Þingsályktunartillaga um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar var felld á Alþingi í gærkvöldi.
Tillagan var felld með 35 atkvæðum gegn 25 og sýnir glögglega að ríkisstjórnin er með sterkan þingmeirihluta. Tillagan var lögð fram af Flokki fólksins og Pírötum og mælti Inga Sæland fyrir henni. Umræður um tillöguna hófust kl. 17:00 og atkvæðagreiðslu um hana lauk kl. 22:46. Þannig var sóað tæpum sex klukkustundum af dýrmætum tíma Alþingis Íslendinga, í tillögu sem fyrsti flutningsmaður sagðist gera sér grein fyrir, í upphafi umræðunnar, að yrði aldrei samþykkt.
Mjög skýrar línur voru við umræður og atkvæðagreiðslu. Allir þingmenn stjórnarflokkanna styðja ríkisstjórnina og greiddu atkvæði gegn tillögunni á meðan allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna studdu tillögu um vantraust.
Ríkisstjórnin hefur því áfram fullt og ríflegt umboð til starfa frá Alþingi Íslendinga.