Skýr skilaboð án hroka og yfirgangs

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Fyrri hluti sjöttu hring­ferðar þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins er að baki. Árlegt ferðalag er orðið ómiss­andi hluti af starfi þing­flokks­ins. Göm­ul vina­bönd eru treyst og ný hnýtt. Hrein­skipt­in sam­töl við bænd­ur, at­vinnu­rek­end­ur og launa­fólk staðfesta til hvers er bar­ist á hinu póli­tíska sviði. Um leið fá þing­menn betri skiln­ing á mik­il­væg­um hags­muna­mál­um sem sum hver eru staðbund­in. Kjós­end­ur fá tæki­færi til að koma skoðunum sín­um á fram­færi, beint og milliliðalaust, við ráðherra og þing­menn. Eins og oft­ast áður eru skila­boðin skýr, án hroka eða yf­ir­gangs, en það er ætl­ast til að á þau sé hlustað og brugðist við.

Í flestu rík­ir bjart­sýni um framtíðina um allt land. Tæki­fær­in eru svo sann­ar­lega til staðar og dugnaðarforkar eru til­bún­ir að láta hend­ur standa fram úr erm­um til að skapa ný störf, styrkja heima­byggðina og styrkja stoðir vel­ferðar. En það eru á stund­um ljón í veg­in­um. Skort­ur á orku er áhyggju­efni og get­ur hamlað at­vinnu­upp­bygg­ingu. Innviðir, ekki síst lé­leg­ar sam­göng­ur, draga úr sam­keppn­is­hæfni lands­byggðar og auka kostnað fyr­ir­tækja og launa­fólks.

Það er ætl­ast til þess að lög­gjaf­inn og stjórn­ar­ráðið for­gangsraði verk­efn­um og flæki ekki þau sem eru í eðli sínu ein­föld. Upp­bygg­ing dreifi­kerf­is raf­magns er í sjálfu sér ein­föld. Skyn­sam­leg nýt­ing orku­auðlinda þarf ekki að vera flók­in, ekki frek­ar en upp­bygg­ing sam­göngu­mann­virkja. En lög­gjaf­inn og rík­is­stofn­an­ir virðast frem­ur vilja gera þá hluti sem eru ein­fald­ir eins flókna og hægt er. Í stað þess að ryðja braut fram­fara eru all­ir stein­ar tínd­ir til og lagðir í götu fram­taks­fólks. Kostnaðinn ber al­menn­ing­ur um allt land í formi lak­ari lífs­kjara en ella og fá­tæk­ari tæki­færa.

Það þarf ekki að eiga löng sam­töl við dug­mikið fólk um allt land til að skilja hvers vegna því er haldið fram að skri­fræðið hafi auk­ist. Kraf­an um að minnka báknið og ein­falda stjórn­sýslu er há­vær og studd sterk­um rök­um.

Birt­ing­ar­mynd kerf­is­ins er marg­breyti­leg. Rík­is­stofn­un ásæl­ist land bænda á Suður­landi. Svo virðist sem ekki sé hlustað á nein rök og litlu skipt­ir þótt land­ar­eign­in sé þing­lýst eign hjóna sem stunda bú­skap af dugnaði. Kerfið gegn ein­stak­lingn­um. Eng­an skal undra þegar lands­byggðarfólk, ekki síst bænd­ur, fyll­ist áhyggj­um þegar ráðherra kynn­ir drög að reglu­gerð um sjálf­bæra land­nýt­ingu. Reglu­gerðin er bein árás á eign­ar- og nýt­ing­ar­rétt ein­stak­linga. Dæmi um hvernig kerfið hef­ur slitið tengsl við raun­heima og hef­ur í besta falli tak­markaðan skiln­ing á stjórn­ar­skrár­vörðum rétt­ind­um.

Og ekki fær kerfið háa ein­kunn fyr­ir að fara vel með fjár­muni. Þannig er dæmi um að fer­metra­verð á sal­ern­isaðstöðu í þjóðgarði sé yfir ein millj­ón króna. Dæm­in eru fleiri og sum verri.

