Gleðilega páska
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Páska­hátíðin er sú sem markað hef­ur upp­haf vors á norður­hveli jarðar frá því löngu fyr­ir tíma kristn­inn­ar. Hér á Íslandi erum við samt sem áður mjög vel meðvituð um að það get­ur verið langt í að okk­ur líði eins og veðurfarið lík­ist raun­veru­legu vori. Jafn­vel þótt við flett­um daga­tal­inu inn í apríl, maí og jafn­vel júní er ekki hægt að stóla á að veðurfarið hlýði dag­setn­ing­un­um.

Þegar ég rök­ræði við sjö ára dótt­ur mína um að vorið sé á leiðinni held­ur hún sig við um­rædd­ar dag­setn­ing­ar og bend­ir mér á þá staðreynd að vorið sé sann­ar­lega komið. En við ger­um ráð fyr­ir að fá yfir okk­ur hret um páska og allra veðra er von um langa hríð.

Það er hins veg­ar hægt að treysta með vís­inda­lega sannaðri full­vissu á að gang­ur sól­ar­inn­ar hlýðir daga­tal­inu al­gjör­lega. Við fögn­um hátíð ljóss­ins um jól, þegar sól­ar­hring­inn tek­ur smám sam­an að lengja – og um páska get­um við þakkað fyr­ir að birt­an hef­ur hrifsað völd­in af myrkr­inu og við finn­um ræki­lega fyr­ir því á hverj­um degi að dag­arn­ir verða lengri og bjart­ari.

Und­ir­liggj­andi straum­ar

Við lif­um á tím­um þar sem marg­vís­leg upp­lausn virðist ríkja á fjöl­mörg­um sviðum. Vart þarf að fjöl­yrða um þá hrika­legu þróun sem hef­ur orðið í alþjóðamál­um þar sem grafið er und­an hinni al­mennu sam­stöðu um alþjóðalög sem ríkt hef­ur frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar.

Flest ríki á Vest­ur­lönd­um horfa fram á tor­leyst verk­efni á næstu ára­tug­um þar sem sí­fellt færra fólk á vinnualdri mun þurfa að styðja við vax­andi fjölda í hópi aldraðra. Þess­um raun­veru­legu vanda­mál­um til viðbót­ar hafa marg­ir vax­andi áhyggj­ur af því að sí­bylja afþrey­ing­ar og áróðurs grafi und­an getu okk­ar sem ein­stak­linga til þess að skilja heim­inn og draga skyn­sam­leg­ar álykt­an­ir.

Und­an­farið hef­ur þeirri hug­mynd vaxið ásmeg­in að með sam­ein­ingu sam­fé­lags­miðla og snjallsíma fyr­ir rúm­um ára­tug hafi orðið af­drifa­rík vatna­skil með af­ger­andi af­leiðing­um um hvernig við upp­lif­um okk­ur sem ein­stak­ling­ar í sam­fé­lagi við aðra ein­stak­linga. Margt bend­ir til þess að ein­mana­leiki fari vax­andi meðal eldra fólks, en kvíði og þung­lyndi hjá þeim yngri.

Sam­fé­lags­breyt­ing­ar á borð við þess­ar eru að jafnaði ekki of­ar­lega á baugi stjórn­má­laum­ræðunn­ar. Jafn­vel þótt við vit­um vel að lík­lega er fátt mik­il­væg­ara að skilja held­ur en ein­mitt þá und­ir­liggj­andi strauma þá eru það jafn­an gár­urn­ar á yf­ir­borðinu sem við veit­um mesta at­hygli frá degi til dags.

Sag­an um pásk­ana grein­ir líka frá þeirri meiri­hátt­ar und­ir­liggj­andi breyt­ingu á viðhorfi sem fólst í boðskap kristn­inn­ar. Þótt Jesú hafi tek­ist að laða að boðskap sín­um stóra hópa á skömm­um tíma þá tók það marg­ar ald­ir að dreifa hon­um um heim all­an. En áhrif­in voru mik­il og af­ger­andi. Einkum var áhersl­an á betr­um­bót, fyr­ir­gefn­ingu og mildi það sem gjör­breytti ríkj­andi viðhorf­um þeirra sem fylgdu Kristi, en í frum­stæðari sam­fé­lög­um voru skömm, heiður og hefnd í há­veg­um. Pásk­arn­ir og vorið boða að lífið sé að kvikna á ný; akr­ar grænka, blóm­in blómstra, lömb­in fæðast og ung­arn­ir finna sér leið til þess að brjót­ast gegn­um eggja­skurn­ina. Lífið sigr­ar með nýju upp­hafi.

Maður er manns gam­an

Við stönd­um frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um og sá grun­ur læðist oft að mér að mörg svör kunni að fel­ast í margtuggn­um sann­ind­um fyrri tíma, sem samt sem áður gleym­ast af og til. Það er ef­laust mikið til í því að sam­fé­lags­breyt­ing­ar und­an­farna ára­tugi séu um­fangs­meiri og hraðari en áður hafi sést í sögu mann­kyns. En það er samt ólík­legt að við höf­um breyst mikið sem mann­eskj­ur á þess­um tíma; og sá sann­leik­ur að maður sé manns gam­an er langt­um eldri en hin kristna páska­hátíð á Íslandi. Þegar við fögn­um pásk­um, eða njót­um þeirra frí­daga sem þeim fylgja, er gott tæki­færi til þess að minna sig á mik­il­vægi þess að hlúa að sam­fé­lag­inu okk­ar, að hvert öðru og þeim grund­velli sem það hvíl­ir á.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 31. mars 2024.