Óli Björn Kárason alþingismaður:
Það var langt í frá sjálfgefið að ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir, héldu áfram samstarfi í nýrri ríkisstjórn, eftir að Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Myndun nýrrar ríkisstjórnar er aldrei einföld. Allra síst þegar fulltrúar ólíkra póla í stjórnmálum gerast samverkamenn, jafnvel þótt reynslan af rúmlega sex ára samstarfi sé í mörgu góð.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar stendur frammi fyrir mörgum áskorunum. Fyrir alla stjórnarflokkana er mikilvægt að þeim verði mætt og að árangur náist á þeim stutta starfstíma sem ríkisstjórnin hefur. Aðeins árangur réttlætir ákvörðun flokkanna um að halda samstarfinu áfram.
Enginn getur reiknað með öðru en að það reyni oft á þolrif einstakra ráðherra og stjórnarþingmanna á þeim tæpu 18 mánuðum sem eru til kosninga. Þá skiptir tvennt mestu. Að traust sé á milli forystufólks ríkisstjórnarinnar og stjórnarþingmanna og að ríkisstjórnin einbeiti sér að ákveðnum mikilvægum málum sem mestu skipta fyrir almenning. Láti ekki ágreiningsmál, sem í stóra samhenginu skipta litlu, flækjast fyrir sér. Hafi burði til að leiða ágreining í jörð. Reki ekki fleyg í samstarfið með því að þvinga einhver áhugamál einstakra ráðherra í gegn eða mál sem ætlað er að afla pólitísks stuðnings afmarkaðra hópa.
Aðhald er nauðsynlegt
Stjórnarflokkarnir verða að tryggja að fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á útlendingalögum verði afgreitt sem lög ekki síðar en í fyrri hluta maí næstkomandi. Endurskoða þarf útlendingalöggjöfina frá grunni og fella úr gildi allar íslenskar sérreglur. Fyrirmyndina getur ríkisstjórnin sótt til Danmerkur. Nauðsynlegt er að ný lög verði afgreidd ekki síðar en á vorþingi 2025. Í þessu verður ríkisstjórnin að vera samstiga.
Ég geng út frá því að einhugur sé um það í ríkisstjórn að stuðla að auknu raforkuöryggi og að lagður verði grunnur að nýrri sókn í atvinnumálum með aukinni orkuvinnslu. Þetta er hægt að sýna í verki með því að vinna að orkuskiptum af heilum hug, einfalda allt regluverk í kringum nýjar virkjanir og ryðja úr vegi lagalegum hindrunum til grænnar orkuöflunar. Og um leið tryggja að fyrirhugaðar framkvæmir til að styrkja flutningskerfi raforku nái fram að ganga.
Ríkisstjórnin þarf að sýna í verki að hún skilji nauðsyn aðhalds í ríkisfjármálum. Auki hagræðingu í ríkisrekstrinum með enn frekari fækkun stofnana, sölu ríkisfyrirtækja og fjárfestingu í stafrænni stjórnsýslu. Takist strax á við það verkefni að lækka rekstrarkostnað stjórnarráðsins og stofnana þess um a.m.k. 5-10% m.v. árið 2023. Vinni að því af heilum hug að sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka gangi fram.
Verkefni komandi mánaða er að leggja styrkari grunn undir lækkun verðbólgunnar og þar með verulega lækkun vaxta. Treysta þær stoðir sem nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði byggjast á. Ekki síst þess vegna er ekki hægt að stofna til nýrra útgjalda. Leggja verður til hliðar áform um verkefni sem eru annaðhvort óþörf eða við höfum hreinlega ekki efni á, þótt góð séu. Nýjum ríkisstofnunum er ekki hægt að koma á fót, jafnvel þótt reynt sé að gefa til kynna með heiti þeirra að tilgangurinn sé göfugur. Verkefnið er ekki að auka útgjöld ríkisins heldur stuðla að aukinni verðmætasköpun og aukinni framleiðni á öllum sviðum. Til að raunverulegur árangur náist í þessu verða allir – launafólk og atvinnurekendur – að geta treyst því að atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar séu virt.
Sýnin á aðalatriðin
Hér eftir sem hingað til eru sanngjarnar málamiðlanir forsenda þess að þeir sem eru í grunninn pólitískir andstæðingar geti unnið saman. Málamiðlanir eru hins vegar til lítils ef sýnin á það sem mestu skiptir er ekki fyrir hendi. Þá víkja aðalatriðin fyrir aukaatriðum – traustið og trúnaðurinn rofnar hægt og bítandi.
Allt frá því að fyrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum árið 2017, með samstarfi Sjálfstæðisflokksins við Framsókn og VG, hef ég staðið að baki ríkisstjórnum þessara flokka. Oft hefur það verið erfitt ekki síst þegar um pólitísk gæluverkefni er að ræða eða þegar mér hefur fundist pólitískur rétttrúnaður ráða för. Ég hef aldrei og mun aldrei afsala mér rétti til að gagnrýna, berjast fyrir breytingum á stjórnarfrumvörpum, jafnvel reyna að koma í veg fyrir framgang stjórnarmála, hvað þá að vinna að framgangi hugsjóna okkar Sjálfstæðismanna.
Fyrir mig sem þingmann Sjálfstæðisflokksins er það gleðilegt að ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar hafi tekið við völdum. Fáum treysti ég betur til að vinna að lausn þeirra verkefna sem eru mest knýjandi. Möguleikar okkar Sjálfstæðismanna til að koma mikilvægum málum á dagskrá og vinna að framgangi þeirra eru meiri nú en fyrir nokkrum dögum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. apríl 2024.