Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og forseti Norðurlandaráðs:
Umbylting er að verða í norrænu samstarfi vegna kröfu Færeyinga og Grænlendinga um fulla aðild að Norðurlandaráði og vegna inngöngu Svía og Finna í NATO.
Árlegt vorþing Norðurlandaráðs, sem haldið var 8.-9. apríl sl., var sögulegt að því leyti að það fór í fyrsta sinn fram í Færeyjum. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem Norðurlandaráð kom saman eftir inngöngu Svía í Atlantshafsbandalagið í mars sl. og ennfremur á bandalagið 75 ára afmæli á þessu ári. Af þessu tilefni bauð Norðurlandaráð Louise Dedichen, varaaðmírál og fastafulltrúa Noregs í hernaðarnefnd NATO, að vera gestafyrirlesari á þinginu.
Þema þingsins var „öryggi, friður og viðbúnaður á Norður-Atlantshafi“ en þessi viðfangsefni eru öll hluti af formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði 2024.
Norðurlandaráð í lykilhlutverki í öryggismálaumræðu
Dedichen sagði í sínu erindi að innganga Finna og Svía í Atlantshafsbandalagið væri ákaflega jákvæð þróun og opnaði nýja möguleika í samstarfi Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum. Ég tek undir þetta og sé fyrir mér að Norðurlandaráð geti gegnt mikilvægu hlutverki í að efla samvinnu landanna á þessu sviði. Á þinginu í Færeyjum benti ég sérstaklega á að vegna þess að í Norðurskautsráðinu og þingmannasamstarfinu um norðurslóðamál er ekki fjallað um öryggismál geti Norðurlandaráð orðið lykilvettvangur fyrir þá umræðu.
Dedichen talaði um að norrænu ríkin hefðu sofið á verðinum eftir lok kalda stríðsins og afvopnast of mikið. Hún nefndi einnig að tilraunir til að koma á auknu samstarfi á síðustu árum, til dæmis í innkaupum á búnaði, hefðu gengið misvel. Nú þyrftu löndin að herða sig í að byggja upp hergagnaiðnað og nýta þau tækifæri sem NATO-aðild allra ríkjanna veitir.
Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, tók einnig þátt í umræðunum og lagði áherslu á að norrænu löndin störfuðu saman að því að byggja upp þekkingu á sviði varnar- og öryggismála.
Deilt um stöðu Færeyja og Grænlands
Á þinginu í Færeyjum var kynnt lokaskýrsla starfshóps sem forsætisnefnd Norðurlandaráðs skipaði í fyrra til að gera tillögur að breytingum á Helsingforssamningnum, grundvallarsáttmála norræns samstarfs, sem undirritaður var 1962. Hanna Katrín Friðriksson hefur leitt vinnu hópsins síðustu mánuðina og sagði frá niðurstöðunum á þinginu. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs mun fjalla um skýrsluna á næstunni en vonir standa til að endanlegar tillögur Norðurlandaráðs til ríkisstjórna landanna verði samþykktar á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík í haust. Endurskoðun samningsins er eitt af áherslumálunum í formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði.
Almenn samstaða er innan Norðurlandaráðs um að bæta eigi við ákvæðum um samstarf landanna í öryggis-, varnar- og viðbúnaðarmálum, loftslagmálum og fleiri málaflokkum sem af sögulegum ástæðum eru ekki með í samningnum nú. Ágreiningur er á hinn bóginn um kröfur Færeyinga og Grænlendinga um að fá fulla aðild að norræna þingmanna- og ríkisstjórnarsamstarfinu til jafns við Danmörku, Noreg, Finnland, Svíþjóð og Ísland.
Ég held mér sé óhætt að segja að meðal íslenskra þingmanna sé almennur og sterkur stuðningur við málstað Færeyinga og Grænlendinga. Við höfum þó jafnframt tekið að okkur það hlutverk að reyna að miðla málum og finna færar leiðir til þess að þessar nágranna- og vinaþjóðir okkar nái markmiðum sínum.
Mikill þungi er á bak við kröfur þessara landa. Á þingi Norðurlandaráðs í Færeyjum ítrekuðu Grænlendingar að ef ekki yrði gengið til móts við þá myndu þeir alvarlega íhuga stöðu sína og þátttöku í norrænu samstarfi. Þetta hefur Múte B. Egede forsætisráðherra Grænlands sagt oftar en einu sinni á opinberum vettvangi. Skömmu eftir að þinginu lauk lýsti þingmaðurinn Johan Dahl, sem verið hefur fulltrúi Færeyinga í starfshópnum um endurskoðun Helsingforssamningsins, þeirri skoðun að Færeyingar ættu að ganga úr Norðurlandaráði fengju þeir ekki fulla aðild.
Dönsk stjórnvöld hafa lýst stuðningi við óskir Færeyinga og Grænlendinga en andstaða kemur nú helst frá Svíum og Finnum. Það verður eitt helsta verkefni okkar Íslendinga á formennskuárinu að reyna að finna lausnir á þessu erfiða máli. Það er algerlega óviðunandi og gríðarlegur missir fyrir Íslendinga og önnur ríki Norðurlanda ef þessar þjóðir draga úr þátttöku sinni í norrænu samstarfi eða jafnvel hverfa úr því að fullu.
Íslensk tillaga um ráðgjafarnefnd í menntamálum
Íslenskir þingmenn voru áberandi og virkir á vorþinginu. Íslandsdeild Norðurlandaráðs stóð í sameiningu að tillögu um að skipuð yrði ráðgjafarnefnd sérfræðinga til að leiðbeina menntamálaráðherrum landanna um aðgerðir til að bæta námsárangur nemenda á Norðurlöndum með sérstakri áherslu á bættan les- og orðskilning.
Að tillögu Oddnýjar G. Harðardóttur gaf forsætisnefnd Norðurlandaráðs út yfirlýsingu þar sem skorað er á ríkisstjórnir Norðurlanda að hvetja og styðja Ísraelsmenn og Palestínumenn til að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningi sem byggist á alþjóðarétti og ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Tillagan er samhljóða tilmælum sem Norðurlandaráð samþykkti árið 2015.