Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Þann 24. febrúar sl. voru tvö ár liðin frá allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu. Af því tilefni ferðuðumst við formenn utanríkismálanefnda í Evrópu og Kanada til Úkraínu. Tilgangur ferðarinnar var að sýna samstöðu með fullvalda lýðræðisþjóð sem berst af öllum mætti gegn ólögmætri innrás ríkis sem ber enga virðingu fyrir alþjóðalögum.
Úkraínumenn voru duglegir að minna okkur gestina á að þeir hefðu verið tíu ár í stríði, enda hefði Rússland ráðist inn í og hernumið land í Úkraínu árið 2014. Við funduðum með þingmönnum, embættismönnum og ráðherrum og tókum þátt í tilfinningaþrunginni athöfn í úkraínska þinginu vegna tímamótanna. Þar var ekki annað hægt en að tárast með úkraínskum kollegum. Um kvöldið sofnuðum við út frá háværum tilkynningum um loftárásir í nágrenni Kænugarðs. Það er skringileg tilfinning fyrir íbúa friðsælasta lands heims.
Við hittum samtök sem berjast fyrir vernd og endurheimt úkraínskra barna sem hafa verið numin á brott af Rússum og þeim komið fyrir í Rússlandi. Yfir 20 þúsund slík tilfelli eru skráð, en börnin eru falin og heilaþvegin í því skyni að reyna að afmá úkraínskan uppruna þeirra. Slíkar aðferðir eru vel þekktar frá tímum Sovétríkjanna – Rússar hafa engu gleymt við myrkraverkin.
Við heimsóttum sömuleiðis endurhæfingarmiðstöð fyrir úkraínska hermenn. Heimsóknin hafði djúpstæð áhrif á hópinn, en við heilsuðum upp á hermenn sem voru alvarlega brenndir, vitsmunaskertir vegna höfuðáverka og sem höfðu misst ýmsa útlimi. Þeir voru komnir mislangt í bataferlinu og einhverjir báðust undan samtali og voru augljóslega í áfalli. Aðrir höfðu endurheimt styrk og baráttuþrek og göntuðust við hópinn. Úkraínskur andi er sannarlega einstakt fyrirbrigði. Á aðaltorgi Kænugarðs, Maidan, hafa ættingjar fallinna hermanna komið fyrir þúsundum fána og mynda í minningu þeirra. Selenskí forseti Úkraínu hefur upplýst að 31 þúsund úkraínskir hermenn hafi látist við að verja landið á undanförnum tveimur árum. Margfalt fleiri hafa særst.
Hvað skyldu síðan Úkraínumenn hafa sagt við þingmannahópinn, allir sem einn? Þingmenn, embættismenn og ráðherrar. Fólk sem hefur bjargað hundruðum úkraínskra barna úr klóm Rússa. Hermenn sem hafa misst báða fætur, hönd, fingur. Sem hafa kvalist, brunnið og kalið. Úkraínumenn sem hafa misst nána fjölskyldumeðlimi, vini sína og heimili. Skilaboð þeirra allra til okkar voru: Takk! Takk fyrir að styðja við og gefast ekki upp á baráttu lýðræðisríkis fyrir grunnstoðum þess. Fyrir réttinum til að velja og haga sínum eigin örlögum. Við vorum grátbeðin um að halda stuðningnum áfram svo Úkraínumenn gætu varist þessum sameiginlega ógnvaldi við heimsmynd okkar.
Þegar hópurinn fór frá Úkraínu bárust okkur myndskilaboð frá hermanni í framlínunni. Auðvitað með þökkum fyrir veittan stuðning. Og hvatningu til að halda honum áfram svo Úkraína geti áfram barist fyrir okkar gildum. Svo okkar börn þurfi ekki að deyja í baráttunni fyrir áframhaldandi frjálsum heimi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. febrúar 2024.