Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Hagvöxtur ársins 2022 var 8,9% og hefur ekki mælst hærri á einu ári í ríflega hálfa öld. Svo hraðan viðsnúning eftir niðursveiflu heimsfaraldurs sá enginn fyrir en framtakssamt fólk og aðgerðir stjórnvalda gerðu hagkerfinu kleift að ná sér á undraverðum hraða. Eftir þessa kröftugu uppsveiflu hafa teiknast upp skýrari vísbendingar um að það hægi hratt á hagkerfinu. Hagvöxtur á síðasta ársfjórðungi 2023 var einungis 0,6% sem er nokkuð fyrirsjáanleg aðlögun eftir kröftuga uppsveiflu. Verðbólga er enn of mikil, þó horfur séu á að hún fari áfram lækkandi og enginn vill búa við 9,25% stýrivexti til lengdar. Útlit er fyrir að sá litli vöxtur í hagkerfinu sem tölur síðasta ársfjórðungs endurspegla verði viðvarandi á næstunni. Seðlabankinn spáir 1,9% hagvexti á þessu ári og hafa aðrar spár verið færðar niður á við. Þetta er áskorun en þarf ekki að koma á óvart enda hefur hagvöxtur síðustu misseri fyrst og fremst verið aðlögun að eðlilegri framleiðslugetu.
Breytt staða ríkisfjármála
Þessi staða setur ríkisfjármálum þröngar skorður. Síðustu ár hafa tekjur aukist mjög hratt samhliða miklum vexti og hafa skuldahlutföll lækkað hratt eftir heimsfaraldur. Þrýstingur á ríkissjóð hefur hins vegar aukist, meðal annars í tengslum við aðgerðir vegna kjarasamninga sem ríkisstjórnin setur í forgang. Þá fer kostnaður vegna jarðhræringa á Reykjanesi enn vaxandi og sá nýi veruleiki minnir okkur á í hvaða landi við búum og hvers vegna við þurfum að sýna aðhald til þess að eiga efni á að leysa alvöru vandamál þegar þau koma upp. Við komumst ekki hjá því að sníða okkur stakk eftir vexti.
Sum vilja mæta þessari stöðu með því að taka meira af einstaklingum og fyrirtækjum og ráðast í ný útgjöld. Slíkt er kynnt með þeim formerkjum að um sé að ræða skatta á banka, fjármagn, hvalreka eða annað en jafnvel þó það væri skynsamlegt að ráðast í slíka skattheimtu (sem það er ekki) dugar það ekki til gagnvart þeim áskorunum sem blasa við. Slík orðræða horfir að auki fram hjá því að ef leiðrétt er fyrir einstakri sjóðsöfnun íslenska lífeyriskerfisins eru ríkisútgjöld hér á landi með því hæsta sem gerist meðal þróaðra ríkja. Ef önnur velmegunarríki geta búið við minni ríkisumsvif þá getum við það líka.
Breytt staða í Evrópu
Framlög okkar til varnarmála eru skammarlega lág eða tæplega 0,1% af landsframleiðslu á meðan þau ríki sem við viljum bera okkur saman við verja 1% eða meira og viðmið Atlantshafsbandalagsins er að verja 2% árlega. Eystrasaltsríkin og Pólland til að mynda verja um 3% af landsframleiðslu. Sá veruleiki endurspeglar hversu mikið þau vilja verja frelsið sem þau lifa við, ekki hversu mikið þau vilja stríð. Þau samfélög í Evrópu sem síðast fengu frelsi sitt til baka átta sig á því að þau verða þau fyrstu til að missa það ef Pútín og hans félagar komast upp með ólöglega innrás í nágrannaríki enda liggur fyrir að hann mun ekki stoppa þar. Í okkar tilviki eru útgjöldin auðvitað mun lægri en meðal þjóða sem halda úti herjum, en það ætti engu að síður að vera metnaðarmál okkar að finna leiðir til þess að leggja meira af mörkum til sameiginlegra varna. Það er líka ágætt að við minnum okkur öðru hverju á að þrátt fyrir allt er Ísland ekki að borga mikið fyrir landvarnir, þróunaraðstoð og rekstur utanríkisþjónustu; þau svið sem undirstrika gagnvart umheiminum að við séum sjálfstæð og fullvalda þjóð meðal þjóða.
Hagkvæmni og bætt þjónusta
Verkefnin sem við viljum að ríkið sinni betur eru mörg en það mun aðeins takast með aukinni hagkvæmni og því að hætta verkefnum sem eru óþörf eða aðrir geta sinnt. Samkvæmt fjárlögum eru útgjöld ríkissjóðs 1.407 milljarðar króna í ár og þá fjárhæð getum við nýtt betur. Það ætti ekki að vera umdeilt markmið að ríkisrekstur sé eins hagkvæmur og mögulegt er og gæði rekstrar séu sem mest. Með öðrum orðum að verkkaupi, þ.e. almenningur, fái sem besta vöru eða þjónustu. Með betri nýtingu fjármuna munum við stuðla að áframhaldandi bata í afkomu ríkissjóðs á næstu árum og styðja við verðstöðugleika og hóflega vaxtastigið sem við öll viljum búa við.
Skýr skilaboð almennings
Það er eftirspurn eftir því að stjórnmálamenn sýni í verki aðhald, einfaldi umhverfi ríkisins og fari betur með fjármuni almennings. Á hringferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins á dögunum stóð upp úr einlægur og eindreginn vilji til þess að einfalda ríkisreksturinn og regluverk, auka skilvirkni og flækjast minna fyrir framtakssömu fólki. Íslendingar vilja og þurfa rými til athafna á sama tíma og ríkið sinnir grunnþjónustu vel. Skilaboð fólks, hringinn í kringum landið, eru mér og okkur hvatning til að gera betur og mæta þessum stóru áskorunum af festu.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 3. mars 2024.