Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að hafist verði handa við skipulagningu nýs íbúðarhverfis við Halla og í Hamrahlíðarlöndum í Úlfarsárdal, þ.e. á svonefndum M22-reit. Stefnt verði að að því úthlutun lóða á svæðinu hefjist árið 2026.
Undirritaður mælti fyrir tillögu Sjálfstæðisflokksins um málið á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag. Tillagan hlaut góðar viðtökur og var vísað til átakshóps um húsnæðisuppbyggingu í borginni með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.
Óviðunandi tafir hafa orðið á uppbyggingu í Úlfarsárdal, eins og íbúar þar hafa margoft bent á. Vonandi verður nú endi bundinn á þessar tafir og verkin látin tala.
Lóðaframboð verður að auka
Mikill skortur er á íbúðarhúsnæði í Reykjavík, sem kallar á að allar leiðir séu skoðaðar til að auka framboð lóða undir íbúðarhúsnæði. Reykjavíkurborg á mikið land, sem auðvelt er að skipuleggja og breyta í lóðir með skömmum fyrirvara. Borgin getur því brugðist myndarlega við hinu erfiða ástandi sem ríkir á húsnæðismarkaði, og á að gera það. Stóraukið framboð lóða fyrir íbúðarhúsnæði yrði því mikilvægt framlag Reykjavíkurborgar til lausnar húsnæðisvandans.
Gott byggingarland
Úlfarsárdalur er ákjósanlegur að þessu leyti. Þar er enn mikið af ónumdu og vel staðsettu landi, sem hentar vel til uppbyggingar. Uppbygging á umræddu svæði er auðveldasta leiðin til að auka lóðaframboð í Reykjavík svo um muni. Æskilegt væri að nota tækifærið til að lækka húsnæðiskostnað með því að selja lóðirnar á hagstæðu verði, sem kæmi fjölmörgum fjölskyldum til góða.
Í skipulagsvinnu Halla og Hamrahlíðarlanda er hægt að byggja á samþykktu deiliskipulagi frá árinu 2007, sem þarf þó að endurskoða og betrumbæta.
Úlfarsárdalur er í um 55-80 metra hæð yfir sjávarmáli, sem er svipað og í Neðra-Breiðholti. Útsýni er gott víðast hvar úr dalnum og hann er auk þess umlukinn góðum útivistarsvæðum. Í hverfinu eru margir innviðir þegar til staðar, sem nýtast munu hinni nýju byggð: íþróttahús, sundlaug, bókasafn o.s.frv.
3-4 þúsund manna hverfi
Með góðu móti er unnt að byggja 3-4 þúsund manna íbúðarbyggð á áðurnefndu skipulagssvæði. Nú búa um 5.500 íbúar í Grafarholti og 3.000 í Úlfarsárdal og verður því um verulega viðbót við hverfishlutann að ræða. Upphaflega var þó gert ráð fyrir að hverfið í Úlfarsárdal yrði miklu fjölmennara. Mjög hefur verið kallað eftir því af íbúum að staðið verði við fyrri fyrirheit um íbúafjölda og uppbygging haldi áfram í því skyni að efla verslun og þjónustu í hverfinu. Þá hefur hverfisíþróttafélagið Fram bent á að Grafhyltingar og Úlfdælingar þurfi helst að vera um 15 þúsund talsins ef tryggja eigi blómlegt íþróttastarf á svæðinu til framtíðar.
Margvíslegur ávinningur
Aukin íbúðarbyggð í Úlfarsárdal mun því hafa margvíslegan ávinning í för með sér. Stækkun hverfisins mun efla verslun, íþróttastarf og aðra þjónustu í Grafarholti og Úlfarsárdal. Komið verður til móts við mikla húsnæðisþörf í borginni og margar fjölskyldur fá þak yfir höfuðið. Með auknu lóðaframboði gefst jafnframt tækifæri til að stuðla að lækkun húsnæðisverðs.
Síðast en ekki síst mun fjölgun íbúa auka útsvarstekjur og styrkja þannig stöðu borgarsjóðs til framtíðar, sem ekki veitir af.