Óli Björn Kárason alþingismaður:
Bankastjóri Landsbankans neitar að horfast í augu við staðreyndir. Landsbankinn er ríkisfyrirtæki og er flokkaður sem ríkisfyrirtæki í C-hluta ríkisreiknings. Í lok árs 2022 var hlutdeild ríkisins í eigin fé bankans bókfærð á liðlega 278 milljarða króna. Í ríkisreikningi er Landsbankinn skilgreindur með sama hætti og Landsvirkjun, Íslandspóstur, Landsnet, RARIK og raunar Seðlabankinn. Á vef Stjórnarráðsins þar sem er yfirlit yfir félög í eigu ríkisins kemur fram að Landsbankinn sé stærsta fyrirtæki ríkisins hvað varðar eignir! Í ársskýrslu ríkisfyrirtækja er Landsbankinn sagður ríkisfyrirtæki.
Sem sagt: Landsbankinn er ríkisfyrirtæki og þótt bankastjóri segi í viðtali við Viðskiptablaðið að mikilvægt sé „að hafa í huga að Landsbankinn er ekki ríkisfyrirtæki“, þá breytir það í engu staðreyndum. Og það var ríkisfyrirtækið Landsbankinn sem ákvað að gera tilboð í og kaupa tryggingafélag.
Þvert á vilja eigandans
Stjórn og stjórnendur ríkisbankans tóku ákvörðun um kaupin á TM og er kaupverðið 28,6 milljarðar króna. Þessi ákvörðun var tekin þrátt fyrir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra hefði lýst því yfir í byrjun febrúar að henni hugnaðist ekki að ríkisbanki keypti tryggingafélag í eigu einkaaðila. Ákvörðun var einnig tekin þrátt fyrir að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar standi skýrum stöfum að ríkissjóður muni „halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða“. Með öðrum orðum: Stjórn og stjórnendur Landsbankans fóru þvert á stefnu stjórnvalda. „Eigandinn“ [ríkissjóður] hafði og hefur ekki veitt umboð til kaupanna. Bankasýslunni, sem fer með eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, var ekki kunnugt um fyrirhuguð viðskipti. Bankasýslan hefur krafist þess að fyrirhuguðum aðalfundi sem á að halda í dag, miðvikudag, verði frestað um fjórar vikur, á meðan beðið er eftir greinargerð frá bankaráðinu um kaupin á TM.
Í eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki segir að litið sé á eignarhald ríkisins á hlutum í íslenskum fjármálafyrirtækjum sem tímabundið fyrirkomulag þótt ástæða geti verið til að halda einhverjum þeirra áfram í eigu ríkisins. Stefnt sé að því til framtíðar að eignarhald fjármálafyrirtækja sé fjölbreytt og heilbrigt.
Í stefnunni segir að í ljósi opinbers eignarhalds sé mikilvægt að áherslur félags við stjórn og starfsemi þess styðji við og vinni að markmiðum eiganda með eignarhaldinu. „Til að svo megi verða þarf aðkoma eiganda að stefnumörkun og markmiðum félagsins að vera skýr og ótvíræð, án þess þó að draga úr hefðbundnum stjórnunarheimildum stjórnar eða skerða ábyrgð stjórnarinnar á rekstri félagsins. Með skýrri stefnu eiganda um málefni félagsins er stjórninni markað skýrt hlutverk og ábyrgð gagnvart eiganda.“
Ekki verður séð að stjórn eða stjórnendur Landsbankans hafi farið eftir þessum fyrirmælum í eigandastefnunni þegar tekin var ákvörðun um kaupin á TM. Þvert á móti var eigandanum haldið utan við ákvörðun sem á alla mælikvarða tekst meiriháttar og stefnumarkandi.
Það veldur vonbrigðum og áhyggjum að stjórn og stjórnendur Landsbankans virðast ekki telja sig þurfa að haga störfum sínum í samræmi við markaða stefnu eigandans.
Undirliggjandi mein
Yfirtaka Landsbankans á TM varpar ljósi á undirliggjandi mein á íslenskum fjármálamarkaði. Landsbankinn er ríkisbanki og umsvif ríkisins á fjármálamarkaði eru óheilbrigð og óeðlileg. Það er rétt sem Þórdís Kolbrún hefur bent á, að í stað þess að ríkisfyrirtæki gleypi einkafyrirtæki eigi að losa um gríðarlega fjármuni ríkisins sem bundnir eru í fjármálafyrirtækjum og umbreyta í samfélagslega innviði og eftir atvikum lækka skuldir ríkisins.
Yfirtaka ríkisfyrirtækis á tryggingafélagi – sem er í sinni einföldu mynd ríkisvæðing stórs hluta tryggingamarkaðarins – er því miður hluti af stærra vandamáli. Hugmyndir um hlutverk ríkisins hafa á síðustu árum orðið æ þokukenndari, skyldur og verkefnin óskýrari. Ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki vasast í hlutum og verkefnum, sem þau eiga ekki að koma nálægt. Ryðjast inn á samkeppnismarkaði og gera strandhögg hjá einkafyrirtækjum. Ríkisfyrirtæki, hvort heldur undir hatti hlutafélags eða opinbers hlutafélags, hegða sér með þeim hætti sem þeim þykir henta, óháð opinberri stefnumörkun. Þau lúta ekki ægivaldi hluthafanna og hafa litlar áhyggjur af því að kjörnir fulltrúar geti beitt þau aðhaldi eða sett þeim markmið og afmörkun.
Umboðsmenn kjósenda
Uppákoman í kringum kaupin á TM er áminning um á hvaða villigötur við erum komin. Búið er að framselja of mikið vald frá kjörnum fulltrúum til stjórna ríkisfyrirtækja, úrskurðarnefnda og embættismanna. Við þessu varaði Eysteinn Jónsson þingmaður Framsóknarflokksins þegar árið 1968: „Í flóknu þjóðfélagi nútímans koma til önnur öfl í sjálfu stjórnkerfinu en Alþingi sem látlaust láta meira að sér kveða. Það er embættis- og sérfræðingakerfið m.a., sem ráðherrar eru daglega hnýttir við vegna starfa sinna. Ég álít, að það sé veruleg hætta á því að Alþingi tapi löggjafarvaldinu yfir til ríkisstjórnar og embættis- og sérfræðingavaldsins,“ sagði Eysteinn í þingræðu þegar hann mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um að „þingforsetar ásamt einum fulltrúa frá hverjum þingflokki ættu að íhuga og endurskoða starfshætti Alþingis“.
Á síðustu áratugum hefur verið komið á fót ýmsum úrskurðarnefndum, sem starfa undir ýmsum nöfnum s.s. kærunefndir, málskotsnefndir, áfrýjunarnefndir og matsnefndir. Eftirlitsstofnanir lifa sjálfstæðu lífi og samhliða hefur hugmyndafræði stjórnlyndis fest rætur. Sérfræðingavaldið eflst. Löggjafinn – stjórnmálamennirnir – sitja áhrifalitlir hjá, mega ekki skipta sér af en verða að axla ábyrgð á því sem miður fer.
Eftir því sem valdsvið úrskurðarnefnda eykst og þeim fjölgar, gjáin milli stjórna ríkisfyrirtækja og eigandans breikkar, því óljósari er hugmyndin um að valdið sé sótt til almennings og að kjörnir fulltrúar séu umboðsmenn kjósenda.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. mars 2024.