Birgir Þórarinsson alþingismaður:
Ofurvald ensku er stærsta ógnin sem steðjar að íslensku sjálfstæði um þessar mundir. Hætt er við því að íslenska þjóðin glati fullveldi sínu ef ekkert verður að gert. Það er hagur íslensku að innflytjendur læri málið, segir Ármann Jakobsson, formaður Íslenskrar málnefndar og prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Þetta er okkur alvarleg áminning.
Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku, sem virðist lítið hafa fyrir stafni á eftirlaunum annað en að tala íslenskuna niður, hefur ekki sömu áhyggjur af stöðu tungumálsins.
Stóryrti prófessorinn á eftirlaunum
Greinarhöfundur var andvígur frumvarpi um mannanöfn sem var lagt fram á Alþingi 2020. Frumvarpið varð ekki að lögum. Í frumvarpinu stóð til að heimila öllum að taka upp ættarnafn. Afleiðingin hefði orðið sú að okkar helsta sérkenni, að hver kenni sig við föður eða móður, hyrfi smátt og smátt. Fyrirhuguð breyting á mannanafnalöggjöf hefði einnig haft neikvæð áhrif á íslenskuna. Nöfn og beyging þeirra eru jafn mikilvæg og allur annar íslenskur orðaforði. Riðlist beygingarkerfið fer að hrikta í stoðum íslenskrar tungu. Íslensk mannanöfn eru hluti íslensks máls og því er það stór þáttur í verndun málsins að íslensk mannanöfn samræmist íslensku beygingarkerfi. Þetta hefur okkar helsti sérfræðingur í mannanöfnum, dr. Guðrún Kvaran, bent á. Prófessor Eiríkur fann málflutningi mínum í mannanafnamálinu allt til foráttu. Sakaði hann mig um „fáfræði“, „belging“ og „vera úti á túni“.
Ég ber að sjálfsögðu virðingu fyrir prófessornum fyrrverandi, þó svo að hann hafi reglulega uppi stóryrði í minn garð þegar ég tjái mig um íslenskuna. Ég erfi það ekki við hann en tel að hann ætti ef til vill að huga betur að skyldum sínum við íslenska tungu.
Íslenskukennsla í barnasjónvarpi skotin í kaf
Greinarhöfundur er með í smíðum þingsályktunartillögu um að RÚV verði falið að framleiða kennsluþætti í íslensku fyrir ung börn. Þættirnir myndu fara yfir íslenska stafrófið, einföld orðtök og orðatiltæki svo eitthvað sé nefnt. Þeir yrðu síðan sýndir í barnasjónvarpi RÚV og gætu til að mynda reynst hjálplegir þeim börnum þar sem íslenska er ekki móðurmál heimilisins. Við vinnslu þingsályktunarinnar ákvað ég að hringja í prófessor Eirík og spyrja hann að því hvort honum litist ekki vel á tillöguna og hvort hann hefði ekki einhver góð ráð handa mér. Svo reyndist ekki vera. Eiríki leist ekkert á tillöguna og hafði almennt neikvætt viðhorf gagnvart henni. Ég bað hann þá að benda mér á einhverja íslenskumanneskju í Háskólanum sem gæti aðstoðað mig við greinargerðina. Eirikur gerði það. Ég hafði síðan samband við viðkomandi, en sú hin sama þurfti nokkra daga umhugsunarfest og sagði svo nei.
Íslenskan og stóra leigubílamálið
Nýverið steig prófessorinn aftur fram og nú í leigubílamálinu svonefnda þegar ég kom því á framfæri að ég hefði í smíðum frumvarp um að þeir sem hygðust taka próf til aksturs leigubifreiða þyrftu fyrst að standast próf í íslensku. Fyrirmyndin er frá Danmörku þar sem próf í dönsku er skilyrði í öllum farþegaakstri. Er almennt litið svo á að breytingar á lagaumhverfi leigubifreiða hafi tekist best í Danmörku á Norðurlöndunum. Nú sakaði prófessorinn mig um að leggja til „að íslenskan yrði notuð opinberlega á óskammfeilinn hátt sem vopn í útlendingaandúð“.
Ég mun að sjálfsögðu áfram standa vörð um íslenskuna og læt ekki prófessorinn fyrrverandi trufla mig í því, enda lít ég svo á að þetta sé ein af frumskyldum mínum sem þingmanns. Fróðlegt verður að fylgjast með viðbrögðum prófessorsins næst þegar ég legg orð í belg um varðstöðu fyrir okkar einstaka og dýrmæta tungumál.
Það skyldi þó ekki vera að prófessorinn á eftirlaunum uni því misjafnlega að maður á öðrum væng hins pólitíska litrófs en hann sjálfur skuli koma íslenskunni til varnar og vilji veg hennar sem mestan.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. mars 2024.