Styðjum sjálfstæðan skólarekstur
'}}

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Víða um heim starfa skól­ar á bæði leik- og grunn­skóla­stigi, rekn­ir á sjálf­stæðum grunni. Þess­ir sjálf­stæðu skól­ar eru al­mennt lit­rík viðbót við skóla­flóru hvers lands. Þeir hafa gjarn­an kynnt til leiks ný­stár­lega hug­mynda­fræði og nýj­ar fram­sækn­ar skóla­stefn­ur. Þeir hafa veitt for­eldr­um fleiri val­kosti í skóla­mál­um og tæki­færi til að velja milli ólíkra áherslna í upp­eldi og mennt­un barna sinna.

Ísland er veru­leg­ur eft­ir­bát­ur ná­grannaþjóðanna hvað varðar sjálf­stæðan rekst­ur í skóla­kerf­inu. Síðastliðin ár hafa aðeins um 15% leik­skóla­barna hér­lend­is sótt sjálf­stætt starf­andi leik­skóla sam­an­borið við 57% leik­skóla­barna í Nor­egi. Hér­lend­is sækja um 2,5% grunn­skóla­barna nám í sjálf­stætt starf­andi grunn­skól­um en til sam­an­b­urðar er hlut­fallið 12% í Dan­mörku.

Jöfn op­in­ber fram­lög óháð rekstr­ar­formi

Rekstr­ar­um­hverfi sjálf­stætt starf­andi skóla í Reykja­vík er erfitt, enda op­in­ber fram­lög til skól­anna tak­mörkuð. Þannig er mennt­un­ar­fram­lag borg­ar­inn­ar með barni í sjálf­stætt starf­andi skóla aðeins 75% af því fram­lagi sem greitt er með barni í borg­ar­rekn­um skóla. Þetta verður til þess að sjálf­stætt starf­andi skól­ar verða að inn­heimta skóla­gjöld.

Í upp­hafi kjör­tíma­bils lagði Sjálf­stæðis­flokk­ur fram til­lögu í borg­ar­stjórn um jöfn op­in­ber mennt­un­ar­fram­lög með öll­um börn­um í grunn- og leik­skóla­kerf­inu, óháð rekstr­ar­formi þeirra skóla sem börn­in sækja. Með breyt­ing­unni mætti treysta rekstr­ar­grund­völl sjálf­stætt starf­andi skóla og draga úr þörf þeirra til að inn­heimta skóla­gjöld. Þannig mætti tryggja börn­um í Reykja­vík jafn­ari tæki­færi, enda yrði efna­hag­ur for­eldra ekki ákv­arðandi ástæða við skóla­val barna.

Eins og með aðrar stefnu­mark­andi til­lög­ur á þessu kjör­tíma­bili treysti meiri­hlut­inn sér ekki til að af­greiða málið, held­ur vísaði því til nán­ari rýni inn­an borg­ar­ráðs. Frá fram­lagn­ingu til­lög­unn­ar eru nú liðnir 16 mánuðir og málið ekki hlotið frek­ari fram­gang.

Mis­mun­um ekki nem­end­um

Á dög­un­um kynnti ráðherra há­skóla­mála breyt­ing­ar á fram­lög­um til sjálf­stætt starf­andi há­skóla, með þeim hætti að jöfn op­in­ber fram­lög myndu fylgja öll­um nem­end­um í há­skóla­námi. Sjálf­stætt starf­andi há­skól­ar gætu þannig þegið 100% fram­lag frá rík­inu (í stað 75%) eins og rík­is­háskól­ar, ef þeir myndu ekki inn­heimta skóla­gjöld. Ákvörðun­inni fylgdi sú rök­semd að ríkið skyldi ekki gera upp á milli nem­enda eft­ir því hvaða há­skóla þeir veldu, en kerfið í dag hef­ur mis­munað nem­end­um skipu­lega og ýtt þeim frek­ar í rík­is­háskóla.

Í kjöl­far þess­ar­ar stefnu­mark­andi ákvörðunar ráðherra ít­rekuðu sjálf­stæðis­menn í borg­ar­stjórn fyrri til­lög­ur um jöfn mennt­un­ar­fram­lög með öll­um börn­um í leik- og grunn­skóla­kerf­inu. Hafa til­lög­urn­ar ekki enn hlotið af­greiðslu.

Jöfn tæki­færi barna

Það er rétt­læt­is­mál að tryggja jöfn op­in­ber fram­lög með hverju barni í skóla­kerf­inu, óháð rekstr­ar­formi þess skóla sem barni er valið. Þannig kæm­ust sjálf­stætt starf­andi skól­ar hjá inn­heimtu skóla­gjalda – og þannig mætti tryggja öll­um börn­um jöfn tæki­færi til þeirr­ar mennt­un­ar sem býðst í Reykja­vík, því efna­hag­ur for­eldra yrði ekki leng­ur ákv­arðandi for­senda við skóla­val. Eft­ir hverju erum við að bíða?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2024.