Samfylkingin og grænorkumálin
'}}

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:

Ný for­ysta Sam­fylk­ing­ar­inn­ar fer mik­inn og slær um sig á mörg­um sviðum. Kjarni skila­boðanna er að Sam­fylk­ing­in muni leysa all­an vanda og eru nokk­ur mál til­greind sér­stak­lega.

Eitt af þess­um mál­um er orku­mál­in. Þar seg­ir: „Sam­fylk­ing­in vill leggja fram skýr mark­mið um orku­öfl­un og að ramm­a­áætl­un verði af­greidd á Alþingi reglu­lega svo hægt sé að standa und­ir mark­miðunum. Þá vill Sam­fylk­ing­in fjölga virkj­un­ar­kost­um í nýt­ing­ar­flokki í sam­ræmi við til­lög­ur verk­efna­stjórn­ar ramm­a­áætl­un­ar og ráðast í laga­breyt­ing­ar sem eru til þess falln­ar að hraða leyf­is­veit­ing­um vegna fram­kvæmda sem hafa verið samþykkt­ar í nýt­ing­ar­flokk.“

Þetta eru mikl­ar og nýj­ar frétt­ir. Til upp­lýs­ing­ar þarf fernt að ger­ast til að virkj­un yfir 10 MW verði að veru­leika.

1. Leyfi til að virkja (ramm­a­áætl­un).

2. Orku­fyr­ir­tæki verða að nýta virkj­ana­kost­inn sem þau fá leyfi til að nýta. Lands­virkj­un, Orku­veita Reykja­vík­ur og HS Orka eru með næst­um alla orku­kosti í nýt­ing­ar­flokki.

3. Skil­virkt leyf­is­veit­ing­ar­ferli.

4. Sveit­ar­fé­lög­in verða að klára skipu­lags­vinn­una eins og lög kveða á um.

Sam­fylk­ing­in hef­ur haft mikið um þetta að segja. Sit­ur á þingi og illu heilli hef­ur flokk­ur­inn stýrt borg­inni og þar með talið Orku­veitu Reykja­vík­ur sam­fellt frá ár­inu 2010. All­an þann tíma hef­ur verið full­komið fram­kvæmda­stopp hjá því fyr­ir­tæki í raf­orku­mál­um. Reynd­ar voru skila­boðin frá borg­inni að það væri ekki „rétt­læt­an­legt“ að virkja meira! Það skal tekið fram að fyr­ir­tækið var og er með kosti í nýt­ing­ar­flokki all­an þenn­an tíma.

Það er mjög ánægju­legt að sjá nýj­ar áhersl­ur með nýj­um stjórn­end­um en þau eru að vinna upp 14 ára fram­kvæmda­stopp og það er verk að vinna.

Mikið hef­ur gerst í orku­mál­um á þessu kjör­tíma­bili og var ramm­a­áætl­un samþykkt í fyrsta skipti í níu ár.

Ekki einn þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar greiddi at­kvæði með ramm­an­um og ef all­ir þing­menn hefðu greitt at­kvæði eins og Sam­fylk­ing­in væri ekki hægt að fara í nein­ar fram­kvæmd­ir því það væru eng­ir orku­kost­ir í boði í landi grænn­ar orku.

Meint fram­kvæmda­stopp

Rík­is­stjórn­in ákveður ekki virkj­ana­fram­kvæmd­ir – það gera orku­fyr­ir­tæk­in sjálf sem flest eru í eigu rík­is og sveit­ar­fé­laga. Um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra hef­ur eng­in völd í þess­um fyr­ir­tækj­um og það er öll­um ljóst að und­ir­ritaður vill að þau nýti sína orku­kosti og það hef­ur gengið allt of hægt. Það er liðin tíð að virkj­ana­fram­kvæmd­um sé hand­stýrt af ráðherra.

En það er rétt hjá orku­fyr­ir­tækj­un­um að leyf­is­veit­ing­ar­ferlið sé of langt og flókið. Við höf­um und­an­far­in tvö ár unnið að því að ein­falda ferla og gera kerfið skil­virk­ara.

En að tala um fram­kvæmda­stopp líkt og Sam­fylk­ing­in ger­ir er frá­leitt. Landsnet er að fara í stærsta fram­kvæmda­átak flutn­ings­kerf­is­ins í sög­unni. Gert er ráð fyr­ir 88 millj­örðum í þau verk­efni á næstu fimm árum sem er næst­um tvö­föld­un miðað við árin þar á und­an. Í for­gangi eru Suður­nesjalína 2, Blönd­u­lína 2 og Holta­vörðulína 1-3. Þetta eru fram­kvæmd­ir sem munu ekki ein­ung­is opna á nýja orku­vinnslu og meira orku­ör­yggi held­ur einnig bætta nýt­ingu í kerf­inu. Lands­virkj­un hef­ur einnig til­kynnt um 100 millj­arða útboð vegna fram­kvæmda á þessu ári.

Af­laukn­ing­ar­frum­varpið sem var samþykkt á þessu kjör­tíma­bili hef­ur gert það að verk­um að hægt er að stækka virkj­an­ir í rekstri ef það hef­ur ekki bein áhrif á röskuð svæði án þess að fara í gegn­um ramm­a­áætl­un. Hluti af þess­um 100 millj­arða fram­kvæmd­um Lands­virkj­un­ar er til kom­inn vegna frum­varps­ins. Á næstu tveim­ur ára­tug­um er gert ráð fyr­ir að stækk­un virkj­ana í rekstri muni skila u.þ.b. 400 MW í auknu afli. Af­laukn­ing­ar­frum­varpið er stærsta ein­föld­un á ferli grænn­ar orku­öfl­un­ar í sög­unni. Við höf­um einnig sett hita­veit­una á dag­skrá en fyrsta jarðhita­leitar­átak ald­ar­inn­ar er þegar farið að bera ár­ang­ur.

Fyr­ir­hugað er að hefja fram­kvæmd­ir við Hvamms­virkj­un og Búr­fells­lund. Fjöl­marg­ir vindorku­lund­ir eru komn­ir langt og mik­il­vægt að klára frum­varpið þar um. Orku­veit­an og dótt­ur­fyr­ir­tæki hafa fjár­fest­ingaráform upp á 230 millj­arða. HS Orka hef­ur staðið í ströngu vegna elds­um­brot­anna á Reykja­nesskaga en er engu að síður stór­huga og er í miðri stækk­un á Svartsengi upp í 85 MW ásamt því að vinna að Hvalár­virkj­un og jarðhita­virkj­un í Krýsu­vík.

Að auki eru 16 virkj­ana­kost­ir í nýt­ing­ar­flokki og fljót­lega verða fjórði og fimmti áfangi ramm­a­áætl­un­ar kynnt­ir til sög­unn­ar.

Meint fram­kvæmda­stopp Sam­fylk­ing­ar á sér ekki stoð í raun­veru­leik­an­um. Það verður áhuga­vert að sjá hvort þessi nýja stefna í orku­mál­um muni end­ur­spegl­ast í stuðningi við þau mik­il­vægu mál sem þingið tek­ur til meðferðar á kom­andi vik­um. Er hægt að treysta því að Sam­fylk­ing­in styðji þau frum­vörp sem núna liggja fyr­ir þing­inu um sam­ein­ing­ar stofn­ana? Það kem­ur í ljós á næstu vik­um, en eitt er víst að það var ekki Sam­fylk­ing­in sem leysti orku­mál­in loks­ins úr læðingi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. apríl 2024.