Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Páskahátíðin er sú sem markað hefur upphaf vors á norðurhveli jarðar frá því löngu fyrir tíma kristninnar. Hér á Íslandi erum við samt sem áður mjög vel meðvituð um að það getur verið langt í að okkur líði eins og veðurfarið líkist raunverulegu vori. Jafnvel þótt við flettum dagatalinu inn í apríl, maí og jafnvel júní er ekki hægt að stóla á að veðurfarið hlýði dagsetningunum.
Þegar ég rökræði við sjö ára dóttur mína um að vorið sé á leiðinni heldur hún sig við umræddar dagsetningar og bendir mér á þá staðreynd að vorið sé sannarlega komið. En við gerum ráð fyrir að fá yfir okkur hret um páska og allra veðra er von um langa hríð.
Það er hins vegar hægt að treysta með vísindalega sannaðri fullvissu á að gangur sólarinnar hlýðir dagatalinu algjörlega. Við fögnum hátíð ljóssins um jól, þegar sólarhringinn tekur smám saman að lengja – og um páska getum við þakkað fyrir að birtan hefur hrifsað völdin af myrkrinu og við finnum rækilega fyrir því á hverjum degi að dagarnir verða lengri og bjartari.
Undirliggjandi straumar
Við lifum á tímum þar sem margvísleg upplausn virðist ríkja á fjölmörgum sviðum. Vart þarf að fjölyrða um þá hrikalegu þróun sem hefur orðið í alþjóðamálum þar sem grafið er undan hinni almennu samstöðu um alþjóðalög sem ríkt hefur frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
Flest ríki á Vesturlöndum horfa fram á torleyst verkefni á næstu áratugum þar sem sífellt færra fólk á vinnualdri mun þurfa að styðja við vaxandi fjölda í hópi aldraðra. Þessum raunverulegu vandamálum til viðbótar hafa margir vaxandi áhyggjur af því að síbylja afþreyingar og áróðurs grafi undan getu okkar sem einstaklinga til þess að skilja heiminn og draga skynsamlegar ályktanir.
Undanfarið hefur þeirri hugmynd vaxið ásmegin að með sameiningu samfélagsmiðla og snjallsíma fyrir rúmum áratug hafi orðið afdrifarík vatnaskil með afgerandi afleiðingum um hvernig við upplifum okkur sem einstaklingar í samfélagi við aðra einstaklinga. Margt bendir til þess að einmanaleiki fari vaxandi meðal eldra fólks, en kvíði og þunglyndi hjá þeim yngri.
Samfélagsbreytingar á borð við þessar eru að jafnaði ekki ofarlega á baugi stjórnmálaumræðunnar. Jafnvel þótt við vitum vel að líklega er fátt mikilvægara að skilja heldur en einmitt þá undirliggjandi strauma þá eru það jafnan gárurnar á yfirborðinu sem við veitum mesta athygli frá degi til dags.
Sagan um páskana greinir líka frá þeirri meiriháttar undirliggjandi breytingu á viðhorfi sem fólst í boðskap kristninnar. Þótt Jesú hafi tekist að laða að boðskap sínum stóra hópa á skömmum tíma þá tók það margar aldir að dreifa honum um heim allan. En áhrifin voru mikil og afgerandi. Einkum var áherslan á betrumbót, fyrirgefningu og mildi það sem gjörbreytti ríkjandi viðhorfum þeirra sem fylgdu Kristi, en í frumstæðari samfélögum voru skömm, heiður og hefnd í hávegum. Páskarnir og vorið boða að lífið sé að kvikna á ný; akrar grænka, blómin blómstra, lömbin fæðast og ungarnir finna sér leið til þess að brjótast gegnum eggjaskurnina. Lífið sigrar með nýju upphafi.
Maður er manns gaman
Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum og sá grunur læðist oft að mér að mörg svör kunni að felast í margtuggnum sannindum fyrri tíma, sem samt sem áður gleymast af og til. Það er eflaust mikið til í því að samfélagsbreytingar undanfarna áratugi séu umfangsmeiri og hraðari en áður hafi sést í sögu mannkyns. En það er samt ólíklegt að við höfum breyst mikið sem manneskjur á þessum tíma; og sá sannleikur að maður sé manns gaman er langtum eldri en hin kristna páskahátíð á Íslandi. Þegar við fögnum páskum, eða njótum þeirra frídaga sem þeim fylgja, er gott tækifæri til þess að minna sig á mikilvægi þess að hlúa að samfélaginu okkar, að hvert öðru og þeim grundvelli sem það hvílir á.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 31. mars 2024.