann og nýtt tækifærin. Til að það gerðist þurfti tvennt.
Árangursrík utanríkisstefna
Annars vegar hefur Ísland ræktað samskipti við aðrar þjóðir með markvissum hætti frá því að við fengum fullveldi. Við höfum búið við öryggi í skjóli Atlantshafsbandalagsins, nokkuð sem herlaus þjóð, sem hefur aldrei kynnst vopnuðum átökum, áttar sig kannski ekki alltaf á. Við höfum líka lagt rækt við að efla viðskipti við önnur lönd en án þeirra væru fyrrnefndar framfarir óhugsandi. Stærsti áfanginn var innganga okkar í EES árið 1994. Fyrir utan ómælanlegt virði í því einstaklingsfrelsi sem samningurinn hefur veitt okkur er hið efnahagslega óyggjandi. Frá inngöngu okkar í EES hefur útflutningur t.a.m. vaxið hraðar heldur en árin 30 á undan. Vel að merkja, hraðar en á 30 árum þar sem meðal annars við færðum út landhelgina. Það er engin tilviljun. Í dag erum við enn að sækja fram og í síðasta mánuði var ritað undir fríverslunarsamning við Indland, fjölmennasta ríki heims.
Sjálfstæðisstefnan í forgrunni
Hins vegar hefur stjórnmálastefnan sem hefur fengið mest fylgi og hefur verið í öndvegi í flestum ríkisstjórnum skapað þennan jarðveg; sjálfstæðisstefnan: Að hér búi frjáls og sjálfstæð þjóð þar sem við aukum frjálsa verslun, einstaklingsfrelsi og frjálst framtak almennt. Þar sem lögð er áhersla á að hjálpa þeim og lyfta upp sem eiga undir högg að sækja með þéttu öryggisneti. Að vera talsmenn uppbyggingar og verðmætasköpunar. Að byggja upp og rækta alþjóðleg utanríkisviðskipti og samstarf. Þessi stefna hefur í grundvallaratriðum lítið breyst á þeirri tæpu öld sem liðin frá því að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður og ástæðan fyrir því er einföld: Stefnan virkar – meira að segja mjög vel.
Það er aldrei sjálfgefið að Íslendingar geti nýtt sér öll möguleg tækifæri til að bæta sín lífskjör. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut sem hefur skilað okkur þessum árangri í hartnær 100 ár, með breytingum í takt við hraðar samfélagsbreytingar, en grunnstefnan stendur.
Leiðin áfram
Fyrri dyrum standa ýmsar áskoranir og ógnir sem við þurfum að takast á við af festu. Því kerfi alþjóðalaga, sem öryggi okkar og efnahagsleg velmegun byggist á, er ógnað með innrás Rússlands í Úkraínu. Rússar stoppa ekki nema þeir verði stöðvaðir og takist þeim ætlunarverk sitt, sjáum við fram á að mörgum okkar mikilvægustu viðskiptalöndum og vinaþjóðum verði raunverulega ógnað. Við erum ekki ónæm fyrir þessari þróun, þó ekki væri nema út frá lífskjörum okkar. Þess vegna skiptir máli að Ísland sé alvöru þátttakandi í samfélagi þjóðanna og verðugur bandamaður – fyrir okkur öll.
Greinin birtist fyrst í Sunnudagsmogganum 28. apríl 2024