Birgir Þórarinsson alþingismaður:
„Ég mun fella úr gildi öll dvalarleyfi þeirra sem styðja eða hafa samúð með Hamas. Við munum úthýsa þeim úr háskólunum, bæjum og borgum. Við munum reka þá úr landi.“ Þetta sagði Donald Trump í nýlegri framboðsræðu fyrir forval Repúblikanaflokksins fyrir komandi forsetakosningar í nóvember. Þetta er eitt af kosningaloforðum Trumps. Þeir sem styðja Hamas-samtökin verða reknir frá Bandaríkjunum, verði Trump forseti. Ákveðins samhljóms gætir milli ummæla Trumps og reglugerðar Evrópusambandsins frá 19. janúar sl. sem utanríkisráðherra hefur staðfest fyrir Íslands hönd.
Árið 2001 setti Evrópusambandið hernaðararm Hamas-samtakanna og samtökin Palestínskt íslamskt Jihad á lista sambandsins yfir hryðjuverkahópa. Árið 2003 setti Evrópusambandið síðan Hamas-samtökin, þ.m.t. hinn pólitíska arm þess, á lista yfir hryðjuverkahópa. Íslensk stjórnvöld fylgja Evrópusambandinu í þessum efnum og skilgreina Hamas-samtökin sem hryðjuverkasamtök. Það varðar allt að sex ára fangelsi samkvæmt hegningarlögum að liðsinna hryðjuverkasamtökum í orði eða verki.
Í reglugerð utanríkisráðherra nr. 290/2024 um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi segir að þeir sem styðja ofbeldisverk Hamas-samtakanna og Palestínskt íslamskt Jihad skuli sæta þvingunaraðgerðum.
Óheimilt að hleypa stuðningsmönnum Hamas inn í landið
Í fylgiskjali með reglugerðinni kemur fram að þann 19. janúar sl. samþykkti leiðtogaráð ESB eftirfarandi: „…aðildarríki skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að inn á yfirráðasvæði þeirra komi eða um þau fari einstaklingar, sem eiga aðild að, eru í vitorði um, styðja efnislega eða fjárhagslega, Hamas-samtökin, samtökin Palestínskt íslamskt Jihad og hópa sem verða til út frá þeim“. Ísland er bundið þessum reglum í reglugerð utanríkisráðherra, sem er sett með heimild í lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 68/2023. Reglurnar gera einnig ráð fyrir því að frysta skuli eigur einstaklinga, hópa, stofnana og lögaðila sem styðja Hamas. Ísland er því skuldbundið til að hleypa ekki stuðningsmönnum Hamas inn í landið.
Á Íslandi eru Palestínumenn búsettir sem hafa sagt opinberlega, m.a. á innlendri sjónvarpsstöð, að þeir styðji Hamas-samtökin. Á samfélagsmiðlum hafa þeir stutt Hamas og fagnað hryðjuverkaárásinni á Ísrael 7. október sl. Í þessum ummælum felst efnislegur stuðningur við Hamas-samtökin. Lagt er bann við slíkum stuðningi í tilvitnaðri reglugerð Evrópusambandsins, sem öðlast hefur gildi hér á landi, eins og áður segir. Fyrrnefnd reglugerð kveður skýrt á um að slíkum aðilum beri að vísa úr landi. Ef Útlendingastofnun fær vitneskju um að einstaklingur sem styður Hamas-samtökin hafi óskað eftir hæli hér á landi ber stofnuninni að upplýsa dómsmálaráðuneytið um slíkt. Reglugerðin er skýr um afleiðingar þessa. Danir ákæra þá sem lýsa yfir stuðningi við Hamas-illvirkin.
Bakgrunnsrannsóknir nauðsynlegar
Ofangreindar reglur Evrópusambandsins hafa í för með sér að stjórnvöld verða að gera bakgrunnsrannsókn á öllum þeim sem sækja um hæli á Íslandi og koma frá svæðum þar sem Hamas hefur starfsemi. Má þar nefna Gasa, Vesturbakkann, Doha, Katar, Egyptaland og flóttamannabúðir í Líbanon. Komi í ljós að viðkomandi styðji Hamas-samtökin í orði eða verki skal meina honum um landvist. Hér er að sjálfsögðu ekki verið að horfa til barna.
Er ekki örugglega verið að framfylgja reglugerð utanríkisráðherra um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2024.