Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Í nýbirtum ársreikningi Félagsbústaða fyrir árið 2023 kemur fram að félagið muni ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána sem tekin eru til fjármögnunar endurbótum og meiriháttar viðhaldi eins og sakir standa. Nokkuð vanti upp á að markmið um fjárhagslega sjálfbærni náist á yfirstandandi ári.
Ósjálfbær rekstur
Stjórn Félagsbústaða hefur sagt að auka þurfi tekjur Félagsbústaða umtalsvert umfram almennar verðlagshækkanir, eigi reksturinn að standa undir sér. Óskaði stjórnin því nýverið heimildar velferðarráðs til 1,1% hækkunar leiguverðs, en tillagan var aldrei lögð fyrir ráðið og fékk því ekki brautargengi. Stjórnarformaður hefur sagt hækkunarþörf leigu nema 6,5%, en áhættunefnd metur hækkunarþörfina enn meiri, ef ætlunin er að ná fram sjálfbærni í rekstri.
Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag kölluðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir skýrum svörum frá fulltrúum meirihlutans hvað varðar fyrirætlanir þeirra í rekstri Félagsbústaða. Er fyrirhugað að ráðast í umfangsmiklar leiguverðshækkanir? Eða verður gripið til annarra aðgerða í rekstrinum? Líkt og oft áður var fátt um svör.
Kaupleiga félagslegs húsnæðis
Nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg marki sér skýra stefnu um félagslega húsnæðiskerfið. Biðlistar eftir almennum leiguíbúðum eru viðvarandi, þrátt fyrir fjölgun félagslegra íbúða á síðustu árum. Lítil velta er með almennt félagslegt húsnæði og virðist félagslegur hreyfanleiki innan kerfisins lítill. Mikilvægt er að skapa húsnæðiskerfi sem reynist íbúum þess ekki íþyngjandi fátæktargildra.
Hér mætti nefna einfalda tölfræði, en af 2.205 almennum leiguíbúðum á vegum Félagsbústaða hafa á síðustu fimmtán árum aðeins um 20 íbúðir losnað árlega, eða um 0,9%.
Félagslega húsnæðiskerfið er vissulega mikilvægt og varanlegt úrræði fyrir marga – en auka mætti áherslu á að úrræðið verði aðeins tímabundið fyrir suma. Síðastliðin ár hafa sjálfstæðismenn ítrekað lagt fram tillögur þess efnis að íbúum Félagsbústaða verði, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, gert kleift að kaupa íbúðir sínar, með eins konar kaupleigufyrirkomulagi. Þeim verði veittur stuðningur til að stíga út úr félagslega húsnæðiskerfinu, bæta lífskjör sín og standa á eigin
fótum.
Þessar hugmyndir hafa aldrei hlotið brautargengi meðal meirihlutaflokkanna, enda virðast þær draga fram skýran hugmyndafræðilegan ágreining. Það birtist glöggt á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag. Þar töldu fulltrúar Samfylkingar og Sósíalistaflokks félagslega húsnæðiskerfið æskilega endastöð fyrir alla skjólstæðinga þess. Sáu fulltrúarnir ekki ástæðu til að styðja fólk aftur til sjálfshjálpar, hefði það getu og vilja til.
Varanleg og tímabundin björg
Trúin á manninn og frelsisþrá hans er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar. Samtímis leggur sjálfstæðisstefnan mikla áherslu á að tryggja afkomu og verja velferð þeirra sem eiga undir högg að sækja í lífinu – gæta þess að enginn komist á vonarvöl hvort sem er vegna sjúkdóma eða fátæktar. Samfélaginu beri að grípa þá sem lenda í hremmingum – en í kjölfarið hjálpa þeim aftur til sjálfshjálpar, reynist þess nokkur kostur.
Félagslega húsnæðiskerfið er mikilvæg björg fyrir þá sem ekki geta staðið undir sér sjálfir. Það mun reynast varanlegt úrræði fyrir marga – en þarf ekki að vera annað en tímabundinn áfangastaður fyrir suma. Ekki má horfa fram hjá tækifærunum til að hjálpa fólki aftur til sjálfshjálpar og styðja það í leit sinni að betri lífskjörum.