Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Enn gera Reykjaneseldar vart við sig og minna um leið á þær óhuggulegu staðreyndir að núverandi eldsumbrotahrina geti hæglega varað næstu áratugi og að búast megi við náttúruvá á Reykjanesskaganum jafnvel næstu þrjár aldirnar. Þessir óvissuþættir krefjast þess að við skoðum byggðaþróun, samgöngumál og þéttbýlisskipulag í Reykjavík frá nýju sjónarhorni jarðsögunnar og jarðvísinda. Í þeim efnum hafa sérfræðingar verið sammála um að höfuðborgin hljóti að þróa byggð sína inn með sundum, í átt að Kjalarnesi.
Reykjavíkurflugvöllur og úrelt aðalskipulag
Það er svo einsýnt að Reykjavíkurflugvöllur verður af þessum sökum áfram í Vatnsmýrinni næstu áratugina og öryggishlutverk hans verður líklega veigameira en nokkurn tíma fyrr.
Við þessar aðstæður er tafarlaus endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar bráðnauðsynleg. Núgildandi aðalskipulag er í raun meingallað með hliðjón af þeim forsendum sem náttúruöflin hafa nú kallað fram og taka verður mið af. Ein af meginforsendum þess er sú að Reykjavíkurflugvöllur sé á förum og fyrirhuguð er umfangsmikil íbúðauppbygging inni á flugvallarsvæðinu, svæði sem völlurinn má alls ekki verða af á þessum óvissutímum.
Ódýrari lóðir – örari uppbyggingu
Í þriðja lagi hrópar þetta óvissuástand á miklu meira og hagstæðara lóðaframboð í höfuðborginni og mun hraðari byggðarþróun þar en við höfum átt að venjast undanfarin ár. Við þurfum því að byggja á landi í eigu borgarinnar austan Elliðaáa. Þar eru víðar lendur, í Grafarvogi, Úlfarsárdal, Gufunesi, Geldinganesi, á Keldum, Keldnaholti og Kjalarnesi.
Draga þarf úr þéttingu vestast í borginni
Mjög mikil byggðaþétting á dýrum lóðum vestan Elliðaáa síðastliðinn áratug hefur hækkað mjög fasteignaverð. Þessi einhliða stefna hefur auk þess haft í för með sér einsleitt húsnæði og stöðluð hverfi fjölbýlishúsa fyrir afmarkaða markhópa. Vankantar þessarar einhæfu stefnu hafa orðið sífellt augljósari í seinni tíð. En nýjar forsendur með hliðsjón af náttúruhamförum hafa gert ráðandi skipulagsstefnu gjaldþrota með öllu. Eldsumbrotin á Reykjanesi hafa t.d. aukið líkur á því að rýma þurfi fjölmenna borgarhluta. Af þeim sökum væri óráðlegt að fjölga mikið meira íbúðum í vestasta hluta borgarinnar.
Skipulagsstefna mörkuð
Þess er vert að geta að nýafstaðið Reykjavíkurþing Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, tók með afdráttarlausum hætti á þessum málum. Reykjavíkurþingið telur hvort tveggja, ný byggingarsvæði og bætt samgöngukerfi, bráðnauðsynleg við núverandi aðstæður. Aukið umferðarflæði stofnbrautakerfisins og lagning Sundabrautar varða nú almannavarnir sem aldrei fyrr ef til fjöldarýminga þyrfti að koma á næstu áratugum.
Íbúabyggð í Geldinganesi
Við sjálfstæðismenn lögðum fram tillögu í borgarstjórn síðastliðinn þriðjudag um að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja vinnu við endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur með það að markmiði að skipuleggja blandaða byggð í Geldinganesi með áherslu á íbúðauppbyggingu. Tillögunni var hafnað. Sú afgreiðsla lýsir ótrúlegu vanmati á þeim viðsjárverðu tímum sem nú fara í hönd og kæruleysi gagnvart öryggishagsmunum almennings.