Teitur Björn Einarsson alþingismaður:
Undanfarin misseri hefur verið vöntun á raforku á Íslandi. Í meginatriðum er það vegna tafa á uppbyggingu raforkuflutningskerfisins og virkjana, ófullnægjandi markaðskerfis fyrir raforku sem leitt hefur til óhagkvæmrar nýtingar hennar og að raforka hefur verið ofseld. Vöntun og skerðingar leiða til þess að atvinnustarfsemin dregst saman eða skipt er yfir á aðra orkugjafa. Samfélagið verður af tekjum sem kemur niður á efnahagslegri velferð landsmanna og losun gróðurhúsalofttegunda verður meiri en ella. Úr þessu er brýnt að bæta ef tryggja á orkuöryggi, efnahagslega velferð í landinu og orkuskipti. Góðu fréttirnar eru að það er vel hægt að leysa úr þessari vandræðastöðu.
Árangursríkasta aðgerðin er að flýta eins og kostur er uppbyggingu á flutningskerfi raforku, sérstaklega línunni milli Hvalfjarðar og Eyjafjarðar. Kerfið er fulllestað sem þýðir að orkugnægð á Austurlandi getur ekki unnið upp orkuskort á Suðvesturlandi en með uppfærðu kerfi getur losnað um orku sem nemur tæplega helmingi af orkuþörf almenna markaðarins. Með nútímavæðingu raforkukerfisins og skilvirkari markaði má enn fremur ná fram betri orkunýtingu, betri nýtingu innviða og treysta orkuöryggi til muna. Markaðslausnir og snjallvæðing, sem gerir notendum t.d. kleift að kaupa og selja raforku inn á virkan markað, styður við afljöfnun og dregur almennt úr sveiflum í kerfinu. Þannig ýtir virkur markaður undir hagkvæmari nýtingu auðlinda. Stækkun virkjana og nýjar virkjanir eru svo óhjákvæmilegar til að mæta þörfum samfélagsins, fólksfjölgun og viðunandi hagvaxtarstigi til framtíðar. En að virtum fyrrgreindum atriðum verður þörfin á nýjum virkjunum minni en ella og með nýjum orkukostum, t.a.m. vindorku, er hægt að halda umhverfisraski í lágmarki.
Til að hrinda nýrri sókn í orkumálum þjóðarinnar í framkvæmd verður svo ekki hjá því komist að taka alla stjórnsýslu leyfis- og skipulagsmála til gagngerrar endurskoðunar og stokka upp kerfið. Það er ekki einungis of flókið, tímafrekt og kostnaðarsamt – það virkar hreinlega ekki eins og skyldi. Vel er hægt og afar brýnt að sameina umfangsmikla stjórnsýsluferla matsáætlunar umhverfisáhrifa, breytinga á skipulagi og framkvæmdaleyfis í einn heildstæðan og einfaldari feril. Eins er hægt að fækka umsagnar- og kæruleiðum. Sem dæmi getur sama umsóknin verið send allt að átta sinnum í umsagnarferli á mismunandi stigum til sömu tíu fagstofnana og eru tímafrestir þá sjaldnast virtir. Skógur skrifræðisins er úr sér vaxinn og þarf að grisja.
Í matsáætlunum er gjarnan vísað til núllkosts, þ.e. hvað ef ekkert er gert? Núllkostur í raforkumálum við mat á velferð þjóðarinnar er ekki valkostur þegar annar skynsamari og hagfelldari er í boði.