Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og forseti Norðurlandaráðs:
Færeyingar sækja það fast að fá aukin réttindi til sjálfstæðrar þátttöku í norrænu samstarfi. Grænlendingar krefjast þess að fá að standa jafnfætis Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi í samstarfinu. Skotar sýna því mikinn áhuga að bindast Norðurlöndum sterkari böndum og einhverja dreymir um sjálfstætt Skotland í Norðurlandaráði. Ráðamenn og stjórnmálaskýrendur spá því að samstarf Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum eflist mjög eftir inngöngu Svía og Finna í Atlantshafsbandalagið. Norðurlandaráð er komið á áttræðisaldur en norrænt samstarf hefur sjaldan verið eins kraftmikið og eftirsóknarvert.
Síðustu áratugi hefur verið haldið upp á dag Norðurlanda 23. mars, en þann dag árið 1962 var skrifað undir Helsingforssamninginn, grundvallarsamning norræns samstarfs. Tilefni þess að samningurinn var gerður á sínum tíma var að nokkur Norðurlandanna voru með í bígerð að taka aukinn þátt í Evrópusamstarfi og óttast var að það myndi veikja samvinnu norrænu ríkjanna. Helsingforssamningurinn fól ekki í sér sterkar skuldbindingar en hann var viljayfirlýsing um að menn vildu halda áfram þéttu samstarfi landanna.
Nú er aftur umbyltingarskeið á Norðurlöndum og í Evrópu en atburðir síðustu tveggja ára hafa orðið til þess að treysta bönd norrænu ríkjanna fremur en að veikja þau. Allsherjarinnrás Pútíns í Úkraínu varð til þess að ráðamenn og almenningur á Vesturlöndum fóru að huga að því að efla samstarf sitt og samtakamátt. Innrásin átti að stöðva útþenslu Atlantshafsbandalagsins en varð í stað þess hvatning til Finna og Svía til að ganga í bandalagið og þar með styrkja bæði það og sameiginlegan varnarmátt Norðurlanda.
Í lok árs 2022 hófust í Norðurlandaráði umræður um að endurskoða Helsingforssamninginn til að efla enn frekar og endurnýja samstarf landanna. Í fyrstu var einkum rætt um að bæta við ákvæðum um samvinnu í öryggis- og varnarmálum. Þegar Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og næstu áratugina eftir það voru Finnar í þeirri stöðu að þurfa alltaf að taka tillit til hagsmuna og sjónarmiða Sovétríkjanna í utanríkis- og öryggismálum. Sovétmenn vildu ekki sjá neitt samstarf Finna við norrænu NATO-ríkin um þessi mál og þess vegna var ekkert minnst á þau í samþykktum og samningum Norðurlanda. Eftir lok kalda stríðsins breyttist staðan og smám saman jókst vægi varnar- og öryggismála í norrænu samstarfi.
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað í byrjun árs 2023 að skipa starfshóp til að meta hvort ástæða sé til að uppfæra Helsingforssamninginn. Fljótlega komu upp hugmyndir um að endurskoða fleiri þætti í samningnum en öryggismálin, til dæmis er í honum hvergi minnst á loftslagsmál. Eitt mál varð þó fljótt fyrirferðarmeira en önnur í umræðum innan og utan starfshópsins, en það er staða Færeyja, Grænlands og Álandseyja í norrænu samstarfi. Færeyingar hafa lengi sóst eftir því að fá aukin réttindi og sterkari stöðu innan samstarfsins og svipuð sjónarmið eru farin að heyrast á Grænlandi. Íslendingar hafa löngum verið helstu bandamenn Færeyinga og Grænlendinga í þessum málum en að undanförnu hafa gerst þau stórtíðindi að Danir hafa einnig farið að tala fyrir auknum réttindum þeirra.
Stefnt er að því að starfshópurinn skili af sér skýrslu á vorþingi Norðurlandaráðs í Færeyjum í apríl en ráðgert er að tillögur Norðurlandaráðs til ríkisstjórna landanna verði endanlega samþykktar á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík. Það er svo í höndum ríkisstjórna norrænu landanna og þjóðþinganna að ákveða hvort farið verði að tillögum Norðurlandaráðs.
Norrænt samstarf skiptir Íslendinga máli
Norrænt samstarf á sér djúpar rætur og mikla sögu. Það hófst löngu áður en Norðurlandaráð var stofnað. Íslendingar hafa tekið virkan þátt í samstarfinu frá fyrstu árum fullveldis á fyrri hluta síðustu aldar.
Samstarfið hefur ávallt skipt okkur Íslendinga miklu máli. Við erum lítil þjóð sem hefur vaxið og eflst, meðal annars með samskiptum og samvinnu við Norðurlönd. Við höfum lært margt af nágrönnum okkur en við leggjum jafnframt fram okkar þekkingu og reynslu. Við höfum verið fyrirmynd fyrir aðra á ýmsum sviðum, t.d. í orku- og jafnréttismálum.
Á Norðurlöndum er meiri jöfnuður en víðast hvar í heiminum, jafnrétti er hér mikið og Norðurlandabúar virðast meira að segja vera hamingjusamari en annað fólk. Ef marka má kannanir eru Finnar hamingjusamasta þjóð í heimi, við Íslendingar í þriðja sæti og Norðurlöndin öll í hópi tíu efstu ríkja. Á heimsvísu eru öll norrænu löndin lítil en saman erum við sterkari og sem heild erum við 11. stærsta hagkerfi heims.
Sex af hverjum tíu íslenskum ríkisborgurum sem skráðir eru með heimilisfesti erlendis búa á Norðurlöndum, flestir þeirra í Danmörku. Fjöldi Íslendinga hefur um lengri eða skemmri tíma búið í hinum norrænu löndunum og stundað þar nám og vinnu.
Það er því full ástæða til að fagna á degi Norðurlanda og framtíðarsýn okkar er sú að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi.