Orkuveitan út úr Ljósleiðaranum
'}}

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Sem stjórn­ar­maður í Orku­veit­unni hef ég verið skýr með þá sýn mína að heilla­væn­leg­ast sé að selja Ljós­leiðarann að fullu í opnu útboði. Það eru virki­lega mik­il­væg verk­efni framund­an á orku­markaðnum og þangað á Orku­veit­an að beina allri sinni atorku en ekki að standa í sam­keppni á fjar­skipta­markaði um allt land. Það er löngu tíma­bært að Orku­veit­an og eig­end­ur henn­ar marki skýra stefnu og áætl­un um að koma Ljós­leiðar­an­um í hend­ur eig­enda sem geta eflt fyr­ir­tækið á viðskipta­leg­um for­send­um og svarað öfl­ugri sam­keppni.

Ólán­leg útþensla

For­saga Ljós­leiðarans er sú að Orku­veit­an og eig­end­ur henn­ar töldu brýnt að hraða upp­bygg­ingu fjar­skiptainnviða á höfuðborg­ar­svæðinu, sem í sam­keppn­inni við öfl­ug­an keppi­naut þróaðist út í út­rás fyr­ir­tæk­is­ins á landsvísu í skjóli skugga­stjórn­un­ar úr Ráðhús­inu, eins og fram hef­ur komið. Þegar eig­end­ur Orku­veit­unn­ar stóðu frammi fyr­ir orðnum hlut neydd­ust þeir, grun­laus­ir um skugga­stjórn­un fyrr­ver­andi borg­ar­stjóra, til að veita Ljós­leiðar­an­um heim­ild til að út­víkka starf­semi sína út fyr­ir meg­in­starfs­svæði sitt sem kallaði á stóra lán­töku ofan í fyrri lán­tök­ur fyr­ir­tæk­is­ins og þörf­ina á hluta­bréfa­út­boði til að fjár­magna út­rás­ina. Þetta gerðu eig­end­ur með óbragð í munni því þeim hafði verið stillt upp við vegg.

Meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur samþykkti ein­ung­is sölu á nýju hluta­fé sem svar­ar til þriðjungs hlut­ar í Ljós­leiðar­an­um. Við Sjálf­stæðis­menn mót­mælt­um þessu því auðséð var að hluta­fjárút­boðinu væri alltof þröng­ur stakk­ur sniðinn með svona lít­inn hlut til sölu og að Orku­veit­an myndi neyðast til að kaupa hluta­bréf­in sjálf. Borg­ar­ráð óskaði sér­stak­lega eft­ir vil­yrði þess efn­is frá stjórn Orku­veit­unn­ar. Ég skilaði séráliti um að Orku­veit­an ætti alls ekki að ábyrgj­ast hluta­fjárút­boðið með þess­um hætti. Það snýst um að lækka skuld­ir Ljós­leiðarans og fjár­magna næstu svaðilfar­ir, en það er al­gjör­lega ótækt að Reyk­vík­ing­ar séu látn­ir taka reikn­ing­inn fyr­ir útþensl­unni hinum meg­in á land­inu. Ein­hver gæti þá sagt að Ljós­leiðar­inn sé al­gjör­lega aðskil­inn sér­leyf­is­starf­sem­inni, raf­magn­inu, hita­veit­unni og frá­rennsl­inu. Arður­inn af þeirri starf­semi bland­ast sam­an í sam­stæðureikn­ingi Orku­veit­un­ar sem geng­ur síðan á það fé til að af­henda Ljós­leiðar­an­um. Fyr­ir utan það að Ljós­leiðar­inn er hluti af Orku­veitu­sam­stæðunni og þar með sam­stæðureikn­ingi Reykja­vík­ur­borg­ar sem ábyrg­ist skuld­ir henn­ar. Þá kem­ur til álita hvort Orku­veit­an sé bein­lín­is að taka fé út úr fyr­ir­tæk­inu til að niður­greiða sam­keppn­is­rekst­ur á meðan mik­il þörf er á fjár­fest­ing­um í orku­fram­leiðslu.

