Við höfum ekki efni á öllu

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Erfitt er og jafn­vel úti­lokað að meta mik­il­vægi þess að tek­ist hef­ur að tryggja kjara­samn­inga á al­menn­um vinnu­markaði til fjög­urra ára. Lang­tíma­samn­ing­ar á vinnu­markaði ættu að öðru jöfnu að tryggja auk­inn stöðug­leika, lægri vexti og verðbólgu og auk­inn kaup­mátt launa. Meiri festa í efna­hags­líf­inu ger­ir heim­il­um og fyr­ir­tækj­um kleift að horfa lengra inn í framtíðina og gera raun­hæf­ar áætlan­ir. Stöðug­leiki dreg­ur úr áhættu og ýtir und­ir vilja til fram­kvæmda og fjár­fest­inga.

Þegar þetta er skrifað hafa stærstu sam­tök launa­fólks á al­menn­um vinnu­markaði, fyr­ir utan VR, gengið frá kjara­samn­ing­um til næstu fjög­urra ára. Ekki er ástæða til að ætla annað en að op­in­ber­ir starfs­menn semji á svipuðum nót­um. Annað er ekki í boði enda of mikið í húfi.

Mik­il­væg­asta verk­efni Sam­taka at­vinnu­lífs­ins og breiðfylk­ing­ar launa­fólks var að leggja grunn að lægri verðbólgu og veru­legri lækk­un vaxta með kjara­samn­ing­um til langs tíma. Kjara­samn­ing­arn­ir eru í höfn, með um­fangs­meiri aðkomu rík­is­ins en áður hef­ur þekkst. Verk­inu er ekki lokið og það mun reyna á aðila vinnu­markaðar­ins og hið op­in­bera, líkt og seg­ir í áskor­un Sam­taka at­vinnu­lífs­ins und­ir lok síðasta árs. „Stjórn Sam­taka at­vinnu­lífs­ins skor­ar á aðild­ar­fé­lög sín, önn­ur fyr­ir­tæki lands­ins, ríki og sveit­ar­fé­lög að styðja við fyrr­greind mark­mið kjara­samn­inga, eins og þeim frek­ast er unnt, með því að halda aft­ur af verðhækk­un­um og launa­skriði.“

80+ millj­arða pakki

Til að greiða fyr­ir skyn­söm­um kjara­samn­ing­um hef­ur rík­is­stjórn­in boðað kostnaðarsam­ar aðgerðir sem metn­ar eru á 80 millj­arða króna á samn­ings­tím­an­um. (Kostnaður­inn er raun­ar mun meiri þegar horft er til lengri tíma því vand­séð er að undið verði ofan af ýms­um nýj­um út­gjöld­um að samn­ings­tíma lokn­um).

Í byrj­un árs hélt ég því fram í viku­leg­um pistli hér í Morg­un­blaðinu að það væri „barna­skap­ur að ætla að rík­is­valdið fái frítt spil í kom­andi kjara­samn­ing­um“. Jafnt ríki og sveit­ar­fé­lög geti leikið lyk­il­hlut­verk í að tryggja að skyn­sam­leg­ir lang­tíma­samn­ing­ar ná­ist milli aðila vinnu­markaðar­ins. „Þótt ég hafi aldrei verið hrif­inn af því að hið op­in­bera komi með bein­um hætti að lausn deilna á vinnu­markaði er frá­leitt annað en að huga að því með hvaða hætti slík aðkoma geti verið.“

Með öðrum orðum: Ég taldi rétt­læt­an­legt að rík­is­sjóður kæmi að mik­il­vægu verk­efni. Það eru góð rök fyr­ir því að hækka jafnt barna­bæt­ur og greiðslur í fæðing­ar­or­lofi. (Ég hef hins veg­ar lengi talað fyr­ir því að barna­bóta­kerfið verði lagt niður og þess í stað tek­inn upp per­sónu­afslátt­ur barna sem færi lækk­andi eft­ir því sem tekj­ur for­eldra eru hærri). Hækk­un vaxta- og hús­næðis­bóta ork­ar tví­mæl­is en virðist mik­il­væg­ur þátt­ur í að kjara­samn­ing­ar hafi tek­ist. Sá kostnaður er minni hátt­ar miðað við ávinn­ing­inn af lang­tíma­samn­ing­um og meiri stöðug­leika.

Ekki er hins veg­ar hjá því kom­ist að vara sér­stak­lega við hug­mynd­um um frí­ar skóla­máltíðir sem áætlað er að kosti rík­is­sjóð um 21,5 millj­arða út samn­ings­tím­ann. Það er allt rangt við þessa ráðstöf­un fjár­muna. Verið er að styrkja stór­an hóp for­eldra sem þarf ekki á stuðningi að halda og færa má rök fyr­ir því að mat­ar­sóun auk­ist. Ef það var ætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar að verja á þriðja tug millj­arða króna til að styðja við barna­fjöl­skyld­ur hefði verið skyn­sam­legra að hækka barna­bæt­ur enn frek­ar en ráðgert er. Frí­ar skóla­máltíðir eru dæmi um vonda ráðstöf­un sam­eig­in­legra fjár­muna.

Von mín um að rík­is­stjórn­in gæti sam­ein­ast um að lækka skatta, og þá sér­stak­lega lækka neðsta þrep tekju­skatts­ins, gekk ekki eft­ir. Það er miður enda kem­ur fátt þeim sem lægri laun­in hafa bet­ur en lækk­un tekju­skatts fyr­ir utan lækk­un út­svars.

