Árangur réttlætir samstarf
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Það var langt í frá sjálf­gefið að rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir þrír, Sjálf­stæðis­flokk­ur, Fram­sókn­ar­flokk­ur og Vinstri græn­ir, héldu áfram sam­starfi í nýrri rík­is­stjórn, eft­ir að Katrín Jak­obs­dótt­ir baðst lausn­ar fyr­ir sig og ráðuneyti sitt. Mynd­un nýrr­ar rík­is­stjórn­ar er aldrei ein­föld. Allra síst þegar full­trú­ar ólíkra póla í stjórn­mál­um ger­ast sam­verka­menn, jafn­vel þótt reynsl­an af rúm­lega sex ára sam­starfi sé í mörgu góð.

Rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­son­ar stend­ur frammi fyr­ir mörg­um áskor­un­um. Fyr­ir alla stjórn­ar­flokk­ana er mik­il­vægt að þeim verði mætt og að ár­ang­ur ná­ist á þeim stutta starfs­tíma sem rík­is­stjórn­in hef­ur. Aðeins ár­ang­ur rétt­læt­ir ákvörðun flokk­anna um að halda sam­starf­inu áfram.

Eng­inn get­ur reiknað með öðru en að það reyni oft á þolrif ein­stakra ráðherra og stjórn­arþing­manna á þeim tæpu 18 mánuðum sem eru til kosn­inga. Þá skipt­ir tvennt mestu. Að traust sé á milli for­ystu­fólks rík­is­stjórn­ar­inn­ar og stjórn­arþing­manna og að rík­is­stjórn­in ein­beiti sér að ákveðnum mik­il­væg­um mál­um sem mestu skipta fyr­ir al­menn­ing. Láti ekki ágrein­ings­mál, sem í stóra sam­heng­inu skipta litlu, flækj­ast fyr­ir sér. Hafi burði til að leiða ágrein­ing í jörð. Reki ekki fleyg í sam­starfið með því að þvinga ein­hver áhuga­mál ein­stakra ráðherra í gegn eða mál sem ætlað er að afla póli­tísks stuðnings af­markaðra hópa.

Aðhald er nauðsyn­legt

Stjórn­ar­flokk­arn­ir verða að tryggja að fyr­ir­liggj­andi frum­varp um breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um verði af­greitt sem lög ekki síðar en í fyrri hluta maí næst­kom­andi. End­ur­skoða þarf út­lend­inga­lög­gjöf­ina frá grunni og fella úr gildi all­ar ís­lensk­ar sérregl­ur. Fyr­ir­mynd­ina get­ur rík­is­stjórn­in sótt til Dan­merk­ur. Nauðsyn­legt er að ný lög verði af­greidd ekki síðar en á vorþingi 2025. Í þessu verður rík­is­stjórn­in að vera sam­stiga.

Ég geng út frá því að ein­hug­ur sé um það í rík­is­stjórn að stuðla að auknu raf­orku­ör­yggi og að lagður verði grunn­ur að nýrri sókn í at­vinnu­mál­um með auk­inni orku­vinnslu. Þetta er hægt að sýna í verki með því að vinna að orku­skipt­um af heil­um hug, ein­falda allt reglu­verk í kring­um nýj­ar virkj­an­ir og ryðja úr vegi laga­leg­um hindr­un­um til grænn­ar orku­öfl­un­ar. Og um leið tryggja að fyr­ir­hugaðar fram­kvæm­ir til að styrkja flutn­ings­kerfi raf­orku nái fram að ganga.

Rík­is­stjórn­in þarf að sýna í verki að hún skilji nauðsyn aðhalds í rík­is­fjár­mál­um. Auki hagræðingu í rík­is­rekstr­in­um með enn frek­ari fækk­un stofn­ana, sölu rík­is­fyr­ir­tækja og fjár­fest­ingu í sta­f­rænni stjórn­sýslu. Tak­ist strax á við það verk­efni að lækka rekstr­ar­kostnað stjórn­ar­ráðsins og stofn­ana þess um a.m.k. 5-10% m.v. árið 2023. Vinni að því af heil­um hug að sala á hlut rík­is­ins í Íslands­banka gangi fram.

Verk­efni kom­andi mánaða er að leggja styrk­ari grunn und­ir lækk­un verðbólg­unn­ar og þar með veru­lega lækk­un vaxta. Treysta þær stoðir sem ný­gerðir kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði byggj­ast á. Ekki síst þess vegna er ekki hægt að stofna til nýrra út­gjalda. Leggja verður til hliðar áform um verk­efni sem eru annaðhvort óþörf eða við höf­um hrein­lega ekki efni á, þótt góð séu. Nýj­um rík­is­stofn­un­um er ekki hægt að koma á fót, jafn­vel þótt reynt sé að gefa til kynna með heiti þeirra að til­gang­ur­inn sé göf­ug­ur. Verk­efnið er ekki að auka út­gjöld rík­is­ins held­ur stuðla að auk­inni verðmæta­sköp­un og auk­inni fram­leiðni á öll­um sviðum. Til að raun­veru­leg­ur ár­ang­ur ná­ist í þessu verða all­ir – launa­fólk og at­vinnu­rek­end­ur – að geta treyst því að at­vinnu­frels­isákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar séu virt.

Sýn­in á aðal­atriðin

Hér eft­ir sem hingað til eru sann­gjarn­ar mála­miðlan­ir for­senda þess að þeir sem eru í grunn­inn póli­tísk­ir and­stæðing­ar geti unnið sam­an. Mála­miðlan­ir eru hins veg­ar til lít­ils ef sýn­in á það sem mestu skipt­ir er ekki fyr­ir hendi. Þá víkja aðal­atriðin fyr­ir auka­atriðum – traustið og trúnaður­inn rofn­ar hægt og bít­andi.

Allt frá því að fyrri rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur tók við völd­um árið 2017, með sam­starfi Sjálf­stæðis­flokks­ins við Fram­sókn og VG, hef ég staðið að baki rík­is­stjórn­um þess­ara flokka. Oft hef­ur það verið erfitt ekki síst þegar um póli­tísk gælu­verk­efni er að ræða eða þegar mér hef­ur fund­ist póli­tísk­ur rétt­trúnaður ráða för. Ég hef aldrei og mun aldrei af­sala mér rétti til að gagn­rýna, berj­ast fyr­ir breyt­ing­um á stjórn­ar­frum­vörp­um, jafn­vel reyna að koma í veg fyr­ir fram­gang stjórn­ar­mála, hvað þá að vinna að fram­gangi hug­sjóna okk­ar Sjálf­stæðismanna.

Fyr­ir mig sem þing­mann Sjálf­stæðis­flokks­ins er það gleðilegt að rík­is­stjórn und­ir for­ystu Bjarna Bene­dikts­son­ar hafi tekið við völd­um. Fáum treysti ég bet­ur til að vinna að lausn þeirra verk­efna sem eru mest knýj­andi. Mögu­leik­ar okk­ar Sjálf­stæðismanna til að koma mik­il­væg­um mál­um á dag­skrá og vinna að fram­gangi þeirra eru meiri nú en fyr­ir nokkr­um dög­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. apríl 2024.