Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Ég hef ákveðna samúð með pólitískum andstæðingum okkar Sjálfstæðismanna. Fyrir þá er erfitt að horfa á síðustu 10 árin og viðurkenna að undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur tekist að lækka skatta, ekki síst á launafólk, auka tekjur ríkisins og auka framlag ríkisins til velferðar- og heilbrigðismála. Okkur hefur sem sagt tekist að stækka kökuna öllum til hagsbóta.
Til er sá hópur sem nálgast hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um stækkun kökunnar sem einhvers konar flökkusögu og ríghalda frekar í hugmyndafræði forsjárhyggjunnar um að ríkið taki frekar meira fé af fólki og fyrirtækjum og deili því svo út á forsendum ríkisins frekar en fólks. Samfylking fellir grímuna í hverju málinu á eftir öðru þessa dagana og það er orðið dagljóst að á stefnuskrá Samfylkingarinnar er lítið annað en skattahækkanir á venjulegt fólk og fyrirtæki sem er ekki kræsileg framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag.
Í hringferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins var rútan merkt sérstaklega að aftan og fólk beðið að flauta ef það vildi lægri skatta. Fjöldi fólks flautaði á okkur alla ferðina en svo voru aðrir sem urðu hvumpnir yfir uppátækinu og töldu að við Sjálfstæðismenn værum að kasta steinum úr glerhúsi; við hefðum hækkað skatta en ekki lækkað. Það er ekki rétt og er rétt að halda til haga. Hitt er hins vegar rétt og ég skal fyrst til að viðurkenna að við hefðum getað ná meiri árangri við lækkun skatta hefðum við haft til þess þingstyrk.
Staðreyndir tala sínu máli
Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir skattalækkunum í sinni ríkisstjórnartíð frá árinu 2013. Fyrst má nefna niðurfellingu á 800 tollum og vörugjöldum. Svo má bæta við afnámi milliþreps í tekjuskatti, nýju lægra þrepi í tekjuskatti, vísitölutengingu persónuafsláttar, lækkun almenna virðisaukaskattsþrepsins, lækkun bankaskatts, krónutöluhækkunum sem ekki fylgja verðlagi, skattfrjálsri ráðstöfun séreignasparnaðar inn á íbúðalán, frítekjumarki fjármagnstekna, afnámi stimpilgjalda af lánsskjölum og niðurfellingu almennra vörugjalda. Nýlegasta dæmið er lækkun áfengisgjalda á minni brugghús.
Nettó skattalækkun 310 milljarðar
Nýlega barst Óla Birni Kárasyni svar við fyrirspurn sinni um skattalækkanir árin 2013-2023 og kom þar í ljós að nettó skattalækkun umfram skattahækkanir á þessum árum, án þess að teknar séu með tímabundnar covid-ráðstafanir, eru tæplega 310 milljarðar. Það munar um minna fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.
Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einn í ríkisstjórn verður ávallt að miðla málum. Undanfarin tvö kjörtímabil höfum við verið í samstarfi við flokka sem er ekkert launungarmál að vilja frekar hækka skatta en lækka þá. Út á við sjást ekki allar þær skattahækkanatillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn ýtir reglulega út af borðunum. En það er ekki nóg að spyrna við skattahækkunum, við viljum líka lækka þá. Skattalækkanir hafa verið forsenda fyrir þeirri ótrúlegu lífskjarasókn sem hefur átt sér stað á Íslandi undanfarinn áratug og verkefnið okkar verður að svo megi áfram verða.
Nú þegar fjármálaáætlun fer að líta dagsins ljós er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn dragi vagn skynseminnar, tali fyrir skýrri forgangsröðun og spyrni sem fyrr gegn skattahækkunum. Samhliða kjarasamningum til lengri tíma höfum við með ábyrgri peningastefnu ástæðu til þess að mæta vorinu vongóð um að lífskjör Íslendinga verði sem fyrr öfundarefni annarra þjóða.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. mars 2024.