Fyrirspurn um framlag fólks til hins opinbera eftir þjóðerni
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Í liðnum mánuði fjallaði Viðskipta­blaðið um gögn frá dönsku hag­stof­unni og fjár­málaráðuneyt­inu, m.a. varðandi stöðu inn­flytj­enda á vinnu­markaði. Af um­fjöll­un blaðsins má ráða að op­in­ber gögn um inn­flytj­end­ur í Dan­mörku séu bæði ít­ar­leg og gefi grein­argóðar upp­lýs­ing­ar um viðfangs­efnið. Danska fjár­málaráðuneytið hef­ur ár­lega gefið út skýrsl­ur frá ár­inu 2015 þar sem hreint fram­lag inn­flytj­enda til hins op­in­bera er borið sam­an við íbúa af dönsk­um upp­runa. Um­fjöll­un Viðskipta­blaðsins var um­fangs­mik­il og byggðist eins og fyrr seg­ir á op­in­ber­um upp­lýs­ing­um.

Ein­hverj­um gramd­ist um­fjöll­un Viðskipta­blaðsins, en gagn­rýn­in var þó lág­vær­ari en við mátti bú­ast. Aðrir fögnuðu henni. Pólsk­ir inn­flytj­end­ur og Íslend­ing­ar sem tengj­ast þeim fjöl­skyldu­bönd­um höfðu t.a.m. orð á því við und­ir­ritaða. Um­fjöll­un Viðskipta­blaðsins, sem rataði sömu­leiðis á miðla Morg­un­blaðsins, dró nefni­lega fram að pólsk­ir inn­flytj­end­ur í Dan­mörku væru síður á op­in­beru fram­færi en fólk af dönsk­um upp­runa. Sömu­leiðis væri glæpatíðni meðal Pól­verja und­ir meðaltali í sér­stakri vísi­tölu dönsku hag­stof­unn­ar. Rétt eins og á Íslandi eru Pól­verj­ar fjöl­menn­asti hóp­ur inn­flytj­enda í Dan­mörku.

Við get­um lært margt af ná­grannaþjóðum okk­ar og margt er líkt með okk­ur Norður­landaþjóðum. Mér þótti því rétt að leggja fram fyr­ir­spurn á Alþingi til fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um hvort ís­lenska ríkið byggi yfir sam­bæri­legri töl­fræði um fram­lag fólks til og frá hinu op­in­bera eft­ir þjóðerni. Fyr­ir­spurn­ina lagði ég fram í kjöl­far um­fjöll­un­ar hér­lend­is um upp­lýs­inga­söfn­un danskra stjórn­valda. Sömu­leiðis óskaði ég eft­ir upp­lýs­ing­um um hvort ráðherr­ann hefði í hyggju að láta taka sam­an slíka töl­fræði, væri hún ekki til. Niðurstaðan, hver sem hún væri, yrði mjög lær­dóms­rík fyr­ir okk­ur. Í fram­hald­inu gæt­um við gripið til for­varna og nauðsyn­legra ráðstaf­ana kæmi í ljós að staðan væri svipuð hér og í Dan­mörku.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 2024.