Troðfullt út úr dyrum á Nordica í dag
'}}

Húsfyllir var á Hilton Reykjavík Nordica í dag þar sem um 800 sjálfstæðismenn komu saman til fundar sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra boðaði til. Færru komust að en vildu.

Ásamt Bjarna ávörpuðu fundinn ráðherrarnir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins og utanríkisráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku- og loftslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ásamt Vilhjálmi Árnasyni ritara Sjálfstæðisflokksins. Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins opnaði fundinn.

„Við sækjumst eftir því að fá að axla ábyrgð enda höfum við þá bjargföstu trú að okkar samfélagi farnist best þegar okkar stefna fær að hafa mótandi áhrif á framgang mála í samfélaginu,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að það hefðu ekki verið borgaralaun, hærri skattar eða ríkisvæðing sem síðustu öldina hafi fært okkur úr viðjum fátæktar til velmegunar nútíðar.

„Það var einstaklingsframtakið, trúin á fólkið í landinu sem skipti sköpum í því sambandi. Eitt af grunngildum flokksins okkar. Það er rætt um að virkja meira og við vitum öll að það þarf meiri orku. En gleymum því aldrei að það sem skiptir mestu er að virkja kraftinn í fólkinu sem býr á Íslandi. Að skapa hvetjandi umhverfi. Búa til traustan farveg þannig að góðar hugmyndir sem horfa til framfara falli í góðan jarðveg. Þessi framtakssemi sem býr í Íslendingum er okkur eðlislæg. Ég trúi því að hún þrífist best og fái sín notið þegar við getum tryggt pólitískan stöðugleika,“ sagði Bjarni og að við værum nú að tryggjan pólitískan stöðugleika fyrir þessi markmið undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

„Við verðum að taka stjórn á landamærum Íslands. Við ætlum áfram að ná árangri við að lækka verðbólguna. Þetta er risamál fyrir heimilin og fyrirtækin. Við þurfum að fá vexti niður. Það er líklegt að við sjáum góðan árangur á þessu ári. Græn orkuöflun fyrir byggðir og atvinnulíf í landinu er sömuleiðis eitt af þessum forgangsmálum,“ sagði hann.

„Ég er ofboðslega stoltur. Ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri. Ég er mjög ánægður með að hafa náð góðri niðurstöðu með samstarfsflokkum okkar. Ég heiti ykkur því og öllum landsmönnum að ég ætla að leggja mig allan fram í því hlutverki,“ sagði Bjarni og bætti við: „Þetta geri ég vegna þess að ég hef óbilandi trú á fólkinu sem byggir þetta land. Ég hef óbilandi trú á tækifærunum sem í landinu búa og ég hef óbilandi trú á því að áfram verði best af öllum löndum að búa á Íslandi.“

Fundinn í heild sinni má finna á spilaranum hér fyrir neðan: