Lítill áhugi á skuldabréfum Reykjavíkurborgar
'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Áhugi fjár­festa á skulda­bréf­um Reykja­vík­ur­borg­ar er lít­ill og fer þverr­andi. Aðeins bár­ust til­boð upp á sam­tals 480 millj­ón­ir króna í tvo skulda­bréfa­flokka borg­ar­inn­ar, sem boðnir voru út í síðustu viku. Borg­in sá sér aðeins fært að taka til­boðum fyr­ir um 300 millj­ón­ir á afar­kjör­um.

Í um­ræddu útboði tók borg­in til­boðum í verðtryggða skulda­bréfa­flokk­inn RVK53 1 fyr­ir sam­tals 215 millj­ón­ir króna að markaðsvirði á ávöxt­un­ar­kröf­unni 3,45%. Þá tók borg­in til­boðum í óverðtryggðan skulda­bréfa­flokk, RVKN 35 1, fyr­ir sam­tals 101 millj­ón króna að markaðsvirði á kröf­unni 8,85%.

Geig­væn­leg skulda­söfn­un

Skuld­ir sam­stæðu Reykja­vík­ur­borg­ar munu hækka um rúma 26 millj­arða króna á ár­inu og nema 516 millj­örðum króna í árs­lok sam­kvæmt gild­andi fjár­hags­áætl­un. Þar af munu skuld­ir borg­ar­sjóðs hækka um tæpa tíu millj­arða á milli ára og nema 209 millj­örðum um næstu ára­mót.

Meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar ætl­ar borg­ar­sjóði að taka ný lán fyr­ir allt að 16.500 millj­ón­ir króna á ár­inu 2024. Áformað er að láns­fjár­ins verði aflað með stækk­un á virk­um skulda­bréfa­flokk­um borg­ar­sjóðs, með út­gáfu á nýj­um skulda­bréfa­flokk­um eða öðrum hætti.

Borg­in hef­ur nú gefið út skulda­bréf fyr­ir rúma fjóra millj­arða króna að sölu­v­irði það sem af er ári eða tæp­an fjórðung þeirr­ar upp­hæðar sem lán­töku­áætlun­in ger­ir ráð fyr­ir.

Þegar verðbólga er 6,8% verður ekki fram hjá því litið að Reykja­vík­ur­borg er nú að fjár­magna sig á yfir 10% vöxt­um þar sem um verðtryggð skulda­bréf er að ræða. Það eru afar­kjör fyr­ir stór­an aðila eins og Reykja­vík­ur­borg. Langvar­andi skulda­söfn­un ger­ir að verk­um að borg­in er orðin mjög ber­skjölduð fyr­ir verðbólgu og vaxta­hækk­un­um.

Óviðun­andi fjár­hags­staða

Slæm láns­kjör Reykja­vík­ur­borg­ar eru óræk­ur vott­ur þess að fjár­hags­staða henn­ar sé óviðun­andi og kom­in yfir hættu­mörk. Öllum ætti að vera ljóst að vand­inn verður ekki leyst­ur með áfram­hald­andi ta­prekstri og skulda­söfn­un.

Í skoðana­dálki Viðskipta­blaðsins í liðinni viku sagði að tvö síðustu skulda­bréfa­út­boð borg­ar­inn­ar sýndu að fjár­hag­ur borg­ar­inn­ar væri í rjúk­andi rúst.

Borg­ar­stjórn verður að svara þeirri spurn­ingu hversu langt sé hægt að ganga í skulda­söfn­un og á hvaða kjör­um. Nú virðist sú stefna ráða að taka öll lán sem bjóðast og á hvaða kjör­um sem er.

Dul­bú­in bless­un?

Mót­læti á láns­fjár­mörkuðum gæti verið dul­bú­in bless­un ef það yrði til þess að meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar horfðist í augu við fjár­hags­vand­ann og tæk­ist á við hann af fullri al­vöru.

Með víðtæku aðhaldi og sparnaði væri unnt að láta af halla­rekstri Reykja­vík­ur­borg­ar og hefja niður­greiðslu skulda. Ljóst er að ábyrg­ur rekst­ur myndi styrkja stöðu borg­ar­inn­ar á láns­fjár­markaði og bæta vaxta­kjör henn­ar til muna.

Eitt brýn­asta verk­efni hins op­in­bera, rík­is og sveit­ar­fé­laga, er að ná tök­um á hinni háu verðbólgu sem nú geis­ar. Til þess þarf að hemja út­gjalda­aukn­ingu hins op­in­bera og helst að lækka op­in­ber út­gjöld.

Ljóst er að um­snún­ing­ur í rekstri Reykja­vík­ur­borg­ar til hins betra hefði já­kvæð áhrif í bar­átt­unni við verðbólg­una, sem kæmi þannig öll­um til góða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2024.