Vaskt vaskaeftirlit hins opinbera

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Á dögunum birti Viðskiptablaðið viðtal við íslenskan atvinnurekanda sem sagði farir sínar ekki sléttar af innlendum eftirlitsaðilum. Hann sagði samskipti við þá vera fyrirferðarmikil í rekstrinum og gagnrýndi skort á samræmingu og fagmennsku í heilbrigðiseftirliti. Þetta er síður en svo í fyrsta sinn sem ég heyri gagnrýni á heilbrigðiseftirlit. Lýsingar sjálfstæðs atvinnurekenda á höfuðborgarsvæðinu sem gert var að setja upp 25 vaska á vinnustað eru endurómur af sovéskum grínþætti. Handfylli af starfsfólki starfar þar að jafnaði og þarf engan veginn að nota alla vaskana í starfsmannaaðstöðunni. Þegar eftirlitið gerir síðan athugun er vatnið látið renna til að sannreyna hitastigið og hvort vaskarnir séu ekki allir örugglega í notkun!

Gagnrýnin er ekki síst hávær á landsbyggðinni þar sem kvartanir snúa m.a. að ólíkri framkvæmd milli nálægra eftirlitssvæða. Aðrir hafa bent á að eftirlitsaðilar gangi oft hart fram gagnvart atvinnurekendum þegar matskennt svigrúm er til túlkunar. Ég hef því þegar lagt inn fyrirspurn á Alþingi til munnlegs svars umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um heilbrigðiseftirlit. Hún snýr að því hvort ráðherra telji regluverk varðandi eftirlitið vera of þungt í vöfum fyrir atvinnurekendur og hvort, og þá hvernig, hann hyggist bregðast við.

Það er mikilvægt að við höfum skýrt lagaumhverfi fyrir atvinnulífið að starfa eftir, en gætum að því að reglurnar íþyngi ekki um of. Sá meðalvegur er vandrataður, enda geta íþyngjandi reglur aukið kostnað og veikt samkeppnisstöðu atvinnulífsins verulega. Við viljum hafa öflugt eftirlit með atvinnulífinu, en eftirlitið verður að hvíla á skýrum lagagrundvelli. Framkvæmd eftirlits þarf sömuleiðis að ná þeim markmiðum sem stefnt er að.

Yfirstjórn eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum er hjá umhverfis-, orku og loftslagsráðherra og hjá matvælaráðuneytinu. Umhverfisstofnun og Matvælastofnun bera meginábyrgð á framkvæmd og samræmingu eftirlits, en dagleg framkvæmd er hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Því koma ellefu stofnanir á tveimur stjórnsýslustigum ríkis og sveitarfélaga að eftirlitinu sem er undir yfirstjórn tveggja ráðuneyta og ráðherra.

Í lok síðasta árs skilaði starfshópur á vegum umhverfis-, orku og loftslagsráðherra skýrslu um framkvæmd eftirlitsins. Niðurstaðan var í stuttu máli sú að þörf væri á gagngerum breytingum á eftirlitinu. Ósamræmi í framkvæmd væri mikið, stjórnsýsla flókin og yfirsýn skorti. Fyrirkomulagið hefði því neikvæð áhrif á atvinnulíf og þar með samkeppnishæfni Íslands. Hægt væri að einfalda kerfið verulega og tryggja þar með betri þjónustu og minni kostnað.

Við Íslendingar virðumst stundum eiga heimsmet í „samviskusemi“. Við innleiðum ESB-regluverk með því að þyngja þær kröfur sem við mögulega getum – blýhúðum reglurnar. Við setjum atvinnulífinu mýmargar reglur. Þegar kappsamir embættismenn hafa eftirlit með framkvæmdinni er kíkirinn svo sannarlega ekki settur fyrir blinda augað.

Samkvæmt nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins hefur regluverk og eftirlit með starfsemi fyrirtækja innan þeirra raða aukist mikið á undanförnum árum. Það rímar vel við þær umkvartanir sem ég hef fengið um að regluverk og rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu sé að mörgu leyti alltof flókið. Eftirlit mikið, og kröfur til aðila með afmarkaðan og einfaldan rekstur óhóflegar. Það verður því fróðlegt að heyra svör við framangreindri fyrirspurn, svo og fyrirætlanir umhverfisráðherra. Við verðum að gæta okkur á því að kaffæra ekki rekstraraðila í óhóflegum kröfum og eftirliti. Afraksturinn af því gæti verið meira frelsi, minni sóun og meiri framleiðni.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 28. feberúar 2024