Ræddu baráttuna við báknið á Klaustri
'}}

Í gærkvöldi hélt þingflokkurinn á Kirkjubæjarklaustur þar sem boðið var til fundar í nýlega opnaðri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs. Sveinn Hreiðar Jensson, oddviti Sjálfstæðisflokksins á svæðinu, tók á móti þingflokknum og bauð gesti velkomna ásamt því að segja nokkur orð um helstu málin sem brenna á fólki. Þá gaf hann orðið á Pál Ólaf Pálsson frá Litlu heiði sem söng lagið Ég er kominn heim og hlaut góðar undirtektir í salnum.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi ávarpaði gesti áður en Jóhannes Gissurarson oddviti Skaftárhrepps fjallaði um þau mál sem eru í brennidepli í sveitarfélaginu. Þar vega samgöngumálin þungt en ekki síður ferðaþjónusta og heilbrigðismál. Að loknu máli Jóhannesar var farið stuttlega yfir baráttuna við báknið og furðulegum vinnubrögðum lýst sem því miður hafa fengið að viðgangast víða í kerfinu.

Hildur Sverrisdóttir lokaði fundinum og þakkaði fyrir höfðingjalegar móttökur og stórkostlegar veitingar áður en þingflokkurinn hélt áfram leið sinni á Vík í Mýrdal þar sem gist var á Hótel Kríu.