Óli Björn Kárason alþingismaður:
Sú von er sterk, hún verður eigi slökkt,
að vorið komi þó að geisi hríð.
Eins sigrar Drottinn alla ógn og stríð.
Og þó að dauðinn hremmi hart og snöggt
er hönd að baki, mild og trú og góð,
hún leiðir fram til ljóss um myrka slóð.
Þótt lán sé brothætt, lífið valt og stökkt,
er líkn í hverri raun og tári manns,
því þar er Kristur, kross og páskar hans.
Og þegar hylur húmið svalt og dökkt
þinn heim og salta döggin vætir kinn
þá kemur hann og færir friðinn sinn.
Sú von er sönn, hún verður aldrei slökkt,
hún vekur þína sál við hinsta ós,
að Kristur breytir öllu í eilíft ljós.
(Sigurbjörn Einarsson)
Páskarnir og vorið tengjast órjúfanlegum böndum í boðskap um sigur lífsins. Vonin sigrar óttann og birtan myrkrið.
Við fögnum páskunum hvert með okkar hætti. Í faðmi fjölskyldunnar, í návist vina og ókunnugra. Njótum útivistar, bregðum á leik og gerum okkur glaðan dag. Þannig fögnum við lífinu og ræktum okkar innri mann. Trúleysinginn gleðst yfir vorinu, hrífst af birtunni og nýtur þess að sjá allt vakna til lífsins eftir dimman vetur. Í þversagnarkenndum heimi geymir jafnvel sá trúlausi boðskap Krists í hjarta sínu.
Árið 1987 velti blaðamaður Morgunblaðsins því fyrir sér hvort páskaeggin og ungarnir, gulu kertin og litríku skreytingarnar sem minna á vorið skyggi á boðskap páskanna. Feli krossinn, píslarsögu Krists, upprisu og staðfestingu vonarinnar. Nemendur í sjö ára bekk í Melaskóla sem blaðamaðurinn ræddi við voru ekki í neinum vafa um þessa mestu hátíð kristinna manna.
„Þá var Jesús Kristur frelsari okkar krossfestur en hann reis svo aftur upp frá dauðum á páskunum,“ svaraði Ásgerður Arna Sófusdóttir. „Kristur sem er Guðssonur reis upp frá dauðum á páskunum en hann var krossfestur á föstudaginn langa og þess vegna eru páskar haldnir hátíðlegir,“ svaraði Þorsteinn Baldur Friðriksson.
Ekki veit ég hvernig nemendur í sjö ára bekk myndu svara ef þeir væru spurðir í dag. Vonandi jafn skýrt og jafnaldrar þeirra fyrir 37 árum. En það er ástæða til að óttast að þekking barna á sögunni sem mótað hefur allt líf okkar, sögu og menningu sé að hverfa. Og hvernig má annað vera? Trúin á Guð hefur skipulega verið gerð útlæg úr íslenskum skólum og opinberu lífi. Stöðugt er reynt að skera á kristnar rætur samfélagsins og setja Jesú út í horn. Kristnum gildum, sem eru grunnur umburðarlyndis og frelsis, á að henda líkt og hverjum öðrum óþarfa.
Ég hef áður vakið athygli á því hvernig hugmyndafræði trúleysis er víða að festa rætur. Styrk bænarinnar er hafnað og trúin gerð tortryggileg og að henni hæðst. Um leið er sálinni afneitað. Allt skal vera á grunni hins veraldlega og hinu andlega er fórnað. Hæfileikinn til að þiggja andlegar gjafir glatast.
Hættan er sú að merking páskanna falli í gleymsku. Eftir standa páskaegg úr súkkulaði og gulir borðar. Allt án innihalds. Krossinn án merkingar.
En eins og Sigurbjörn Þorkelsson undirstrikar svo meistaralega í ljóðabókinni Lifi lífið, þá eigum við ekki að óttast því frelsarinn er ávallt að skapa ný tækifæri og laga sig að breyttum tíma og aðstæðum.
Þeir fjarlægðu frelsarann
úr skólunum.
Og reyna nú
að plokka hann burt
úr páskunum og jólunum.
En hann finnur sér ávallt
farveg sem líðandi lækur
hjá liljunum og fjólunum,
frá hjarta til hjarta
til að hugga, veita von
og þeim, sem þiggja vilja,
framtíð bjarta.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Táknmynd hugrekkis og trúar
Séra Karl Sigurbjörnsson heitinn minnti á að á krossinum er Jesús táknmynd hugrekkis, fórnfýsi og andlegrar reisnar andspænis reginöflum ranglætis, haturs og dauða. Í páskapredikun 2008 sagði hann krossinn umfaðma „lífið allt og sýnir samstöðu Krists með þeim útskúfuðu og utangarðs, og samlíðan hans með þeim þjáðu og snauðu, seku og deyjandi.
Krossinn minnir á kröfu Krists um kærleika, fyrirgefningu og miskunnsemi, og á afdráttarlausa fullyrðingu hans um að hann lifi og mæti okkur í þeim sem hann kallaði sín minnstu systkin. Síst má sú fullyrðing hans láta okkur í friði. Alls ekki í menningu og samfélagi sem er undirlagt eigingirni og sjálfhverfu, og upptekið af dýrkun græðgi, fýsnar og valda, fast í fíkn og lífsflótta af öllu tagi.
Páskarnir geyma rætur kristninnar. Og rætur þarf að vökva.
Kristur er upprisinn. Lífið lifir. Þetta er boðskapur páskanna og kjarni kristinnar trúar. Páskar eru því hátíð gleðinnar – hátíð vonarinnar. Kærleikurinn sigrar og vonin „verður aldrei slökkt“. Trúin á Krist „breytir öllu í eilíft ljós“.
Dauðinn dó, en lífið lifir,
lífs og friðar sólin skær
ljómar dauðadölum yfir,
dauðinn oss ei grandað fær,
lífið sanna sálum manna
sigurskjöld mót dauða ljær.
(Helgi Hálfdánarson)
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2024.