Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík kallar eftir kjarkaðri umræðu um lausn leikskólavandans. Svo tryggja megi fjölskyldufólki úrræði í kjölfar fæðingarorlofs þarf kerfisbreytingu. Það er kominn tími til að ræða þá hugmynd af alvöru að hefja grunnskólagönguna við fimm ára aldur, og ljúka henni á fimmtánda ári, í stað þess sextánda.
Vaxandi vandi í Reykjavík
Á undanliðnum árum hefur leikskólavandinn farið vaxandi. Þrátt fyrir ítrekuð loforð um leikskólavist fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri hefur meðalaldur barna við inngöngu á leikskóla farið hækkandi á kjörtímabilinu og var 21-22 mánuðir við síðustu áramót.
Mikil samkeppni er um fágæta leikskólakennara og virðist útskrifaður fjöldi úr leikskólakennarafræðum ekki samsvara vaxandi fjölda barna á leikskólaaldri. Ein birtingarmynd þessa mönnunarvanda er sú, að á síðustu árum hafa á bilinu 200-400 leikskólapláss verið vannýtt í Reykjavík, einungis vegna manneklu.
Kennsla á forsendum leikskólans
Upphaf grunnskólagöngu við fimm ára aldur hefði í för með sér margvíslega kosti, en í fimm ára bekkjum gæti kennsla farið fram á forsendum leikskólans. Skapa mætti aukna tengingu milli leikskóla og grunnskóla og hugsa menntun barna með heildstæðum hætti allt frá unga aldri til loka grunnskólagöngunnar. Það er löngu tímabært að upphefja leikskólastarfið enda sýnir fjöldi rannsókna mikilvægi þess að leikur sé notaður sem kennsluaðferð fyrir ung börn.
Með því að hefja grunnskólagönguna ári fyrr gætum við jafnframt tryggt öllum börnum leikskólapláss við tólf mánaða aldur. Mönnunarvandinn væri nefnilega leystur, því eingöngu þyrfti að manna fjórtán árganga í skólakerfinu í stað fimmtán. Víða erlendis hefst grunnskólinn við fimm ára aldur og í flestum samanburðarlöndum útskrifast ungmenni úr framhaldsskóla 18 ára. Breytingin gæti tryggt aukna samkeppnishæfni íslenskra ungmenna og verið gæfuspor ef unnin á faglegum forsendum.
Hliðrun grunnskólagöngunnar myndi ekki einungis tryggja betri dreifingu mannauðs heldur jafnframt skapa fjárhagslegt svigrúm sem nemur allt að 4,4 milljörðum árlega. Þá fjármuni mætti nýta til að bæta kjör kennara en jafnframt tryggja bættar starfsaðstæður og heilnæmt og nútímalegt skólahúsnæði fyrir börn. Það er til mikils að vinna og full ástæða til að hefja kennarastarfið enn fremur til vegs og virðingar.
Tilraunaverkefni í borginni?
Skólakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartækið sem íslenskt samfélag býr yfir. Því er ætlað að tryggja börnum þá grunnfærni sem reynast mun nauðsynleg svo þau geti notið jafnra tækifæra og orðið virkir þátttakendur í okkar samfélagi. Hvers kyns kerfisbreytingar mega því undir engum kringumstæðum draga úr gæðum menntunar hérlendis.
Á borgarstjórnarfundi næsta þriðjudag leggur Sjálfstæðisflokkur því til að Reykjavíkurborg leiti samstarfs við nokkra grunnskóla í Reykjavík um tilraunaverkefni með fimm ára bekki. Fyrirkomulagið gefi foreldrum kost á að sækja um að skólaganga barna þeirra hefjist við fimm ára aldur, og að henni ljúki á fimmtánda aldursári í stað þess sextánda. Vel verði fylgst með framgangi verkefnisins, árangri og áskorunum.
Við val á þátttökuskólum verði tekið mið af biðlistum leikskóla og þeir skólar settir í forgang sem staðsettir eru innan hverfa þar sem leikskólavandinn er mestur. Með tilraunaverkefninu megi því kanna faglegan fýsileika fimm ára bekkja, en samhliða rýma aukinn fjölda leikskólaplássa og bregðast að hluta við biðlistavanda leikskólanna.
Spjótin beinast að sveitarfélögum
Krafa fjölskyldufólks um áreiðanleg úrræði í kjölfar fæðingarorlofs hefur orðið enn háværari undanliðin ár. Ríkisstjórnin hefur stigið mikilvæg skref með lengingu fæðingarorlofs og boðaðri hækkun á þaki orlofsgreiðslna. Spjótin beinast nú að sveitarfélögunum.
Það er vel mögulegt að leysa neyðarástand í leikskólamálum borgarinnar – en til þess þarf að hugsa út fyrir boxið. Samhliða endurskoðun leik- og grunnskólakerfisins mætti skoða úrræði á borð við heimgreiðslur, daggæslu á vinnustöðum og öflugra dagforeldrakerfi. Fjölskyldur eru ólíkar og þeim þarf að bjóða fjölbreytt úrræði.
Samfélagið hefur hag af því að styðja vel við barnafólk og búa vel að uppvexti framtíðarinnar. Ekki síst með hliðsjón af sílækkandi fæðingartíðni hérlendis. Stjórnmálamenn þurfa að hafa hugrekki til að endurskoða opinber kerfi sem þjóna ekki lengur fólki – og kjarkinn til að ræða breytingar þegar breytinga er þörf.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.