Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Það skýrist alltaf betur og betur með hverri vikunni sem líður að forsendur Reykjavíkurborgar í aðalskipulagi til 2040 og forsendur vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins eru fyrir bí. Eldhræringar á Reykjanesskaga og mannfjöldaþróun gera það að verkum að við þurfum að endurskoða fyrri ákvarðanir. Þess vegna leggjum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í borgarstjórn síðar í dag um að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja vinnu við endurskoðun á Aðalskipulagi Reykjavíkur með það að markmiði að skipuleggja blandaða byggð í Geldinganesi með áherslu á íbúðauppbyggingu.
Geldinganesið er rúmlega tveir ferkílómetrar að stærð sem er til jafns við Fossvogshverfi og Smáíbúðahverfið þar sem um 12 þúsund manns búa í mjög blandaðri byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Bæði gríðarlega góð og eftirsótt hverfi að búa í. Það er fyrirmynd okkar sjálfstæðisfólks. Vel heppnuð blönduð hverfi þar sem fjölbreytni búsetuvalkosta er mikil.
Þegar sá sem þetta skrifar var að alast upp í Fossvogi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar var oft vindasamt og kalt fyrir norðan hús á meðan veðursældin var hvergi meiri fyrir sunnan hús í skjólinu. Það er ekkert því til fyrirstöðu að í tímans rás verði suðurhlíð Geldinganess viðlíka vin og Fossvogurinn er orðinn. Til þess þarf tíma og gróður.
Við vitum að forsendur aðalskipulags eru brostnar, við vitum að fólki á höfuðborgarsvæðinu mun fjölga á næstu árum og áratugum og við vitum að húsnæðisþörfin í Reykjavík er gríðarleg. Það er alveg ljóst að Vatnsmýrin verður ekki byggð næstu 20 ár eða lengur. Stóru húsnæðisverkefnin á Ártúnshöfða og Keldnalandi verða bæði þéttbýl hverfi þar sem fjölbýlishús verða allsráðandi. Það er fyrir löngu kominn tími á fjölbreytni í uppbyggingu í Reykjavík. Þess vegna leggjum við, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, fram tillögu um uppbyggingu á Geldinganesi. Til að auka fjölbreytni í framboði og til að mæta framtíðinni og breyttum aðstæðum á suðvesturhorni landsins. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins erum fullmeðvituð um stefnu meirihlutans og tilhneigingu þeirra sem hann skipa til að stinga höfðinu í sandinn þegar þeim líkar ekki veruleikinn. En þótt það sé lítil von, þá verðum við að vona að núverandi meirihluti skynji umhverfi sitt og breyttar aðstæður. En við leggjum ekki síður fram tillöguna um byggð í Geldinganesi til að sýna borgarbúum að það er til kostur sem raunverulega lofar breytingum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. mars 2024.