Bíl­flaut­ur þeytt­ar

Rút­an okk­ar sjálf­stæðismanna var sér­stak­lega merkt „Hring­ferðin 2024“ og að aft­an var sér­stök hvatn­ing til bíl­stjóra að flauta hefðu þeir áhuga á því að lækka skatta. Og það var flautað. Skila­boðin skýr. Um allt land er kallað eft­ir að hóf­semd­ar sé gætt í skatt­lagn­ingu.

Eng­inn ann­ar stjórn­mála­flokk­ur en Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur haft það á stefnu­skrá sinni að lækka skatta og staðið við gef­in fyr­ir­heit. Flest­ir aðrir eru skatt­heimtu­flokk­ar sem mega ekki sjá hreyf­ingu án þess að skatt­leggja hana. Jafn­vel vind­ur­inn skal skattlagður. Þeir sem vilja gæta hóf­semd­ar og lækka skatta eru sakaðir um að veikja tekju­stofna rík­is­ins – vilja ekki full­nýta tekju­mögu­leika rík­is­ins held­ur af­sala rík­inu tekj­um.

Að und­an­skild­um nokkr­um mánuðum hef­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn leitt rík­is­fjár­mál­in frá ár­inu 2013. Í ít­ar­legu svari fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins við skrif­legri fyr­ir­spurn um breyt­ing­ar á skött­um og gjöld­um frá 2013 til 2023 kem­ur fram að alls hafi skatt­ar verið hækkaðir 28 sinn­um en 63 sinn­um lækkaðir. Þá eru skatta­leg­ar mót­vægisaðgerðir vegna covid-far­ald­urs ekki tald­ar með, enda tíma­bundn­ar. Það var mat ráðuneyt­is­ins að skatt­ar yrðu um 85 millj­örðum króna lægri á síðasta ári en þeir hefðu orðið ef eng­ar breyt­ing­ar hefðu verið gerðar frá tíma vinstri­stjórn­ar­inn­ar 2009 til 2013.

Fyr­ir launa­fólk hafa viðamikl­ar breyt­ing­ar á tekju­skatt­s­kerf­inu skipt mestu. Alls greiddu ein­stak­ling­ar um 333 millj­örðum króna lægri fjár­hæð í tekju­skatt á ell­efu ára tíma­bili (2013-2023) en þeir hefðu greitt ef skatt­hlut­föll og skatta­regl­ur hefðu verið óbreytt­ar frá vinstri­stjórn­inni.

Al­menn vöru­gjöld hafa verið felld niður og flest­ir toll­ar. Trygg­inga­gjald hef­ur lækkað veru­lega, erfðafjárskatt­ur lækkaður og þrátt fyr­ir hærra skatt­hlut­fall fjár­magn­s­tekju­skatts hafa flest­ir ein­stak­ling­ar notið létt­ari skatt­byrði með hressi­legri hækk­un frí­tekju­marks.

Í svari ráðuneyt­is­ins kem­ur fram að upp­söfnuð lækk­un skatta og gjalda sé um 760 millj­arðar króna á föstu verðlagi á um­ræddu tíma­bili. En á móti hafa ýms­ir skatt­ar verið hækkaðir, sam­tals um 451 millj­arð, og mun­ar þar mestu um banka­skatt­inn og breyt­ing­ar á virðis­auka­skatti. Upp­söfnuð nettó skatta­lækk­un nem­ur 310 millj­örðum. Hvorki meira né minna.

Þetta eru tölu­leg­ar staðreynd­ir. Og þrátt fyr­ir að and­stæðing­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins reyni að halda öðru fram veit launa­fólk að eini stjórn­mála­flokk­ur­inn sem hef­ur burði og hug­mynda­fræðileg­an styrk til að létta byrðar launa­fólks og fyr­ir­tækja er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn. Þess vegna létu bíl­stjór­ar vita af sér og flautuðu á eft­ir hring­ferðar­rút­unni okk­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2024.