Auka þarf viðhald gönguleiða í Reykjavík
'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Aðkallandi er að bæta viðhald gang­stétta og göngu­stíga í Reykja­vík þar sem því er víða ábóta­vant. Víða í borg­inni eru gang­stétt­ir eydd­ar, ójafn­ar eða brotn­ar. Þá hafa hell­ur víða losnað frá með þeim af­leiðing­um að hol­ur og ójöfn­ur mynd­ast. Slíkt hef­ur óþæg­indi og hætt­ur í för með sér fyr­ir gang­andi og hjólandi veg­far­end­ur.

Borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins vilja að úr þessu verði bætt. Enda er það ein af höfuðskyld­um hverr­ar borg­ar að greiðfært sé um gang­stétt­ir henn­ar og stíga og viðhaldi sinnt sóma­sam­lega.

Viðhaldi ábóta­vant

Und­ir­ritaður hef­ur ít­rekað fengið ábend­ing­ar um gang­stétt­ir og gang­braut­ir þar sem ekki ból­ar á viðgerð þrátt fyr­ir að heilu hell­urn­ar hafi losnað frá og skemmd­ir verið áber­andi árum sam­an.

Fyr­ir rúmu ári óskaði ég eft­ir upp­lýs­ing­um um fyr­ir­komu­lag gang­stétt­ar­viðhalds í borg­inni. Þar kæmi fram hvernig fylgst sé með ástandi gang­stétta og göngu­leiða frá ári til árs og hvernig staðið sé að eft­ir­liti með hell­um og hleðslu­stein­um, sem hefðu losnað eða þyrftu viðgerð af öðrum sök­um. Rúma ell­efu mánuði tók að fá svar við fyr­ir­spurn­inni í borg­ar­kerf­inu.

Til­lög­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins

Höf­um við borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins lagt fram marg­ar til­lög­ur um viðgerðir og end­ur­bæt­ur á gang­stétt­um, gang­braut­um og hjóla­stíg­um þar sem úr­bæt­ur eru aðkallandi. Er m.a. um að ræða kafla við Álfta­mýri, Bú­staðaveg, Bugðu, Drápu­hlíð, Elliðabraut, Haga­sel-Selja­skóga, Hofs­valla­götu, Lang­holts­veg, Lauga­læk, Laug­ar­nes­veg, Laufengi-Reyr­engi, Norðlinga­braut, Stór­höfða, Strand­veg, Úlfars­braut og Vest­ur­berg.

Höf­um við borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins einnig lagt til að ráðist verði í viðhaldsátak við hellu­lagðar gang­braut­ir og hraðahindr­an­ir í borg­inni. Slíkt viðhald hef­ur verið van­rækt og hol­ur og ójöfn­ur því mynd­ast á mörg­um gang­braut­um. Slíkt hef­ur óþæg­indi og hætt­ur í för með sér, ekki síst fyr­ir gang­andi og hjólandi veg­far­end­ur. Flest­ir sjá að óskyn­sam­legt er að láta slíkt viðhald reka á reiðanum þar sem laus­ar hell­ur eru fljót­ar að smita út frá sér ef ekk­ert er að gert og valda þannig enn meiri skemmd­um og óþæg­ind­um.

Óeðli­leg for­gangs­röðun

Til­lög­um um slíkt viðhald og end­ur­bæt­ur er yf­ir­leitt kurt­eis­lega tekið og síðan vísað til frek­ari meðferðar í borg­ar­kerf­inu. Emb­ætt­is­menn viður­kenna að standa þurfi mun bet­ur að viðhaldi göngu­leiða en benda á að fjár­veit­ing­ar vanti. Hið sama gild­ir um aðgerðir í um­ferðarör­ygg­is­mál­um, ekki síst í eystri hverf­um borg­ar­inn­ar.

Á sama tíma og slíkt viðhald er van­rækt, er hins veg­ar mik­il áhersla lögð á ný­verk­efni í gatna­gerð vest­an meg­in í borg­inni þar sem kostnaður nem­ur hundruðum millj­óna króna eða jafn­vel millj­örðum eins og fyr­ir­huguð Foss­vogs­brú er dæmi um.

Þess­ari for­gangs­röðun þarf að breyta og leggja aukna áherslu á grunnþjón­ustu, þ.e. viðhald gang­stétta, gang­brauta og hjóla­stíga sem og aðrar aðgerðir í þágu um­ferðarör­ygg­is.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.