Ekki hærri skatt­ar

Kjara­samn­ing­ar virðast ekki hafa aukið ham­ingju stjórn­ar­and­stöðunn­ar. Í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­um síðastliðinn mánu­dag gat Kristrún Frosta­dótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, ekki með nokkr­um hætti óskað rík­is­stjórn­inni eða fjár­málaráðherra til ham­ingju með sinn þátt í að tryggja lang­tíma­samn­inga. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir fjár­málaráðherra benti Kristrúnu kurt­eis­lega á að óhætt væri „að óska mér til ham­ingju með að búið sé að ná lang­tíma­kjara­samn­ing­um við aðila vinnu­markaðar­ins á Íslandi til fjög­urra ára, sem er mjög sjald­gæft“.

Þór­dís Kol­brún var skýr í svör­um um hvernig ætl­un­in er að fjár­magna þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið. Taka þurfi ákv­arðanir um for­gangs­röðun. „Er það gert með því að hækka alls kon­ar skatta á sömu hópa og voru að ná sam­an í kjaraviðræðum til næstu fjög­urra ára? Nei. Er hægt að fara í aðgerðir til að spara í kerf­inu? Já, ég lít svo á að við séum með þess­ari for­gangs­röðun í þágu fjöl­skyldna, í þágu fjög­urra ára friðar á vinnu­markaði, að taka ákvörðun um að setja það í for­gang á kostnað kerf­is.“

Skila­boð fjár­málaráðherra eru skýr. Það á að auka aðhald í rekstri rík­is­ins – ekki sárs­auka­full­an niður­skurð held­ur fara bet­ur með al­manna­fé. „Mér þykir eðli­leg krafa af hálfu fjár­veit­inga­valds­ins og stjórn­valda að skoða það á hverj­um degi hvort farið er eins vel með annarra manna pen­inga og kost­ur er,“ sagði fjár­málaráðherra.

Sparnaður, upp­skurður og sala

Í aðdrag­anda fjár­mála­áætl­un­ar eru skila­boð fjár­málaráðherra mik­il­væg. Við höf­um ekki efni á því að reka jafn um­fangs­mikla stjórn­sýslu og raun ber vitni. Aug­ljóst er að stjórn­ar­ráðið hef­ur vaxið okk­ur yfir höfuð með mik­illi fjölg­un starfs­manna. Upp­skurður er nauðsyn­leg­ur.

Við þurf­um að fækka stofn­un­um rík­is­ins. Sam­keppnis­eft­ir­litið og Neyt­enda­stofa yrðu góð ein­ing. Við verðum að sam­eina sýslu­mann­sembætt­in og styrkja þannig starf­sem­ina um allt land. Sam­ein­ing dóm­stóla blas­ir við. Fækk­un hæsta­rétt­ar­dóm­ara í fimm er skyn­sam­leg. Þing­menn verða að tryggja fram­gang þriggja frum­varpa um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra um upp­stokk­un og sam­ein­ing­ar stofn­ana sem heyra und­ir ráðuneyti hans.

Fækk­un stofn­ana rík­is­ins, út­vist­un verk­efna og sala rík­is­fyr­ir­tækja stuðlar að auknu hagræði í rík­is­rekstr­in­um. Fjár­fest­ing í sta­f­rænni stjórn­sýslu leiðir ekki aðeins til lægri rekstr­ar­kostnaðar held­ur til betri þjón­ustu við lands­menn.

Við verðum að sætta okk­ur við að rík­is­sjóður hef­ur ekki bol­magn til að ráðast í mörg verk­efni sem mörg­um kann að finn­ast nauðsyn­leg. Stofn­un rík­is­óperu er eitt, þjóðar­höll er annað, stofn­un rík­is­stofn­un­ar um mann­rétt­indi er þriðja. List­inn er því miður lengri.

End­ur­greiðslur til er­lendra kvik­mynda­fyr­ir­tækja eru komn­ar úr bönd­un­um. Fjög­urra millj­arða end­ur­greiðsla til banda­rísks spennuþátt­ar sær­ir alla skyn­semi. Hækk­un á hlut­falli end­ur­greiðslu, sem gerð var í mik­illi sam­stöðu á þingi árið 2022, verður að fella úr gildi. Ekki verður hjá því kom­ist að end­ur­skoða höfuðborg­arsátt­mál­ann frá grunni.

Sé rétt að mál­um staðið geta aðgerðir rík­is­ins í tengsl­um við kjara­samn­inga orðið til þess að loftað sé um rík­is­rekst­ur­inn, sópað und­an tepp­um og rík­is­rekst­ur­inn gerður skil­virk­ari og hag­kvæm­ari.

Eðli máls sam­kvæmt hef­ur Seðlabank­inn beðið eft­ir að kjara­samn­ing­ar tækj­ust. Í yf­ir­lýs­ingu pen­inga­stefnu­nefnd­ar 7. fe­brú­ar síðastliðinn er bent á að raun­vext­ir hafi hækkað, verðbólga hjaðnað og spenna í efna­hags­líf­inu minnkað. Verðbólgu­horf­ur hafi því batnað, þótt lang­tíma­vænt­ing­ar séu enn yfir mark­miði. Pen­inga­stefnu­nefnd ákvað í ljósi þessa og óvissu um niður­stöðu kjara­samn­inga og mögu­legra aðgerða í rík­is­fjár­mál­um tengdra þeim, að halda stýri­vöxt­um óbreytt­um. Nú hafa þess­ir tveir óvissuþætt­ir horfið. Í því ljósi hníga öll rök að því að stýri­vext­ir verði lækkaðir á næsta fundi pen­inga­stefnu­nefnd­ar í kom­andi viku. Ákvörðun um annað send­ir röng skila­boð til al­menn­ings og fyr­ir­tækja.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. mars 2024.