Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Sem stjórnarmaður í Orkuveitunni hef ég verið skýr með þá sýn mína að heillavænlegast sé að selja Ljósleiðarann að fullu í opnu útboði. Það eru virkilega mikilvæg verkefni framundan á orkumarkaðnum og þangað á Orkuveitan að beina allri sinni atorku en ekki að standa í samkeppni á fjarskiptamarkaði um allt land. Það er löngu tímabært að Orkuveitan og eigendur hennar marki skýra stefnu og áætlun um að koma Ljósleiðaranum í hendur eigenda sem geta eflt fyrirtækið á viðskiptalegum forsendum og svarað öflugri samkeppni.
Ólánleg útþensla
Forsaga Ljósleiðarans er sú að Orkuveitan og eigendur hennar töldu brýnt að hraða uppbyggingu fjarskiptainnviða á höfuðborgarsvæðinu, sem í samkeppninni við öflugan keppinaut þróaðist út í útrás fyrirtækisins á landsvísu í skjóli skuggastjórnunar úr Ráðhúsinu, eins og fram hefur komið. Þegar eigendur Orkuveitunnar stóðu frammi fyrir orðnum hlut neyddust þeir, grunlausir um skuggastjórnun fyrrverandi borgarstjóra, til að veita Ljósleiðaranum heimild til að útvíkka starfsemi sína út fyrir meginstarfssvæði sitt sem kallaði á stóra lántöku ofan í fyrri lántökur fyrirtækisins og þörfina á hlutabréfaútboði til að fjármagna útrásina. Þetta gerðu eigendur með óbragð í munni því þeim hafði verið stillt upp við vegg.
Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti einungis sölu á nýju hlutafé sem svarar til þriðjungs hlutar í Ljósleiðaranum. Við Sjálfstæðismenn mótmæltum þessu því auðséð var að hlutafjárútboðinu væri alltof þröngur stakkur sniðinn með svona lítinn hlut til sölu og að Orkuveitan myndi neyðast til að kaupa hlutabréfin sjálf. Borgarráð óskaði sérstaklega eftir vilyrði þess efnis frá stjórn Orkuveitunnar. Ég skilaði séráliti um að Orkuveitan ætti alls ekki að ábyrgjast hlutafjárútboðið með þessum hætti. Það snýst um að lækka skuldir Ljósleiðarans og fjármagna næstu svaðilfarir, en það er algjörlega ótækt að Reykvíkingar séu látnir taka reikninginn fyrir útþenslunni hinum megin á landinu. Einhver gæti þá sagt að Ljósleiðarinn sé algjörlega aðskilinn sérleyfisstarfseminni, rafmagninu, hitaveitunni og frárennslinu. Arðurinn af þeirri starfsemi blandast saman í samstæðureikningi Orkuveitunar sem gengur síðan á það fé til að afhenda Ljósleiðaranum. Fyrir utan það að Ljósleiðarinn er hluti af Orkuveitusamstæðunni og þar með samstæðureikningi Reykjavíkurborgar sem ábyrgist skuldir hennar. Þá kemur til álita hvort Orkuveitan sé beinlínis að taka fé út úr fyrirtækinu til að niðurgreiða samkeppnisrekstur á meðan mikil þörf er á fjárfestingum í orkuframleiðslu.
Stjórn Orkuveitunnar, að mér undanskilinni, hefur verið mótfallin opnu útboði en ákvað hins vegar að útiloka almenning og almenna fjárfesta frá hlutafjárútboði Ljósleiðarans. Kaupendur skyldu handvaldir úr hópi fagfjárfesta af stjórnarmönnum Ljósleiðarans. Útboðið hefur mætt spennuskorti og takmörkuðum áhuga á að vera í áhrifalitlum minnihluta með þeim meirihluta sem ræður för í Orkuveitu Reykjavíkur. Því svo virðist sem allir sem þekkja til, nema eigendur, hafi lengi vitað af skuggastjórnuninni í Orkuveitunni. Í stað þess að sýna fram á hæfni Orkuveitunnar og dótturfyrirtækjanna til að taka óþægileg mál og nýta þau í breytingar til betri vegar, einn verðmætasti eiginleiki sem hægt er að rækta í hverri fyrirtækjamenningu, er allt gert til að réttlæta það að halda óþægilegum skýrslum huldum fyrir eigendum, sem er ekki beinlínis traustvekjandi. Ég tel því að best væri fyrir fjarskiptamarkaðinn og eigendur Orkuveitu Reykjavíkur sem eru íbúar höfuðborgarinnar, Akraness og Borgarbyggðar að koma Ljósleiðaranum í hendur aðila sem líklegri eru til afreka í þessum rekstri.
Alvöru keppinaut í alvöru samkeppni
Eigi að taka þátt í alvöru samkeppni á fjarskiptamarkaði þurfa fyrirtæki eins og Ljósleiðarinn að geta tekið fjárhagslega áhættusamar ákvarðanir, oft í flýti. Það liggur í hlutarins eðli að starfsemi Ljósleiðarans fellur ekki að þeim kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja í opinberri eigu um samskipti við eigendur, stjórnarhætti, gegnsæi, fyrirsjáanleika, viðráðanlega áhættu, hófsama skuldasöfnun og langtímaáætlanir um rekstur og fjárfestingar. Til framtíðar er Ljósleiðarinn með ennþá metnaðarfyllri áform og enn fjær því að falla inn í stofnanaramma opinberra fyrirtækja. Því er eina vitið að hefja sölu hans að fullu hvernig svo sem því er áfangaskipt. Skýra stefnumörkun um framhaldið þarf til að gera hlutafjáraukningu trúverðuga. Þar skiptir máli að Orkuveitan selji á sama tíma eitthvað af eignarhluta sínum og leggi fram tímaáætlun um sölu á þeim eignarhlut sem eftir stendur. Eðlilegasta leiðin til að koma Ljósleiðaranum til nýrra eigenda er að bjóða fyrst út aukið hlutafé á almennum markaði í opnu útboði og falla frá ákvörðunum um lokað útboð, enda hefur það ekki vakið tilætlaðan áhuga. Best væri að öll sala yrði í opnu útboði til allra fjárfesta stórra sem smárra því að þannig er líklegast að vænlegur eigendahópur verði til sem hefur áhuga og getu til að ná alvöru árangri í samkeppninni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2024.