Ábyrg lífskjarasókn

Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:

Ég hef ákveðna samúð með póli­tísk­um and­stæðing­um okk­ar Sjálf­stæðismanna. Fyr­ir þá er erfitt að horfa á síðustu 10 árin og viður­kenna að und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur tek­ist að lækka skatta, ekki síst á launa­fólk, auka tekj­ur rík­is­ins og auka fram­lag rík­is­ins til vel­ferðar- og heil­brigðismála. Okk­ur hef­ur sem sagt tek­ist að stækka kök­una öll­um til hags­bóta.

Til er sá hóp­ur sem nálg­ast hug­mynda­fræði Sjálf­stæðis­flokks­ins um stækk­un kök­unn­ar sem ein­hvers kon­ar flökku­sögu og ríg­halda frek­ar í hug­mynda­fræði for­sjár­hyggj­unn­ar um að ríkið taki frek­ar meira fé af fólki og fyr­ir­tækj­um og deili því svo út á for­send­um rík­is­ins frek­ar en fólks. Sam­fylk­ing fell­ir grím­una í hverju mál­inu á eft­ir öðru þessa dag­ana og það er orðið dag­ljóst að á stefnu­skrá Sam­fylk­ing­ar­inn­ar er lítið annað en skatta­hækk­an­ir á venju­legt fólk og fyr­ir­tæki sem er ekki kræsi­leg framtíðar­sýn fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.

Í hring­ferð þing­flokks Sjálf­stæðis­flokks­ins var rút­an merkt sér­stak­lega að aft­an og fólk beðið að flauta ef það vildi lægri skatta. Fjöldi fólks flautaði á okk­ur alla ferðina en svo voru aðrir sem urðu hvumpn­ir yfir uppá­tæk­inu og töldu að við Sjálf­stæðis­menn vær­um að kasta stein­um úr gler­húsi; við hefðum hækkað skatta en ekki lækkað. Það er ekki rétt og er rétt að halda til haga. Hitt er hins veg­ar rétt og ég skal fyrst til að viður­kenna að við hefðum getað ná meiri ár­angri við lækk­un skatta hefðum við haft til þess þingstyrk.

Staðreynd­ir tala sínu máli

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur staðið fyr­ir skatta­lækk­un­um í sinni rík­is­stjórn­artíð frá ár­inu 2013. Fyrst má nefna niður­fell­ingu á 800 toll­um og vöru­gjöld­um. Svo má bæta við af­námi milliþreps í tekju­skatti, nýju lægra þrepi í tekju­skatti, vísi­tölu­teng­ingu per­sónu­afslátt­ar, lækk­un al­menna virðis­auka­skattsþreps­ins, lækk­un banka­skatts, krónu­tölu­hækk­un­um sem ekki fylgja verðlagi, skatt­frjálsri ráðstöf­un sér­eigna­sparnaðar inn á íbúðalán, frí­tekju­marki fjár­magn­stekna, af­námi stimp­il­gjalda af láns­skjöl­um og niður­fell­ingu al­mennra vöru­gjalda. Ný­leg­asta dæmið er lækk­un áfeng­is­gjalda á minni brugg­hús.

Nettó skatta­lækk­un 310 millj­arðar

Ný­lega barst Óla Birni Kára­syni svar við fyr­ir­spurn sinni um skatta­lækk­an­ir árin 2013-2023 og kom þar í ljós að nettó skatta­lækk­un um­fram skatta­hækk­an­ir á þess­um árum, án þess að tekn­ar séu með tíma­bundn­ar covid-ráðstaf­an­ir, eru tæp­lega 310 millj­arðar. Það mun­ar um minna fyr­ir heim­il­in og fyr­ir­tæk­in í land­inu.

Á meðan Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er ekki einn í rík­is­stjórn verður ávallt að miðla mál­um. Und­an­far­in tvö kjör­tíma­bil höf­um við verið í sam­starfi við flokka sem er ekk­ert laun­ung­ar­mál að vilja frek­ar hækka skatta en lækka þá. Út á við sjást ekki all­ar þær skatta­hækk­ana­til­lög­ur sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ýtir reglu­lega út af borðunum. En það er ekki nóg að spyrna við skatta­hækk­un­um, við vilj­um líka lækka þá. Skatta­lækk­an­ir hafa verið for­senda fyr­ir þeirri ótrú­legu lífs­kjara­sókn sem hef­ur átt sér stað á Íslandi und­an­far­inn ára­tug og verk­efnið okk­ar verður að svo megi áfram verða.

Nú þegar fjár­mála­áætl­un fer að líta dags­ins ljós er mik­il­vægt að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn dragi vagn skyn­sem­inn­ar, tali fyr­ir skýrri for­gangs­röðun og spyrni sem fyrr gegn skatta­hækk­un­um. Sam­hliða kjara­samn­ing­um til lengri tíma höf­um við með ábyrgri pen­inga­stefnu ástæðu til þess að mæta vor­inu vongóð um að lífs­kjör Íslend­inga verði sem fyrr öf­und­ar­efni annarra þjóða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. mars 2024.