Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Aðkallandi er að bæta viðhald gangstétta og göngustíga í Reykjavík þar sem því er víða ábótavant. Víða í borginni eru gangstéttir eyddar, ójafnar eða brotnar. Þá hafa hellur víða losnað frá með þeim afleiðingum að holur og ójöfnur myndast. Slíkt hefur óþægindi og hættur í för með sér fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja að úr þessu verði bætt. Enda er það ein af höfuðskyldum hverrar borgar að greiðfært sé um gangstéttir hennar og stíga og viðhaldi sinnt sómasamlega.
Viðhaldi ábótavant
Undirritaður hefur ítrekað fengið ábendingar um gangstéttir og gangbrautir þar sem ekki bólar á viðgerð þrátt fyrir að heilu hellurnar hafi losnað frá og skemmdir verið áberandi árum saman.
Fyrir rúmu ári óskaði ég eftir upplýsingum um fyrirkomulag gangstéttarviðhalds í borginni. Þar kæmi fram hvernig fylgst sé með ástandi gangstétta og gönguleiða frá ári til árs og hvernig staðið sé að eftirliti með hellum og hleðslusteinum, sem hefðu losnað eða þyrftu viðgerð af öðrum sökum. Rúma ellefu mánuði tók að fá svar við fyrirspurninni í borgarkerfinu.
Tillögur Sjálfstæðisflokksins
Höfum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram margar tillögur um viðgerðir og endurbætur á gangstéttum, gangbrautum og hjólastígum þar sem úrbætur eru aðkallandi. Er m.a. um að ræða kafla við Álftamýri, Bústaðaveg, Bugðu, Drápuhlíð, Elliðabraut, Hagasel-Seljaskóga, Hofsvallagötu, Langholtsveg, Laugalæk, Laugarnesveg, Laufengi-Reyrengi, Norðlingabraut, Stórhöfða, Strandveg, Úlfarsbraut og Vesturberg.
Höfum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins einnig lagt til að ráðist verði í viðhaldsátak við hellulagðar gangbrautir og hraðahindranir í borginni. Slíkt viðhald hefur verið vanrækt og holur og ójöfnur því myndast á mörgum gangbrautum. Slíkt hefur óþægindi og hættur í för með sér, ekki síst fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Flestir sjá að óskynsamlegt er að láta slíkt viðhald reka á reiðanum þar sem lausar hellur eru fljótar að smita út frá sér ef ekkert er að gert og valda þannig enn meiri skemmdum og óþægindum.
Óeðlileg forgangsröðun
Tillögum um slíkt viðhald og endurbætur er yfirleitt kurteislega tekið og síðan vísað til frekari meðferðar í borgarkerfinu. Embættismenn viðurkenna að standa þurfi mun betur að viðhaldi gönguleiða en benda á að fjárveitingar vanti. Hið sama gildir um aðgerðir í umferðaröryggismálum, ekki síst í eystri hverfum borgarinnar.
Á sama tíma og slíkt viðhald er vanrækt, er hins vegar mikil áhersla lögð á nýverkefni í gatnagerð vestan megin í borginni þar sem kostnaður nemur hundruðum milljóna króna eða jafnvel milljörðum eins og fyrirhuguð Fossvogsbrú er dæmi um.
Þessari forgangsröðun þarf að breyta og leggja aukna áherslu á grunnþjónustu, þ.e. viðhald gangstétta, gangbrauta og hjólastíga sem og aðrar aðgerðir í þágu umferðaröryggis.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.