Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Steinsnar frá mínu æskuheimili er stærsta stætóskiptistöð höfuðborgarsvæðisins, Mjóddin. Lengst af rak Strætó bs. skiptistöðina en árið 2015 tók Reykjavíkurborg, sem eigandi mannvirkisins, við rekstrinum.
Síðan þá hefur skiptistöðin hægt og sígandi drabbast niður. Sem dæmi er algengt að salerni stöðvarinnar séu lokuð, engin þjónusta sé í boði fyrir farþega, húsbúnaður sé rýr í roðinu sem og opnunartími stöðvarinnar. Mannvirkið er ansi stórt en öryggisgæsla er lítt sjáanleg.
Tillöguflutningur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hafa í gegnum tíðina lagt fram tillögur til að rekstur skiptistöðvarinnar í Mjódd komist í viðunandi horf. Þessar tillögur hafa ekki fengið brautargengi innan borgarkerfisins, sbr. t.d. afgreiðslur borgarráðs 8. júní 2017, borgarstjórnar 3. janúar 2023 og umhverfis- og skipulagsráðs 17. janúar 2024.
Hinn 13. mars sl. sendu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði fyrirspurn um málið og á dagskrá fundar íbúaráðs Breiðholts miðvikudaginn 3. apríl næstkomandi hefur svohljóðandi tillaga verið lögð fram af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
„Lagt er til að íbúaráð Breiðholts beini því til borgarráðs að ráðið tryggi að verk- og framkvæmdaáætlun liggi fyrir eigi síðar en 1. október 2024 sem miði að því bæta og styrkja skiptistöðina í Mjódd. Í slíkri áætlun verði að lágmarki tekin afstaða til eftirfarandi atriða:
- Að opnunartími skiptistöðvarinnar verði lengdur;
- Að öryggisgæsla við skiptistöðina verði aukin;
- Að aðgangur notenda skiptistöðvarinnar að fullnægjandi salernisaðstöðu verði tryggður;
- Að tillögur að framtíðaruppbyggingu mannvirkisins, sem skiptistöðin er hluti af, verði lagðar fram.“
Breytinga er þörf í Mjóddinni
Skiptistöðin í Mjódd skiptir verulegu máli fyrir almenningssamgöngur, ekki bara fyrir höfuðborgarsvæðið heldur einnig fyrir landsbyggðina. Margar tillögur hafa verið lagðar fram um hvernig bæta megi rekstur skiptistöðvarinnar í Mjódd. Vinstri-meirihlutinn í borgarstjórn hefur hins vegar ítrekað hundsað slíkar tillögur. Á sama tíma hefur flætt fjármagn úr borgarsjóði til að sinna gæluverkefnum á borð við torgagerð í miðborg Reykjavíkur.
Breyta þarf þessari forgangsröð. Verja þarf takmörkuðu fjármagni borgarsjóðs í þágu grunnþjónustu. Skiptistöðin í Mjódd á að gegna veigamiklu hlutverki í slíkri grunnþjónustu.
Sé eitthvað að marka orðagjálfur þeirra, sem telja mikilvægt að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þá þarf að grípa núna til aðgerða svo bæta megi skiptistöðina í Mjódd.
Greinin birtist á Vísi 1. apríl 2024.