Stjórn Orku­veit­unn­ar, að mér und­an­skil­inni, hef­ur verið mót­fall­in opnu útboði en ákvað hins veg­ar að úti­loka al­menn­ing og al­menna fjár­festa frá hluta­fjárút­boði Ljós­leiðarans. Kaup­end­ur skyldu hand­vald­ir úr hópi fag­fjár­festa af stjórn­ar­mönn­um Ljós­leiðarans. Útboðið hef­ur mætt spennu­skorti og tak­mörkuðum áhuga á að vera í áhrifa­litl­um minni­hluta með þeim meiri­hluta sem ræður för í Orku­veitu Reykja­vík­ur. Því svo virðist sem all­ir sem þekkja til, nema eig­end­ur, hafi lengi vitað af skugga­stjórn­un­inni í Orku­veit­unni. Í stað þess að sýna fram á hæfni Orku­veit­unn­ar og dótt­ur­fyr­ir­tækj­anna til að taka óþægi­leg mál og nýta þau í breyt­ing­ar til betri veg­ar, einn verðmæt­asti eig­in­leiki sem hægt er að rækta í hverri fyr­ir­tækja­menn­ingu, er allt gert til að rétt­læta það að halda óþægi­leg­um skýrsl­um huld­um fyr­ir eig­end­um, sem er ekki bein­lín­is traust­vekj­andi. Ég tel því að best væri fyr­ir fjar­skipta­markaðinn og eig­end­ur Orku­veitu Reykja­vík­ur sem eru íbú­ar höfuðborg­ar­inn­ar, Akra­ness og Borg­ar­byggðar að koma Ljós­leiðar­an­um í hend­ur aðila sem lík­legri eru til af­reka í þess­um rekstri.

Al­vöru keppi­naut í al­vöru sam­keppni

Eigi að taka þátt í al­vöru sam­keppni á fjar­skipta­markaði þurfa fyr­ir­tæki eins og Ljós­leiðar­inn að geta tekið fjár­hags­lega áhættu­sam­ar ákv­arðanir, oft í flýti. Það ligg­ur í hlut­ar­ins eðli að starf­semi Ljós­leiðarans fell­ur ekki að þeim kröf­um sem gerðar eru til fyr­ir­tækja í op­in­berri eigu um sam­skipti við eig­end­ur, stjórn­ar­hætti, gegn­sæi, fyr­ir­sjá­an­leika, viðráðan­lega áhættu, hóf­sama skulda­söfn­un og lang­tíma­áætlan­ir um rekst­ur og fjár­fest­ing­ar. Til framtíðar er Ljós­leiðar­inn með ennþá metnaðarfyllri áform og enn fjær því að falla inn í stofn­an­aramma op­in­berra fyr­ir­tækja. Því er eina vitið að hefja sölu hans að fullu hvernig svo sem því er áfanga­skipt. Skýra stefnu­mörk­un um fram­haldið þarf til að gera hluta­fjáraukn­ingu trú­verðuga. Þar skipt­ir máli að Orku­veit­an selji á sama tíma eitt­hvað af eign­ar­hluta sín­um og leggi fram tíma­áætl­un um sölu á þeim eign­ar­hlut sem eft­ir stend­ur. Eðli­leg­asta leiðin til að koma Ljós­leiðar­an­um til nýrra eig­enda er að bjóða fyrst út aukið hluta­fé á al­menn­um markaði í opnu útboði og falla frá ákvörðunum um lokað útboð, enda hef­ur það ekki vakið til­ætlaðan áhuga. Best væri að öll sala yrði í opnu útboði til allra fjár­festa stórra sem smárra því að þannig er lík­leg­ast að væn­leg­ur eig­enda­hóp­ur verði til sem hef­ur áhuga og getu til að ná al­vöru ár­angri í sam­keppn­inni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2024.