Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
Ný forysta Samfylkingarinnar fer mikinn og slær um sig á mörgum sviðum. Kjarni skilaboðanna er að Samfylkingin muni leysa allan vanda og eru nokkur mál tilgreind sérstaklega.
Eitt af þessum málum er orkumálin. Þar segir: „Samfylkingin vill leggja fram skýr markmið um orkuöflun og að rammaáætlun verði afgreidd á Alþingi reglulega svo hægt sé að standa undir markmiðunum. Þá vill Samfylkingin fjölga virkjunarkostum í nýtingarflokki í samræmi við tillögur verkefnastjórnar rammaáætlunar og ráðast í lagabreytingar sem eru til þess fallnar að hraða leyfisveitingum vegna framkvæmda sem hafa verið samþykktar í nýtingarflokk.“
Þetta eru miklar og nýjar fréttir. Til upplýsingar þarf fernt að gerast til að virkjun yfir 10 MW verði að veruleika.
1. Leyfi til að virkja (rammaáætlun).
2. Orkufyrirtæki verða að nýta virkjanakostinn sem þau fá leyfi til að nýta. Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka eru með næstum alla orkukosti í nýtingarflokki.
3. Skilvirkt leyfisveitingarferli.
4. Sveitarfélögin verða að klára skipulagsvinnuna eins og lög kveða á um.
Samfylkingin hefur haft mikið um þetta að segja. Situr á þingi og illu heilli hefur flokkurinn stýrt borginni og þar með talið Orkuveitu Reykjavíkur samfellt frá árinu 2010. Allan þann tíma hefur verið fullkomið framkvæmdastopp hjá því fyrirtæki í raforkumálum. Reyndar voru skilaboðin frá borginni að það væri ekki „réttlætanlegt“ að virkja meira! Það skal tekið fram að fyrirtækið var og er með kosti í nýtingarflokki allan þennan tíma.
Það er mjög ánægjulegt að sjá nýjar áherslur með nýjum stjórnendum en þau eru að vinna upp 14 ára framkvæmdastopp og það er verk að vinna.
Mikið hefur gerst í orkumálum á þessu kjörtímabili og var rammaáætlun samþykkt í fyrsta skipti í níu ár.
Ekki einn þingmaður Samfylkingarinnar greiddi atkvæði með rammanum og ef allir þingmenn hefðu greitt atkvæði eins og Samfylkingin væri ekki hægt að fara í neinar framkvæmdir því það væru engir orkukostir í boði í landi grænnar orku.
Meint framkvæmdastopp
Ríkisstjórnin ákveður ekki virkjanaframkvæmdir – það gera orkufyrirtækin sjálf sem flest eru í eigu ríkis og sveitarfélaga. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur engin völd í þessum fyrirtækjum og það er öllum ljóst að undirritaður vill að þau nýti sína orkukosti og það hefur gengið allt of hægt. Það er liðin tíð að virkjanaframkvæmdum sé handstýrt af ráðherra.
En það er rétt hjá orkufyrirtækjunum að leyfisveitingarferlið sé of langt og flókið. Við höfum undanfarin tvö ár unnið að því að einfalda ferla og gera kerfið skilvirkara.
En að tala um framkvæmdastopp líkt og Samfylkingin gerir er fráleitt. Landsnet er að fara í stærsta framkvæmdaátak flutningskerfisins í sögunni. Gert er ráð fyrir 88 milljörðum í þau verkefni á næstu fimm árum sem er næstum tvöföldun miðað við árin þar á undan. Í forgangi eru Suðurnesjalína 2, Blöndulína 2 og Holtavörðulína 1-3. Þetta eru framkvæmdir sem munu ekki einungis opna á nýja orkuvinnslu og meira orkuöryggi heldur einnig bætta nýtingu í kerfinu. Landsvirkjun hefur einnig tilkynnt um 100 milljarða útboð vegna framkvæmda á þessu ári.
Aflaukningarfrumvarpið sem var samþykkt á þessu kjörtímabili hefur gert það að verkum að hægt er að stækka virkjanir í rekstri ef það hefur ekki bein áhrif á röskuð svæði án þess að fara í gegnum rammaáætlun. Hluti af þessum 100 milljarða framkvæmdum Landsvirkjunar er til kominn vegna frumvarpsins. Á næstu tveimur áratugum er gert ráð fyrir að stækkun virkjana í rekstri muni skila u.þ.b. 400 MW í auknu afli. Aflaukningarfrumvarpið er stærsta einföldun á ferli grænnar orkuöflunar í sögunni. Við höfum einnig sett hitaveituna á dagskrá en fyrsta jarðhitaleitarátak aldarinnar er þegar farið að bera árangur.
Fyrirhugað er að hefja framkvæmdir við Hvammsvirkjun og Búrfellslund. Fjölmargir vindorkulundir eru komnir langt og mikilvægt að klára frumvarpið þar um. Orkuveitan og dótturfyrirtæki hafa fjárfestingaráform upp á 230 milljarða. HS Orka hefur staðið í ströngu vegna eldsumbrotanna á Reykjanesskaga en er engu að síður stórhuga og er í miðri stækkun á Svartsengi upp í 85 MW ásamt því að vinna að Hvalárvirkjun og jarðhitavirkjun í Krýsuvík.
Að auki eru 16 virkjanakostir í nýtingarflokki og fljótlega verða fjórði og fimmti áfangi rammaáætlunar kynntir til sögunnar.
Meint framkvæmdastopp Samfylkingar á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Það verður áhugavert að sjá hvort þessi nýja stefna í orkumálum muni endurspeglast í stuðningi við þau mikilvægu mál sem þingið tekur til meðferðar á komandi vikum. Er hægt að treysta því að Samfylkingin styðji þau frumvörp sem núna liggja fyrir þinginu um sameiningar stofnana? Það kemur í ljós á næstu vikum, en eitt er víst að það var ekki Samfylkingin sem leysti orkumálin loksins úr læðingi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. apríl 2024.