Óli Björn Kárason alþingismaður:
Fyrri hluti sjöttu hringferðar þingmanna Sjálfstæðisflokksins er að baki. Árlegt ferðalag er orðið ómissandi hluti af starfi þingflokksins. Gömul vinabönd eru treyst og ný hnýtt. Hreinskiptin samtöl við bændur, atvinnurekendur og launafólk staðfesta til hvers er barist á hinu pólitíska sviði. Um leið fá þingmenn betri skilning á mikilvægum hagsmunamálum sem sum hver eru staðbundin. Kjósendur fá tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri, beint og milliliðalaust, við ráðherra og þingmenn. Eins og oftast áður eru skilaboðin skýr, án hroka eða yfirgangs, en það er ætlast til að á þau sé hlustað og brugðist við.
Í flestu ríkir bjartsýni um framtíðina um allt land. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar og dugnaðarforkar eru tilbúnir að láta hendur standa fram úr ermum til að skapa ný störf, styrkja heimabyggðina og styrkja stoðir velferðar. En það eru á stundum ljón í veginum. Skortur á orku er áhyggjuefni og getur hamlað atvinnuuppbyggingu. Innviðir, ekki síst lélegar samgöngur, draga úr samkeppnishæfni landsbyggðar og auka kostnað fyrirtækja og launafólks.
Það er ætlast til þess að löggjafinn og stjórnarráðið forgangsraði verkefnum og flæki ekki þau sem eru í eðli sínu einföld. Uppbygging dreifikerfis rafmagns er í sjálfu sér einföld. Skynsamleg nýting orkuauðlinda þarf ekki að vera flókin, ekki frekar en uppbygging samgöngumannvirkja. En löggjafinn og ríkisstofnanir virðast fremur vilja gera þá hluti sem eru einfaldir eins flókna og hægt er. Í stað þess að ryðja braut framfara eru allir steinar tíndir til og lagðir í götu framtaksfólks. Kostnaðinn ber almenningur um allt land í formi lakari lífskjara en ella og fátækari tækifæra.
Það þarf ekki að eiga löng samtöl við dugmikið fólk um allt land til að skilja hvers vegna því er haldið fram að skrifræðið hafi aukist. Krafan um að minnka báknið og einfalda stjórnsýslu er hávær og studd sterkum rökum.
Birtingarmynd kerfisins er margbreytileg. Ríkisstofnun ásælist land bænda á Suðurlandi. Svo virðist sem ekki sé hlustað á nein rök og litlu skiptir þótt landareignin sé þinglýst eign hjóna sem stunda búskap af dugnaði. Kerfið gegn einstaklingnum. Engan skal undra þegar landsbyggðarfólk, ekki síst bændur, fyllist áhyggjum þegar ráðherra kynnir drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu. Reglugerðin er bein árás á eignar- og nýtingarrétt einstaklinga. Dæmi um hvernig kerfið hefur slitið tengsl við raunheima og hefur í besta falli takmarkaðan skilning á stjórnarskrárvörðum réttindum.
Og ekki fær kerfið háa einkunn fyrir að fara vel með fjármuni. Þannig er dæmi um að fermetraverð á salernisaðstöðu í þjóðgarði sé yfir ein milljón króna. Dæmin eru fleiri og sum verri.
Bílflautur þeyttar
Rútan okkar sjálfstæðismanna var sérstaklega merkt „Hringferðin 2024“ og að aftan var sérstök hvatning til bílstjóra að flauta hefðu þeir áhuga á því að lækka skatta. Og það var flautað. Skilaboðin skýr. Um allt land er kallað eftir að hófsemdar sé gætt í skattlagningu.
Enginn annar stjórnmálaflokkur en Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft það á stefnuskrá sinni að lækka skatta og staðið við gefin fyrirheit. Flestir aðrir eru skattheimtuflokkar sem mega ekki sjá hreyfingu án þess að skattleggja hana. Jafnvel vindurinn skal skattlagður. Þeir sem vilja gæta hófsemdar og lækka skatta eru sakaðir um að veikja tekjustofna ríkisins – vilja ekki fullnýta tekjumöguleika ríkisins heldur afsala ríkinu tekjum.
Að undanskildum nokkrum mánuðum hefur Sjálfstæðisflokkurinn leitt ríkisfjármálin frá árinu 2013. Í ítarlegu svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við skriflegri fyrirspurn um breytingar á sköttum og gjöldum frá 2013 til 2023 kemur fram að alls hafi skattar verið hækkaðir 28 sinnum en 63 sinnum lækkaðir. Þá eru skattalegar mótvægisaðgerðir vegna covid-faraldurs ekki taldar með, enda tímabundnar. Það var mat ráðuneytisins að skattar yrðu um 85 milljörðum króna lægri á síðasta ári en þeir hefðu orðið ef engar breytingar hefðu verið gerðar frá tíma vinstristjórnarinnar 2009 til 2013.
Fyrir launafólk hafa viðamiklar breytingar á tekjuskattskerfinu skipt mestu. Alls greiddu einstaklingar um 333 milljörðum króna lægri fjárhæð í tekjuskatt á ellefu ára tímabili (2013-2023) en þeir hefðu greitt ef skatthlutföll og skattareglur hefðu verið óbreyttar frá vinstristjórninni.
Almenn vörugjöld hafa verið felld niður og flestir tollar. Tryggingagjald hefur lækkað verulega, erfðafjárskattur lækkaður og þrátt fyrir hærra skatthlutfall fjármagnstekjuskatts hafa flestir einstaklingar notið léttari skattbyrði með hressilegri hækkun frítekjumarks.
Í svari ráðuneytisins kemur fram að uppsöfnuð lækkun skatta og gjalda sé um 760 milljarðar króna á föstu verðlagi á umræddu tímabili. En á móti hafa ýmsir skattar verið hækkaðir, samtals um 451 milljarð, og munar þar mestu um bankaskattinn og breytingar á virðisaukaskatti. Uppsöfnuð nettó skattalækkun nemur 310 milljörðum. Hvorki meira né minna.
Þetta eru tölulegar staðreyndir. Og þrátt fyrir að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyni að halda öðru fram veit launafólk að eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur burði og hugmyndafræðilegan styrk til að létta byrðar launafólks og fyrirtækja er Sjálfstæðisflokkurinn. Þess vegna létu bílstjórar vita af sér og flautuðu á eftir hringferðarrútunni okkar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2024.