Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Fylgjendur hins sósíalíska þjóðskipulags eru hlynntir sem mestum ríkisumsvifum og samneyslu. Draumur þeirra er að hið opinbera hafi fulla stjórn á sem flestum gæðum fólksins og úthluti síðan skömmtunarseðlum eftir þörfum. Kjarasamningar, sem fela í sér aukin ríkisumsvif til framtíðar, eru hluti af þeirri þróun sem á sér nú stað að þessu leyti.

Vissulega er sjálfsagt að hið opinbera greiði fyrir gerð kjarasamninga í því skyni að halda verðbólgu og vöxtum sem lægstum. Hóflegir kjarasamningar koma öllum til góða. Skynsamleg efnahagsstefna er auðvitað besta leiðin að þessu markmiði. Það hefði t.d. mikil áhrif til góðs ef ríki og sveitarfélög kæmu rekstri sínum í jafnvægi og létu af lántökum. Með því myndi verðbólgan hjaðna og skilyrði skapast fyrir lækkun vaxta.

Aukinnar tilhneigingar gætir hins vegar til þess að nota kjarasamninga til að auka ríkisafskipti og skattheimtu. Háværar kröfur eru gerðar um að hið opinbera efni til tugmilljarða útgjalda í því skyni að liðka fyrir hóflegum kjarasamningum, ella fari allt í bál og brand á vinnumarkaði. Auðvitað er óviðunandi að skattgreiðendur fái þannig ítrekað háan og varanlegan reikning í hausinn vegna samninga milli aðila vinnumarkaðarins.

Ætlunin er að hið opinbera muni leggja fram 80 milljarða króna næstu fjögur árin til að kaupa frið á vinnumarkaði. Halda á aftur af gjaldskrárhækkunum og brúa bil á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þá á að gera skólamáltíðir í grunnskólum gjaldfrjálsar með 75% greiðsluþátttöku ríkisins út samningstímabilið.

Sveitarfélögin hafa innheimt hóflegt gjald fyrir skólamáltíðir nemenda. Þetta gjald nemur víða um tólf þúsund krónum á mánuði. Víðtæk sátt hefur verið um þessa gjaldtöku og á grundvelli hennar hafa nemendur og foreldrar gert kröfur til þjónustunnar.

Flestir foreldrar hafa efni á að borga hádegismatinn ofan í börnin sín og finnst það ekkert tiltökumál. Sérstakt kerfi hefur verið þróað til að tryggja nemendum mat þegar viðkomandi foreldrar standa ekki undir greiðslunni.

Þegar undirritaður sat í skóla- og frístundaráði borgarinnar, fékk hann fjölmargar athugasemdir frá nemendum og foreldrum um skólamat. Mörg dæmi voru um að foreldrafélög og skólaráð fylgdust grannt með matreiðslunni í sínum skóla. Ef fram komu óskir um úrbætur voru þær gjarnan gerðar á grundvelli þess að viðkomandi nemendur væru beinir greiðendur en ekki þiggjendur þjónustunnar.

Fyrir rúmum tíu árum hafði verð skólamáltíða í Reykjavík ekki fylgt hækkun hráefnisverðs. Komu þá fram fjölmargar athugasemdir frá nemendum og foreldrum og óskir um að úr þessu yrði bætt. Margir foreldrar óskuðu þá beinlínis eftir því að matargjaldið yrði hækkað og skólaeldhúsunum þannig gert kleift að kaupa betra hráefni og standa þannig betur að matargerðinni. Fólk áttaði sig á því að beint samband væri á milli gjaldtökunnar og gæða matarins.

Ég óttast að það kunni að hafa neikvæð áhrif á gæði skólamatar þegar þetta beina samband á milli gjaldtökunnar og matreiðslunnar verður rofið. Í stað beinnar og skýrt skilgreindrar gjaldtöku verður fjármögnun skólamatarins eins og hver annar miðstýrður liður í fjárhagsáætlunum hins opinbera. Hætt er við að stjórnmálamenn freistist til að hagræða í þeim liðum eins og öðrum þegar þurfa þykir, t.d. með hinum fræga „flata niðurskurði“.

Mörg dæmi má nefna um að sóun aukist þegar takmörkuð gæði eru gerð „gjaldfrjáls“ með niðurgreiðslum hins opinbera. Þannig er hætta á að matarsóun aukist með gjaldfrjálsum skólamáltíðum.

Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis, jafnvel þótt hann sé 100% niðurgreiddur af hinu opinbera. Hann verður jafnvel dýrari fyrir vikið. Auknum byrðum verður velt yfir á skattgreiðendur eins og fyrri daginn.

Greinin birtist í Morgumblaðinu 14. mars 2024.