Ríkisvæðing í boði ríkisbanka
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Banka­stjóri Lands­bank­ans neit­ar að horf­ast í augu við staðreynd­ir. Lands­bank­inn er rík­is­fyr­ir­tæki og er flokkaður sem rík­is­fyr­ir­tæki í C-hluta rík­is­reikn­ings. Í lok árs 2022 var hlut­deild rík­is­ins í eig­in fé bank­ans bók­færð á liðlega 278 millj­arða króna. Í rík­is­reikn­ingi er Lands­bank­inn skil­greind­ur með sama hætti og Lands­virkj­un, Ísland­s­póst­ur, Landsnet, RARIK og raun­ar Seðlabank­inn. Á vef Stjórn­ar­ráðsins þar sem er yf­ir­lit yfir fé­lög í eigu rík­is­ins kem­ur fram að Lands­bank­inn sé stærsta fyr­ir­tæki rík­is­ins hvað varðar eign­ir! Í árs­skýrslu rík­is­fyr­ir­tækja er Lands­bank­inn sagður rík­is­fyr­ir­tæki.

Sem sagt: Lands­bank­inn er rík­is­fyr­ir­tæki og þótt banka­stjóri segi í viðtali við Viðskipta­blaðið að mik­il­vægt sé „að hafa í huga að Lands­bank­inn er ekki rík­is­fyr­ir­tæki“, þá breyt­ir það í engu staðreynd­um. Og það var rík­is­fyr­ir­tækið Lands­bank­inn sem ákvað að gera til­boð í og kaupa trygg­inga­fé­lag.

Þvert á vilja eig­and­ans

Stjórn og stjórn­end­ur rík­is­bank­ans tóku ákvörðun um kaup­in á TM og er kaup­verðið 28,6 millj­arðar króna. Þessi ákvörðun var tek­in þrátt fyr­ir að Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir fjár­mála- og efna­hags­ráðherra hefði lýst því yfir í byrj­un fe­brú­ar að henni hugnaðist ekki að rík­is­banki keypti trygg­inga­fé­lag í eigu einkaaðila. Ákvörðun var einnig tek­in þrátt fyr­ir að í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar standi skýr­um stöf­um að rík­is­sjóður muni „halda áfram að draga úr eign­ar­haldi í fjár­mála­kerf­inu og nýta ábat­ann til upp­bygg­ing­ar innviða“. Með öðrum orðum: Stjórn og stjórn­end­ur Lands­bank­ans fóru þvert á stefnu stjórn­valda. „Eig­and­inn“ [rík­is­sjóður] hafði og hef­ur ekki veitt umboð til kaup­anna. Banka­sýsl­unni, sem fer með eign­ar­hlut rík­is­ins í Lands­bank­an­um, var ekki kunn­ugt um fyr­ir­huguð viðskipti. Banka­sýsl­an hef­ur kraf­ist þess að fyr­ir­huguðum aðal­fundi sem á að halda í dag, miðviku­dag, verði frestað um fjór­ar vik­ur, á meðan beðið er eft­ir grein­ar­gerð frá bankaráðinu um kaup­in á TM.

Í eig­anda­stefnu rík­is­ins fyr­ir fjár­mála­fyr­ir­tæki seg­ir að litið sé á eign­ar­hald rík­is­ins á hlut­um í ís­lensk­um fjár­mála­fyr­ir­tækj­um sem tíma­bundið fyr­ir­komu­lag þótt ástæða geti verið til að halda ein­hverj­um þeirra áfram í eigu rík­is­ins. Stefnt sé að því til framtíðar að eign­ar­hald fjár­mála­fyr­ir­tækja sé fjöl­breytt og heil­brigt.

Í stefn­unni seg­ir að í ljósi op­in­bers eign­ar­halds sé mik­il­vægt að áhersl­ur fé­lags við stjórn og starf­semi þess styðji við og vinni að mark­miðum eig­anda með eign­ar­hald­inu. „Til að svo megi verða þarf aðkoma eig­anda að stefnu­mörk­un og mark­miðum fé­lags­ins að vera skýr og ótví­ræð, án þess þó að draga úr hefðbundn­um stjórn­un­ar­heim­ild­um stjórn­ar eða skerða ábyrgð stjórn­ar­inn­ar á rekstri fé­lags­ins. Með skýrri stefnu eig­anda um mál­efni fé­lags­ins er stjórn­inni markað skýrt hlut­verk og ábyrgð gagn­vart eig­anda.“

Ekki verður séð að stjórn eða stjórn­end­ur Lands­bank­ans hafi farið eft­ir þess­um fyr­ir­mæl­um í eig­anda­stefn­unni þegar tek­in var ákvörðun um kaup­in á TM. Þvert á móti var eig­and­an­um haldið utan við ákvörðun sem á alla mæli­kv­arða tekst meiri­hátt­ar og stefnu­mark­andi.

