Berglind Ósk Guðmundsdóttir alþingismaður:
Það er alltaf viðfangsefni stjórnmálamanna að athuga hvort þau fjölmörgu verkefni sem hið opinbera sinnir séu skynsamleg nýting á almannafé. Umræða um ríkisfjármálin snýst að mestu um forgangsröðun fjármuna en á þessum tímamótum sem við stöndum á núna þarf að leggja fram alvörutillögur til að stuðla að aðhaldi í ríkisrekstri. Útgjaldaaukningunni verður að linna.
Nýr fjármálaráðherra mun von bráðum kynna fjármálaáætlun til fjögurra ára. Undanfarnar vikur hef ég lagt fram fyrirspurnir á alla ráðherrana þar sem ég óska eftir gögnum um útgjöld ráðuneytanna í þeim tilgangi að varpa skýru ljósi á útgjöld sem í einhverjum tilfellum kunna að samrýmast illa tilgangi og markmiði þjónustu hins opinbera og eru ekki til þess fallin að ná markmiðum um lægri verðbólgu og þar af leiðandi lægri vexti.
Ríkisvæðing félagasamtaka og auglýsingaherferðir
Í fyrsta lagi lagði ég fram fyrirspurn um kostnað við auglýsingamál, kynningarmál, viðburði og ráðstefnur. Það liggur fyrir að opinberar stofnanir hafa lagt verulega fjármuni í auglýsingaherferðir sem erfitt er að sjá að samræmist tilgangi og verkefnum stofnunarinnar. Gjarnan eru svo haldnar ráðstefnur víða af hálfu ráðuneytanna og stofnana þeirra, með miklum tilkostnaði, þar sem slíkir viðburðir og útbreiðsla skilaboða þeirra hafa jafnan verið taldir árangursríkir jafnvel þegar aðsókn á þessa sömu viðburði skiptir aðeins örfáum tugum einstaklinga.
Í öðru lagi spurðist ég fyrir um kostnað ráðuneytanna og undirstofnana þeirra til frjálsra félagasamtaka, hvort í gildi væru reglur um úthlutanir styrkja til félagasamtaka og þá hvort framkvæmt væri mat á árangri af styrkveitingunum. Það verður áhugavert að lesa saman svör ráðuneytanna til að sjá hvort þau greiði mörg sömu félögunum styrki og hvernig ávinningurinn af slíkum styrkveitingum er metinn fyrir samfélagið. Auk þess er hollt að velta því upp hvort hér sé verið að ríkisvæða frjáls félagasamtök með því að gera þau háð ríkisstyrkjum.
Þriðja fyrirspurnin snerist um lögbundnar nefndir á vegum ráðuneytanna, hver árlegur kostnaður hefur verið við þær. Hvaða starfshópar og nefndir hafi verið settar á laggirnar og þá hvort ráðherra hafi skoðað það að leggja niður nefndir.
Stórar áskoranir
Fyrir íslensku samfélagi liggja stórar áskoranir, hvort sem það eru jarðeldar á Reykjanesinu eða ofanflóðahætta á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, verðbólga og vextir eða ófriður víða um heim. Þá er það hlutverk okkar stjórnmálamanna að halda fast í taumana, hvort heldur sem er þegar vel gengur eða þegar á móti blæs. Á þessum tímamótum þurfum við að skerpa betur á hlutverki ríkisins og tryggja að fjármunir almennings nýtist með sem hagkvæmustum hætti og fari raunverulega í þau verkefni sem snúa að nauðsynlegri þjónustu við fólkið í landinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. apríl 2024.