Við búum á grænu batteríi
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Lands­virkj­un er, að öðrum ólöstuðum, mik­il­væg­asta fyr­ir­tækið í op­in­berri eigu. Fyr­ir for­sjár­hyggju og hug­rekki þeirra sem á und­an okk­ur komu hef­ur verið byggt upp öfl­ugt fyr­ir­tæki sem nýt­ir end­ur­nýj­an­leg­ar orku­auðlind­ir með hag­kvæm­um hætti. Árang­ur­inn á síðasta ári var framúrsk­ar­andi góður – 45 millj­arða króna hagnaður og til­laga um 20 millj­arða króna arðgreiðslu til rík­is­ins. Slík fjár­hæð skipt­ir veru­legu máli í rík­is­fjár­mál­un­um. Von­andi munu slík­ar greiðslur skila sér á næstu árum í áfalla­sjóð en ekki hefðbund­in út­gjöld rík­is­sjóðs. Það væri skyn­sam­leg ráðstöf­un og frum­varp þess efn­is verður lagt fram á Alþingi á næstu dög­um.

Viðbúin áföll­um

Á Iðnþingi fyr­ir sex árum fjallaði ég um bók Stef­ans Zweig, „Ver­öld sem var“. Ég minnti á að óvíða hef­ur fólk það betra en á Íslandi. Við get­um nefnt hvern list­ann á fæt­ur öðrum yfir lífs­gæði, hag­sæld og vel­ferð þar sem við erum í efstu tíu til fimmtán sæt­um í heim­in­um. Við hljót­um að hafa full­an rétt til að spyrja okk­ur eins og Stef­an Zweig gerði upp úr alda­mót­un­um 1900, erum við ekki hér að lifa gull­öld lífs­gæða? Gull­öld vel­ferðar? Gull­öld ör­ygg­is? Ég velti því þá upp hvort eitt­hvað væri við sjón­deild­ar­hring­inn, sem ógn­ar grund­velli okk­ar og góðri stöðu.

Síðan kom heims­far­ald­ur, jarðhrær­ing­ar á Reykja­nesi og stríð Rússa í Úkraínu, sem hef­ur um­turnað veru­leika Evr­ópu síðastliðin tvö ár. Allt þetta kall­ar á að við sem för­um með ábyrgð tök­um hana al­var­lega; hvort sem það er á vett­vangi stjórn­mála, viðskipta, menn­ing­ar eða í stjórn­sýsl­unni. Við lif­um ekki á tím­um þar sem við get­um leyft okk­ur að horfa blá­eyg inn í framtíðina og halda að allt muni redd­ast og fara vel að lok­um.

Öryggi, verðmæta­sköp­un og sam­keppni

Ákvarðanir í orku­mál­um eru mik­il­væg­ar og stór­ar. Þær eiga að miðast sér­stak­lega við þrennt, raf­orku­ör­yggi, verðmæta­sköp­un og sam­keppni. Þegar kem­ur að ör­yggi okk­ar þá blas­ir við nýr veru­leiki á Reykja­nesskaga sem hef­ur mik­il áhrif á nauðsyn­lega orku­innviði okk­ar, heitt vatn og raf­orku, og er veru­leiki sem kallað hef­ur á mik­il út­gjöld. Meira gæti komið til enda stend­ur at­b­urðarás­in enn yfir. Nátt­úr­an hef­ur þannig minnt okk­ur á í hvaða landi við búum. Við get­um hvorki verið værukær gagn­vart innviðaupp­bygg­ingu al­mennt né orku­fram­leiðslu sér­stak­lega.

Varðandi efna­hags­leg tæki­færi og verðmæta­sköp­un er Ísland í færi um að vera leiðandi í grænni orku, sem við erum sann­ar­lega í jarðvarma og vatns­afli. Við get­um þó hæg­lega glatað for­ystu okk­ar ef við höf­um ekki skýra sýn og lát­um ekki hug fylgja máli. Við eig­um að keyra Ísland á grænni inn­lendri orku eins og kost­ur er, frem­ur en að kaupa hana með gjald­eyri okk­ar fyr­ir 170 millj­arða króna, eins og við gerðum á síðasta ári. Þetta er aug­ljóst.

Auk­in raf­orku­fram­leiðsla í þágu stærri hóps viðskipta­vina stuðlar að betri nýt­ingu orku­auðlinda og minni sóun á þeim, sem er því miður um­tals­verð í dag. Dýr­mæt þekk­ing mun byggj­ast upp á Íslandi sem hægt verður að flytja út. Sprot­ar og ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki munu spretta fram og vaxa, rétt eins og gerst hef­ur í kring­um sjáv­ar­út­veg­inn til dæm­is, ef við tryggj­um opin gögn og op­inn og gagn­sæj­an markað svo snjall­ir hlut­ir geti orðið til. Við búum á grænu batte­ríi og lát­um það ekki ger­ast að búa við skort á raf­orku.

Loks verðum við að tryggja heil­brigða sam­keppni en rétt er að hafa hug­fast að hér hef­ur verið komið á frjálsu markaðsum­hverfi í fram­leiðslu og sölu á raf­magni. Í frjálsu markaðsum­hverfi þarf sam­keppni að þríf­ast og hana þarf að auka á orku­markaði. Sam­keppni er nauðsyn­leg, hún ýtir við öll­um á markaði, er nauðsyn­legt aðhald og stuðlar að jafn­ari leik. Lands­virkj­un fram­leiddi rúm­lega 70% af raf­orku­fram­leiðslu lands­ins í fyrra. Það er því mik­il­vægt að fé­lagið stuðli að sam­keppni og hafi sam­keppn­is­gler­aug­un á í öll­um sín­um ákvörðunum. Tryggja þarf að byggður sé upp skil­virk­ur heild­sölu­markaður sem ýtir und­ir sam­keppni, gagn­sæja verðmynd­un og jafn­ræði.

Lög­mætt brott­kast

Ein­angrað orku­kerfi sem bygg­ist á sveiflu­kenndri nátt­úru­auðlind eins og vatns­afli hef­ur alla jafna í för með sér tölu­verða sóun. Sóun­in felst í því að aðeins er hægt að selja versta vatns­árið á gefnu viðmiðun­ar­tíma­bili. Í meðalári fer af­gangs­orka til spill­is. Það er ekki hægt að selja hana af því að það er ekki hægt að tryggja að hún verði til reiðu í óvenju­lega þurr­um árum. Svo­kallað „lög­mætt brott­kast“ sem er um átta millj­arða virði. Í meðalári nem­ur ár­legt brott­kast um það bil tveim­ur tera­vatt-stund­um eða um 10% af okk­ar raf­orku­fram­leiðslu. Það er meira en tvö­föld árs­notk­un allra heim­ila lands­ins. Með sveigj­an­legri viðskipta­vin­um, sem væru til­bún­ir til að slaka á notk­un sinni í slæm­um vatns­ár­um, væri hægt að minnka þessa sóun. Af­gangs­orka sem er „hent“ og kall­ar ekki á nýj­ar virkj­an­ir, held­ur aðeins að aðilar séu til­bún­ir til að veðja á lík­urn­ar á lé­leg­um vatns­ár­um og nái samn­ing­um um hvernig beri að skipta ávinn­ingn­um. Það er til mik­ils að vinna í raf­orku­mál­um – fyr­ir okk­ur öll.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. mars 2024.