Norðurlandaráð: Öldungur með mikið aðdráttarafl

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og forseti Norðurlandaráðs:

Fær­ey­ing­ar sækja það fast að fá auk­in rétt­indi til sjálf­stæðrar þátt­töku í nor­rænu sam­starfi. Græn­lend­ing­ar krefjast þess að fá að standa jafn­fæt­is Dan­mörku, Finn­landi, Nor­egi, Svíþjóð og Íslandi í sam­starf­inu. Skot­ar sýna því mik­inn áhuga að bind­ast Norður­lönd­um sterk­ari bönd­um og ein­hverja dreym­ir um sjálf­stætt Skot­land í Norður­landaráði. Ráðamenn og stjórn­mála­skýrend­ur spá því að sam­starf Norður­landa í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um efl­ist mjög eft­ir inn­göngu Svía og Finna í Atlants­hafs­banda­lagið. Norður­landaráð er komið á átt­ræðis­ald­ur en nor­rænt sam­starf hef­ur sjald­an verið eins kraft­mikið og eft­ir­sókn­ar­vert.

Síðustu ára­tugi hef­ur verið haldið upp á dag Norður­landa 23. mars, en þann dag árið 1962 var skrifað und­ir Hels­ing­fors­samn­ing­inn, grund­vall­ar­samn­ing nor­ræns sam­starfs. Til­efni þess að samn­ing­ur­inn var gerður á sín­um tíma var að nokk­ur Norður­land­anna voru með í bíg­erð að taka auk­inn þátt í Evr­ópu­sam­starfi og ótt­ast var að það myndi veikja sam­vinnu nor­rænu ríkj­anna. Hels­ing­fors­samn­ing­ur­inn fól ekki í sér sterk­ar skuld­bind­ing­ar en hann var vilja­yf­ir­lýs­ing um að menn vildu halda áfram þéttu sam­starfi land­anna.

Nú er aft­ur um­bylt­ing­ar­skeið á Norður­lönd­um og í Evr­ópu en at­b­urðir síðustu tveggja ára hafa orðið til þess að treysta bönd nor­rænu ríkj­anna frem­ur en að veikja þau. Alls­herj­ar­inn­rás Pútíns í Úkraínu varð til þess að ráðamenn og al­menn­ing­ur á Vest­ur­lönd­um fóru að huga að því að efla sam­starf sitt og sam­taka­mátt. Inn­rás­in átti að stöðva útþenslu Atlants­hafs­banda­lags­ins en varð í stað þess hvatn­ing til Finna og Svía til að ganga í banda­lagið og þar með styrkja bæði það og sam­eig­in­leg­an varn­ar­mátt Norður­landa.

Í lok árs 2022 hóf­ust í Norður­landaráði umræður um að end­ur­skoða Hels­ing­fors­samn­ing­inn til að efla enn frek­ar og end­ur­nýja sam­starf land­anna. Í fyrstu var einkum rætt um að bæta við ákvæðum um sam­vinnu í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Þegar Norður­landaráð var stofnað árið 1952 og næstu ára­tug­ina eft­ir það voru Finn­ar í þeirri stöðu að þurfa alltaf að taka til­lit til hags­muna og sjón­ar­miða Sov­ét­ríkj­anna í ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um. Sov­ét­menn vildu ekki sjá neitt sam­starf Finna við nor­rænu NATO-rík­in um þessi mál og þess vegna var ekk­ert minnst á þau í samþykkt­um og samn­ing­um Norður­landa. Eft­ir lok kalda stríðsins breytt­ist staðan og smám sam­an jókst vægi varn­ar- og ör­ygg­is­mála í nor­rænu sam­starfi.

For­sæt­is­nefnd Norður­landaráðs ákvað í byrj­un árs 2023 að skipa starfs­hóp til að meta hvort ástæða sé til að upp­færa Hels­ing­fors­samn­ing­inn. Fljót­lega komu upp hug­mynd­ir um að end­ur­skoða fleiri þætti í samn­ingn­um en ör­ygg­is­mál­in, til dæm­is er í hon­um hvergi minnst á lofts­lags­mál. Eitt mál varð þó fljótt fyr­ir­ferðarmeira en önn­ur í umræðum inn­an og utan starfs­hóps­ins, en það er staða Fær­eyja, Græn­lands og Álands­eyja í nor­rænu sam­starfi. Fær­ey­ing­ar hafa lengi sóst eft­ir því að fá auk­in rétt­indi og sterk­ari stöðu inn­an sam­starfs­ins og svipuð sjón­ar­mið eru far­in að heyr­ast á Græn­landi. Íslend­ing­ar hafa löng­um verið helstu banda­menn Fær­ey­inga og Græn­lend­inga í þess­um mál­um en að und­an­förnu hafa gerst þau stórtíðindi að Dan­ir hafa einnig farið að tala fyr­ir aukn­um rétt­ind­um þeirra.

Stefnt er að því að starfs­hóp­ur­inn skili af sér skýrslu á vorþingi Norður­landaráðs í Fær­eyj­um í apríl en ráðgert er að til­lög­ur Norður­landaráðs til rík­is­stjórna land­anna verði end­an­lega samþykkt­ar á Norður­landaráðsþingi í Reykja­vík. Það er svo í hönd­um rík­is­stjórna nor­rænu land­anna og þjóðþing­anna að ákveða hvort farið verði að til­lög­um Norður­landaráðs.

Nor­rænt sam­starf skipt­ir Íslend­inga máli

Nor­rænt sam­starf á sér djúp­ar ræt­ur og mikla sögu. Það hófst löngu áður en Norður­landaráð var stofnað. Íslend­ing­ar hafa tekið virk­an þátt í sam­starf­inu frá fyrstu árum full­veld­is á fyrri hluta síðustu ald­ar.

Sam­starfið hef­ur ávallt skipt okk­ur Íslend­inga miklu máli. Við erum lít­il þjóð sem hef­ur vaxið og eflst, meðal ann­ars með sam­skipt­um og sam­vinnu við Norður­lönd. Við höf­um lært margt af ná­grönn­um okk­ur en við leggj­um jafn­framt fram okk­ar þekk­ingu og reynslu. Við höf­um verið fyr­ir­mynd fyr­ir aðra á ýms­um sviðum, t.d. í orku- og jafn­rétt­is­mál­um.

Á Norður­lönd­um er meiri jöfnuður en víðast hvar í heim­in­um, jafn­rétti er hér mikið og Norður­landa­bú­ar virðast meira að segja vera ham­ingju­sam­ari en annað fólk. Ef marka má kann­an­ir eru Finn­ar ham­ingju­sam­asta þjóð í heimi, við Íslend­ing­ar í þriðja sæti og Norður­lönd­in öll í hópi tíu efstu ríkja. Á heimsvísu eru öll nor­rænu lönd­in lít­il en sam­an erum við sterk­ari og sem heild erum við 11. stærsta hag­kerfi heims.

Sex af hverj­um tíu ís­lensk­um rík­is­borg­ur­um sem skráðir eru með heim­il­is­festi er­lend­is búa á Norður­lönd­um, flest­ir þeirra í Dan­mörku. Fjöldi Íslend­inga hef­ur um lengri eða skemmri tíma búið í hinum nor­rænu lönd­un­um og stundað þar nám og vinnu.

Það er því full ástæða til að fagna á degi Norður­landa og framtíðar­sýn okk­ar er sú að Norður­lönd­in verði sjálf­bær­asta og samþætt­asta svæði í heimi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. mars 2024.