Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Síðastliðið haust ræddum við Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra skipulagða glæpastarfsemi í fyrirspurnatíma á Alþingi. Tilefnið var fyrirspurn mín í kjölfar ítrekaðra frétta af alvarlegum ofbeldisglæpum og árásum í Svíþjóð. Glæpirnir voru raktir til átaka glæpagengja sem hafa hreiðrað um sig í Svíþjóð. Þar hefur ástandið síst skánað og okkur berast fréttir af endurteknum sprengjuárásum.
Dómsmálaráðherra hefur ítrekað bent á stóraukna ógn vegna skipulagðrar brotastarfsemi og aukin umsvif erlendra glæpahópa. Nýlega stóð lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að umfangsmiklum aðgerðum vegna rökstudds gruns um skipulagða brotastarfsemi. Lögregluyfirvöld hafa staðfest að lögreglumönnum stafi aukin ógn af glæpamönnum sem hafa tengsl við slíka starfsemi og hefur m.a.s. verið kveikt í bíl lögreglumanns. Þetta ástand getum við ekki liðið í okkar friðsæla landi.
Mér þótti því tilefni til að fylgja fyrirspurn minni til ráðherrans eftir og ræddum við hana á dögunum. Fyrirspurnin varðaði hvort ráðherrann hygðist grípa til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir að börn og ungmenni gengju til liðs við skipulagða glæpahópa og sporna við ólöglegri vopnanotkun. Þá beindist hún að fleiri og/eða þyngri refsiheimildum í tengslum við skipulagða brotastarfsemi. Það hafa önnur norræn ríki haft á sinni dagskrá.
Dómsmálaráðherra undirstrikaði mikilvægi þess að lögregluyfirvöld hefðu tæki til þess að grípa til varna í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Dómsmálaráðuneytið hefði lagt aukna áherslu á afbrotavarnir, m.a. með því að fjölga stöðugildum og auka samfélagslöggæslu. Fræðsla, forvarnir og félagsleg úrræði gegndu einnig mikilvægu hlutverki í þessu tilliti. Við höfum séð annars staðar á Norðurlöndunum að ungmenni í veikri félagslegri stöðu ganga frekar til liðs við skipulagða glæpahópa. Því væri átak lögreglunnar til að styrkja tengsl við ungt fólk og færa lögregluna nær samfélaginu mikilvægt.
Ráðherrann benti á að nýsamþykktar breytingar á vopnalögum hefðu m.a. miðað að takmörkun aðgengis að ákveðnum skotvopnum og auknu eftirliti lögreglu. Hún vakti athygli á að hérlendis hefði reynst erfitt að sakfella fyrir skipulagða brotastarfsemi fyrir dómi og velti því upp hvort koma þyrfti til breytinga á lögum svo markmiðið með löggjöfinni næðist að þessu leyti. Ráðherrann taldi sömuleiðis vert að skoða kosti og galla þess að mæla fyrir um þyngri refsingar fyrir brot sem eru framin í tengslum við skipulagða brotastarfsemi eins og Norðmenn hafa t.a.m. gert.
Skilaboð dómsmálaráðherra til þingsins eru að hún hafi verulegar áhyggjur af skipulagðri brotastarfsemi og fylgist vel með þróuninni í nágrannalöndum okkar í þessum efnum. Íslendingar eru annálaðir fyrir færni í „krísustjórnun“. Fyrirhyggja er svo annað mál. Drögum endilega lærdóm af reynslu vinaþjóða okkar og alvarlegri stöðu sem þar er uppi og grípum strax til allra nauðsynlegra ráðstafana til að vinna gegn starfsemi glæpahópa á Íslandi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. mars 2024.