Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Páskainnslag í þætti Gísla Marteins á ríkismiðlinum RÚV hefur vakið hörð viðbrögð hjá kristnu fólki. Jafnvel fólki sem vanalega tiplar á tánum í kringum þennan félagsskap. Páskarnir eru nefnilega ekki bara kærkomnar samverustundir með fjölskyldunni, ofát og skíðafrí. Páskarnir eru heilagasta hátíð kristinna manna þegar við minnumst krossfestingar og upprisu Jesú Krists. Krossinn er helgasta tákn kristinna manna, pyntingatækið sem fékk nýja merkingu hjá kristnum sem nota hann sem sigur- og kærleikstákn.
Meirihluti Íslendinga er kristinnar trúar og trúin er stjórnarskrárvarin. Flestir þeirra halda þó eflaust meira í barnatrúna en ákafan og formfastan kristindóm. Íslenskt samfélag er enda ekki þjakað af ofríki trúarbragða þótt hér hafi ekki farið fram formlegur aðskilnaður ríkis og kirkju. Það kemur því e.t.v. lítið á óvart að hér tengi fjölmargir páskana meira við kærkomna frídaga til að njóta þess að borða góðan mat og eyða tíma með fjölskyldunni. Færri hugsa því til síðustu kvöldmáltíðar Jesú Krists með lærisveinunum. Sorgardagsins þegar ritningin rættist og Kristi var hafnað og afneitað af fylgismönnum sínum og dæmdur til að deyja á krossi. Til föstudagsins langa þegar Jesú Kristur var pyntaður til dauða; krossfestur á Golgatahæð.
Aukin fjölmenning í íslensku samfélagi og alþjóðavæðing heimsins hefur kynnt okkur framandi menningu og trúarbrögð. Hún hefur opnað augu okkar fyrir ólíkum siðum og háttum og aukið umburðarlyndi og víðsýni. Þessum breytingum hafa þó líka fylgt átök, ekki síst í nágrannalöndum okkar. Þar hefur m.a. verið tekist á um jafnvægi á milli skoðana- og tjáningarfrelsis og virðingar fyrir ólíkri menningu og trúarbrögðum. Viðbrögð og aðgerðir fólks hafa þó verið ærið misjöfn og hefur borið á alvarlegum ofbeldisverkum sem stafa frá menningarsvæðum þar sem lítil virðing er borin fyrir slíkri tjáningu. Ég er t.a.m. ekki viss um að starfsmenn RÚV myndu gantast með Ramadan, trúarmánuð múslima sem stendur nú yfir.
Við búum blessunarlega við ríkt tjáningarfrelsi á Íslandi og tiltölulega gott skopskyn. Við erum alla jafna frjálslynd og tökum okkur ekki of alvarlega. En það er spurning hvort þeir sem tala ákaft fyrir umburðarlyndi og góðmennsku í garð fjarlægra heimshluta ættu ekki að sýna siðum og háttum samlanda sinna sömu virðingu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. apríl 2024.