EFTA-ríkin undirrituðu í morgun fríverslunarsamning við Indland, en Ísland er hluti af þeim samningi. Er þar tilkominn fyrsti fríverslunarsamningur milli Indlands og Evrópuríkja.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra segir í samtali við mbl.is að um stórmerkilegan samning sé að ræða. Samningurinn hafi mikla þýðingu fyrir EFTA-ríkin. „Bæði í þeim tilgangi að ná samningum við vaxandi hagkerfi en eins eru EFTA-ríkin að tengja sig við það svæði í heiminum sem er að vaxa hvað örast og hér eru gríðarleg áform uppi til næstu áratuga um áframhaldandi hagvöxt til að auka kaupmátt og lífsgæði landsmanna sem eru ekki fáir, þeir eru meira en helmingi fleiri en allir Evrópubúar,“ segir Bjarni.
Segir hann að ferlinu hafi verið hrundið af stað í janúar 2008, en að kraftur hafi komist í viðræðurnar fyrir ári síðan og að áhugi hafi verið hjá öllum ríkjum að því að reyna að komast eins langt og hægt væri, sem endaði með undirritun fríverslunarsamnings í dag.
Með samningnum eru tollar fyrir ýmsar íslenskrar útflutningsafurðir felldir niður og þar opnast ný tækifæri fyrir sjávarafurðir og iðnaðarvöru auk þess að skapa ramma fyrir þjónustuviðskipti ýmiskonar, en Bjarni bendir á að þau séu orðin töluvert hlutfall af heildarviðskiptum milli Íslendinga og Indverja, ekki síst á sviði hugbúnaðar.
„Svona samningur skapar grunn fyrir framtíðarviðskipti og eykur þar með traust í viðskiptum milli landanna. Indland lagði mjög mikla áherslu á það í samningalotunni að fá skuldbindingu frá ríkjunum um fjárfestingu inn í framtíðina og ákveðin viðmið til næstu tuttugu ára eru í samningnum um talsverða aukningu í beinni fjárfestingu til Indlands,“ segir Bjarni.
Hann segir að að með því vilji Indverjar m.a. bæta lífsgæði þar í landi og einnig draga úr þörfinni fyrir innflutningi til Indlands. Hann segir einnig að með samningnum sé komið kærkomið tækifæri fyrir EFTA-ríkin þar sem mikill vöxtur sé í hvers kyns framleiðslu á Indlandi og að efnahagsmiðja heimsins sé með hverju árinu að færast frá Evrópu í austurátt. Ekki síst fyrir vöxtinn sem á sér stað á Indlandi.
„Þetta er samningur sem horfir til langrar framtíðar og það sem stjórnvöld hér eru að gera er að teppaleggja veginn inn í framtíðina og í framhaldinu mun það ráðast hvernig atvinnulífið grípur þessi tækifæri og hleypur með þau vegna þess að fyrir fjárfestana og atvinnulífið gildir að sækja tækifærin og landa þeim,“ segir Bjarni.