Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisfl0kksins í Reykjavík:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja auka gatnaþrif í Reykjavík í því skyni að bæta hreinlæti og draga úr svifryksmengun í borginni. Stofnbrautir og tengigötur verði þvegnar a.m.k. nokkrum sinnum á ári til viðbótar hefðbundinni götusópun.
Kjöraðstæður fyrir rykmyndun
Mikil óhreinindi eru að jafnaði á götum Reykjavíkur í lok vetrar. Kjöraðstæður hafa skapast fyrir rykmyndun í borginni þar sem mars og apríl hafa verið mjög þurrviðrasamir. Ryk þyrlast upp af götum borgarinnar og þung ökutæki hverfa jafnvel í rykmökkinn.
Í rykmekkinum er svifryk sem er ekki heilsusamlegt og getur beinlínis verið hættulegt. Þess vegna er mikilvægt að standa vel að þrifum gatna, gönguleiða og hjólastíga í borginni. Ljóst er að með auknum þrifum mætti draga verulega úr myndun ryks og annarra óhreininda. Einnig mætti huga betur að gæðum malbiks og skoða jafnvel notkun steypu við götulagnir í því skyni að draga úr svifryksmengun.
Margar erlendar borgir leggja mikinn metnað í götuþrif. Í nágrannalöndum okkar er algengt að götur borga séu vatnsþvegnar mánaðarlega og sópaðar tvisvar í mánuði.
Í Reykjavík er meginreglan sú að stofnbrautir og tengigötur séu þvegnar einu sinni á ári og sópaðar þrisvar, þ.e. vor, sumar og haust. Stígar eru sópaðir eftir sama kerfi. Húsagötur eru þvegnar einu sinni og sópaðar tvisvar.
Byrjað er á hreinsun helstu göngu- og hjólastíga, sem og stofnbrauta, tengibrauta og gatna og stíga við þær. Síðan hefst hreinsun og þvottur húsagatna, stétta og stíga við þær. Að lokum eru stofn- og tengibrautir þvegnar.
Sérstök áhersla er lögð á miðborgina og þar eru götur og gangstéttir þvegnar og hreinsaðar mun oftar en í öðrum hverfum.
Á árinu 2023 nam kostnaður við þrif gatna, gangstétta og stíga í hverfum borgarinnar (að miðborg undanskilinni) liðlega 100 milljónum króna. Í miðborginni nam þessi kostnaður 133 milljónum króna til viðbótar.
Árlegt bað er ekki nóg
Unnt er að stórbæta gatnaþrif í Reykjavík með því að leggja meiri áherslu á þau en nú er gert. Einn vatnsþvottur á ári dugir skammt í baráttunni við rykið. Mestu máli skiptir að auka vatnsþvottinn þannig að göturnar séu bæði vatnsþvegnar og sópaðar a.m.k. nokkrum sinnum á ári. Framfarir í hreinsitækni gera það að verkum að vel er hægt að takast á við göturykið og hreinsa það burtu áður en það fer á flug um borgina í stórum og illviðráðanlegum rykmekki.
Undirritaður lagði fram tillögu Sjálfstæðisflokksins um málið á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag. Tillögunni var vel tekið og þeir borgarfulltrúar sem tjáðu sig um hana voru sammála um að fara þyrfti yfir fyrirkomulag gatnaþrifa í borginni og skoða leiðir til úrbóta. Var tillögunni vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, sem hefur þrif gatna, gönguleiða og hjólastíga borgarinnar með höndum. Vonandi verður sú skoðun til þess að gatnaþrif verði aukin svo borgin okkar verði hreinni og snyrtilegri.
Gleðilegt sumar!
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. apríl 2024.