Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Þú tapar leiknum ef þú ert ekki með augun á boltanum. Þetta á ekki bara við um íþróttaleiki heldur flest það sem við tökum okkur fyrir hendur. Við sem störfum í stjórnmálum þurfum að hafa þetta í huga alla daga, halda fókus og forgangsraða verkefnum, óháð stöðunni í stjórnmálunum hverju sinni. Staðan getur vissulega breyst og stjórnarsamstarf getur tekið á sig aðra mynd, en það má ekki hamla mikilvægum framfaraskrefum. Boltinn er verðmætasköpun og það er ekkert annað í boði en að vinna leikinn. Það skiptir ekki bara máli fyrir okkur heldur einnig komandi kynslóðir, sem við viljum að njóti sömu og helst betri lífskjara en við gerum í dag.
Við höfum náð árangri við það að fjölga stoðum atvinnulífsins og innviðum sem efla samkeppnishæfni Íslands – en við getum gert mun betur. Stjórnmálin snúast of oft um hluti sem skipta litlu máli í stóra samhenginu. Stjórnmálamenn reyna of oft að finna leiðir til að leggja fólki einhverja línu, segja fólki hvað það má og má ekki gera, segja og jafnvel hugsa. Of oft tökum við fram fyrir hendur þeirra sem reka fyrirtæki og setjum þeim reglur sem í mörgum tilvikum eru óþarfar eða leggjum á skatta og gjöld sem íþyngja rekstri þeirra. Stjórnmálamenn búa sér gjarnan til verkefni til að sýna fram á eigið mikilvægi, halda að nýjar reglur og nýir skattar séu einhvers konar stig á skortöflu stjórnmálanna, sem það er sjaldnast.
Forgangsverkefnin eru augljós. Við þurfum að einbeita okkur að því að vinna bug á verðbólgunni og einbeita okkur að mikilvægum innviðum. Orkumálin leysum við með því að fækka reglum og nýta okkur þá fjölmörgu kosti sem þar eru í boði. Útlendingamálin leysum við með því að þora að taka ákvarðanir þar sem reglurnar eru skýrar og til þess fallnar að auka skilvirkni. Í menntamálum þurfum við að auka fjölbreytni, sem verður að öllum líkindum ekki gert á skrifborðum opinberra stofnana heldur með því að búa einkaframtakinu jarðveg fyrir hugmyndir og ýta undir samkeppni og samstarf við atvinnulífið.
Í ríkisfjármálum er svigrúm til frekari útgjalda ekki fyrir hendi. Við þurfum því að draga saman seglin í ríkisrekstri, selja ríkisfyrirtæki í samkeppnisrekstri, forgangsraða fjármagni, nýta okkur tæknilausnir og ýta undir nýsköpun til að draga úr kostnaði til lengri tíma. Niðurskurður er svo orð sem áhugamenn um aukin ríkisútgjöld og aukna skattheimtu vilja ekki heyra, en það er þó á ábyrgð okkar að búa þannig um hnútana að komandi kynslóðir greiði ekki fyrir lífskjör okkar í dag með sköttum í framtíðinni.
Þetta eru forgangsverkefnin og við þurfum að hafa augun á boltanum. Ef við töpum þessum leik verður næsti leikur fyrir Ísland mun erfiðari.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2024.