Undirritaði fríverslunarsamning við Indland

EFTA-ríkin undirrituðu í morgun fríverslunarsamning við Indland, en Ísland er hluti af þeim samningi. Er þar tilkominn fyrsti fríverslunarsamningur milli Indlands og Evrópuríkja.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra segir í samtali við mbl.is að um stórmerkilegan samning sé að ræða. Samningurinn hafi mikla þýðingu fyrir EFTA-ríkin. „Bæði í þeim til­gangi að ná samn­ing­um við vax­andi hag­kerfi en eins eru EFTA-rík­in að tengja sig við það svæði í heim­in­um sem er að vaxa hvað ör­ast og hér eru gríðarleg áform uppi til næstu ára­tuga um áfram­hald­andi hag­vöxt til að auka kaup­mátt og lífs­gæði lands­manna sem eru ekki fáir, þeir eru meira en helm­ingi fleiri en all­ir Evr­ópu­bú­ar,“ segir Bjarni.

Segir hann að ferlinu hafi verið hrundið af stað í janúar 2008, en að kraftur hafi komist í viðræðurnar fyrir ári síðan og að áhugi hafi verið hjá öllum ríkjum að því að reyna að komast eins langt og hægt væri, sem endaði með undirritun fríverslunarsamnings í dag.

Með samningnum eru tollar fyrir ýmsar íslenskrar útflutningsafurðir felldir niður og þar opnast ný tækifæri fyrir sjávarafurðir og iðnaðarvöru auk þess að skapa ramma fyrir þjónustuviðskipti ýmiskonar, en Bjarni bendir á að þau séu orðin töluvert hlutfall af heildarviðskiptum milli Íslendinga og Indverja, ekki síst á sviði hugbúnaðar.

„Svona samn­ing­ur skap­ar grunn fyr­ir framtíðarviðskipti og eyk­ur þar með traust í viðskiptum milli land­anna. Ind­land lagði mjög mikla áherslu á það í samn­ingalot­unni að fá skuld­bind­ingu frá ríkj­un­um um fjár­fest­ingu inn í framtíðina og ákveðin viðmið til næstu tutt­ugu ára eru í samn­ingn­um um tals­verða aukn­ingu í beinni fjár­fest­ingu til Ind­lands,“ seg­ir Bjarni.

Hann segir að að með því vilji Indverjar m.a. bæta lífsgæði þar í landi og einnig draga úr þörfinni fyrir innflutningi til Indlands. Hann segir einnig að með samningnum sé komið kærkomið tækifæri fyrir EFTA-ríkin þar sem mikill vöxtur sé í hvers kyns framleiðslu á Indlandi og að efnahagsmiðja heimsins sé með hverju árinu að færast frá Evrópu í austurátt. Ekki síst fyrir vöxtinn sem á sér stað á Indlandi.

„Þetta er samn­ing­ur sem horf­ir til langr­ar framtíðar og það sem stjórn­völd hér eru að gera er að teppaleggja veg­inn inn í framtíðina og í fram­hald­inu mun það ráðast hvernig at­vinnu­lífið gríp­ur þessi tæki­færi og hleyp­ur með þau vegna þess að fyr­ir fjár­fest­ana og at­vinnu­lífið gild­ir að sækja tæki­fær­in og landa þeim,“ seg­ir Bjarni.