Berglind Ósk Guðmundsdóttir, alþingismaður:
Ákveðnar áskoranir felast í breyttri aldurssamsetningu og fjölgun íbúa á Íslandi. Að öllu óbreyttu má gera ráð fyrir að framlög til málaflokksins aukist verulega, sérstaklega ef vöxtur fjárframlaga til málaflokksins þróast með sama hætti og hann hefur gert undanfarin ár. Umræðan má ekki hverfast um að fjárframlögin séu aukin eingöngu aukningarinnar vegna heldur þarf að færa fyrir því rök, hvert hinir auknu fjármunir eigi að renna.
Til grundvallar þurfa að liggja mælanleg og aðgerðamiðuð markmið um bætta þjónustu við notendur þjónustunnar og aukna framleiðni heilbrigðiskerfisins í stað þess að einblína eingöngu á upphæð fjárframlaga úr ríkissjóði. Breytingar á heilbrigðiskerfinu sem leggja má til eru tvíþættar og miða að því að tryggja betri þjónustu til handa notendum heilbrigðiskerfisins, og jafnframt auka skilvirkni og hagkvæmni í veitingu þjónustunnar. Þessi atriði ættu að sjálfsögðu alltaf að vera sérstakt markmið heilbrigðiskerfisins og þeirra sem því stjórna.
Fyrra atriðið er hraðari innleiðing á tæknilausnum í heilbrigðiskerfinu og hið síðara að fela fleiri aðilum að sinna vel skilgreindum þjónustuþáttum í rekstri þess.
Koma að lokuðum dyrum
Innleiðing á tæknilausnum í opinbera heilbrigðiskerfinu er, því miður, í skötulíki. Hraðari innleiðing tæknilausna mun auka framleiðni í heilbrigðiskerfinu. Í því samhengi má, meðal annars, nefna tækifæri til að innleiða skilvirkara skráningarfyrirkomulag en sýnt hefur verið fram á að læknar eyða um 50-60% af vinnutíma sínum við skráningar fyrir framan tölvuskjá í stað þess að þjónusta sjúklinga.
Íslenski hugverkaiðnaðurinn er orðinn sterk stoð í íslensku efnahagslífi. Stjórnvöld styðja við frumkvöðla í formi styrkja og skattaívilnana en íslensk frumkvöðlafyrirtæki sem þróað hafa lausnir í heilbrigðisþjónustu eiga auðveldara með að komast inn með lausnir sínar í heilbrigðiskerfi annarra landa á sama tíma og þeim er hafnað hérlendis. Nýsköpunarfyrirtæki í heilbrigðisgeiranum hafa ítrekað lýst því hvernig þau mæta lokuðum dyrum hjá heilbrigðisstjórnvöldum. Smæð okkar ætti í raun að auðvelda breytingar en ekki torvelda þær. Við getum gert svo margfalt betur hér.
Einkareksturinn gefst vel
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur gefist sérlega vel. Þjónustukannanir undanfarinna ára, sem Sjúkratryggingar hafa framkvæmt meðal notenda heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu, sýna að einkareknar heilsugæslustöðvar njóti ríkulegs trausts meðal notenda og mælist ánægja þeirra með þjónustuna mikil. Vegna þessa hef ég lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu þess efnis að heilbrigðisráðherra feli Sjúkratryggingum að bjóða út rekstur annarrar heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, þannig mætti auka valfrelsi notenda heilsugæsluþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.
Ef við bregðumst ekki við biðlistavanda í heilbrigðiskerfinu, sem einskorðast ekki við bið eftir liðskiptaaðgerðum eða bið eftir heimilislæknatíma, blasir við okkur að hér verður tvöfalt heilbrigðiskerfi sem mismunar fólki eftir fjárhag. Þannig kerfi eigum við ekki að byggja upp.
Það sem við viljum er heilbrigðiskerfi sem virkar. Hluti lausnarinnar er að létta á álagi á Landspítalanum, til dæmis með því að bjóða út þjónustu sem ekki þarf nauðsynlega að sinna innan háskólasjúkrahússins, og einkaaðilar eru færir um að veita.
Markmið um jafnt aðgengi
Vandi heilbrigðiskerfisins er fjölþættur og mun hraðari innleiðing tæknilausna og frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu nýtast sem leiðir til þess að ná markmiði um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu ásamt því að auka skilvirkni og hagkvæmni.
Þá munu fjölbreyttari rekstrarform auka fjölbreytni í starfsumhverfi og starfstækifærum heilbrigðisfagstétta og laða að sér mannafla. En til mikils er að vinna að víða um land séu spennandi atvinnutækifæri á fjölbreyttum vinnustöðum til að laða aftur heim íslenskt heilbrigðisstarfsfólk sem starfar erlendis og þau sem ljúka námi sínu erlendis. Enn er aðgengi landsmanna að heilbrigðiskerfinu misskipt eftir búsetu og mun áhersla á tæknilausnir til að veita fjarheilbrigðisþjónustu vera lykill í því að tryggja jafnt aðgengi að þjónustunni.