Það veld­ur von­brigðum og áhyggj­um að stjórn og stjórn­end­ur Lands­bank­ans virðast ekki telja sig þurfa að haga störf­um sín­um í sam­ræmi við markaða stefnu eig­and­ans.

Und­ir­liggj­andi mein

Yf­ir­taka Lands­bank­ans á TM varp­ar ljósi á und­ir­liggj­andi mein á ís­lensk­um fjár­mála­markaði. Lands­bank­inn er rík­is­banki og um­svif rík­is­ins á fjár­mála­markaði eru óheil­brigð og óeðli­leg. Það er rétt sem Þór­dís Kol­brún hef­ur bent á, að í stað þess að rík­is­fyr­ir­tæki gleypi einka­fyr­ir­tæki eigi að losa um gríðarlega fjár­muni rík­is­ins sem bundn­ir eru í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um og umbreyta í sam­fé­lags­lega innviði og eft­ir at­vik­um lækka skuld­ir rík­is­ins.

Yf­ir­taka rík­is­fyr­ir­tæk­is á trygg­inga­fé­lagi – sem er í sinni ein­földu mynd rík­i­s­væðing stórs hluta trygg­inga­markaðar­ins – er því miður hluti af stærra vanda­máli. Hug­mynd­ir um hlut­verk rík­is­ins hafa á síðustu árum orðið æ þoku­kennd­ari, skyld­ur og verk­efn­in óskýr­ari. Ríkið, stofn­an­ir þess og fyr­ir­tæki vasast í hlut­um og verk­efn­um, sem þau eiga ekki að koma ná­lægt. Ryðjast inn á sam­keppn­ismarkaði og gera strand­högg hjá einka­fyr­ir­tækj­um. Rík­is­fyr­ir­tæki, hvort held­ur und­ir hatti hluta­fé­lags eða op­in­bers hluta­fé­lags, hegða sér með þeim hætti sem þeim þykir henta, óháð op­in­berri stefnu­mörk­un. Þau lúta ekki ægi­valdi hlut­haf­anna og hafa litl­ar áhyggj­ur af því að kjörn­ir full­trú­ar geti beitt þau aðhaldi eða sett þeim mark­mið og af­mörk­un.

Umboðsmenn kjós­enda

Uppá­kom­an í kring­um kaup­in á TM er áminn­ing um á hvaða villi­göt­ur við erum kom­in. Búið er að fram­selja of mikið vald frá kjörn­um full­trú­um til stjórna rík­is­fyr­ir­tækja, úr­sk­urðar­nefnda og emb­ætt­is­manna. Við þessu varaði Ey­steinn Jóns­son þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins þegar árið 1968: „Í flóknu þjóðfé­lagi nú­tím­ans koma til önn­ur öfl í sjálfu stjórn­kerf­inu en Alþingi sem lát­laust láta meira að sér kveða. Það er embætt­is- og sér­fræðinga­kerfið m.a., sem ráðherr­ar eru dag­lega hnýtt­ir við vegna starfa sinna. Ég álít, að það sé veru­leg hætta á því að Alþingi tapi lög­gjaf­ar­vald­inu yfir til rík­is­stjórn­ar og embætt­is- og sér­fræðinga­valds­ins,“ sagði Ey­steinn í þing­ræðu þegar hann mælti fyr­ir til­lögu til þings­álykt­un­ar um að „þing­for­set­ar ásamt ein­um full­trúa frá hverj­um þing­flokki ættu að íhuga og end­ur­skoða starfs­hætti Alþing­is“.

Á síðustu ára­tug­um hef­ur verið komið á fót ýms­um úr­sk­urðar­nefnd­um, sem starfa und­ir ýms­um nöfn­um s.s. kær­u­nefnd­ir, mál­skots­nefnd­ir, áfrýj­un­ar­nefnd­ir og mats­nefnd­ir. Eft­ir­lits­stofn­an­ir lifa sjálf­stæðu lífi og sam­hliða hef­ur hug­mynda­fræði stjórn­lynd­is fest ræt­ur. Sér­fræðinga­valdið eflst. Lög­gjaf­inn – stjórn­mála­menn­irn­ir – sitja áhrifa­litl­ir hjá, mega ekki skipta sér af en verða að axla ábyrgð á því sem miður fer.

Eft­ir því sem valdsvið úr­sk­urðar­nefnda eykst og þeim fjölg­ar, gjá­in milli stjórna rík­is­fyr­ir­tækja og eig­and­ans breikk­ar, því óljós­ari er hug­mynd­in um að valdið sé sótt til al­menn­ings og að kjörn­ir full­trú­ar séu umboðsmenn kjós­enda.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. mars 2024.