Mælti fyrir langtímastuðningi við Úkraínu
'}}

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra mælti í gærkvöldi fyrir þingsályktunartillögu um langtímastuðning Íslendinga við Úkraínu.

„Það þarf ekki mörg orð um mikilvægi þess máls. Innrásarstríð Rússlands er alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefur að Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og skýr atlaga að alþjóðakerfinu sem byggist á virðingu fyrir lögum, landamærum og landhelgi,“ segir Bjarni á facebook-síðu sinni.

Hann segir að tillagan nái til ársins 2028 og festi í sessi umfangsmikinn stuðning síðustu ára og meira til.

„Bæði styrkjum við beinar varnir Úkraínumanna gegn innrásarliðinu, leggjum til mannúðaraðstoðar við íbúa landsins, styðjum við uppbyggingu og viðhald innviða og aukum bein samskipti við stjórnvöld, þjóðþing, stofnanir og atvinnulíf í landinu,“ segir hann.

Hann segir Íslendinga ætla að nýta áfram kraft smæðarinnar í stuðningi við Úkraínu, líkt og gert hafi verið undan farin misseri í verkefnum á borð við hergagnaflutninga og færanlegt neyðarsjúkrahús síðasta sumar.

„Ísland á allt sitt undir því að lögum og reglum á alþjóðavettvangi sé fylgt og fullveldi, sjálfsákvörðunarréttur og landamæri þjóða varin og vernduð. Að standa með Úkraínu jafngildir því að standa með okkur sjálfum. Við munum styðja baráttu Úkraínu af fullum krafti eins lengi og þörf er á,“ segir Bjarni.

Nánar má lesa um málið hér.