Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Núverandi oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn var borgarstjóri samfleytt frá vorinu 2014 til byrjunar þessa árs. Á þessu tímabili ruku langtímaskuldir A-hluta Reykjavíkurborgar upp en í árslok 2014 námu slíkar skuldir, sem hlutfall af eigin fé, 43,1%, en 30. september 2023 var sama hlutfall 148,9%.
Þessar tölur veita vísbendingar um langvarandi óráðsíðu í rekstri Reykjavíkurborgar. Úr mörgum dæmum er að velja til að varpa ljósi á þá óreiðu. Hér verður staldrað við nýlega uppbyggingu á torgum í miðborg Reykjavíkur.
Samhengi fjárfestinga í miðborgartorgum
Það kom fram í skýrslu um Braggamálið frá desember 2018, sem samin var af innri endurskoðun Reykjavíkurborgar, að fjárfestingar Reykjavíkurborgar hefðu aukist verulega frá árinu 2015 til ársloka 2018 (sjá Nauthólsvegur 100, bls. 21). Þessi þróun hefur haldið áfram til dagsins í dag, eins og ráða má af reglubundnum skýrslum borgarinnar um verkstöðu nýframkvæmda.
Þegar sveitarfélag ræðst í að breyta torgi eða byggja nýtt, þá liggur fyrir frá upphafi að slíkt útheimtir veruleg útgjöld á sama tíma og fjárfestingin muni skila litlum sem engum tekjum. Uppbygging torga í miðborg Reykjavíkur er sem sagt fegrunaraðgerð á borgarlandinu sem skilar borgarsjóði ekki beinum tekjum.
Líta verður einnig til þess að hefðbundið er, þegar farið er í torgframkvæmdir af þessu tagi, að samhliða þurfi að endurnýja lagnir. Sá kostnaður er falinn í bókhaldi A-hluta borgarsjóðs þar eð hann lendir á Veitum ohf., sem er að langmestu leyti í eigu Reykjavíkurborgar.
En hver er kostnaðurinn af uppbyggingu torga í miðborg Reykjavíkur? Skoðum málið nánar.
Þingholt Torgin þrjú
Farið var af stað með verkefnið „Þingholt Torgin þrjú“ (verknúmer 30510) árið 2017. Eitt þessara torga var Óðinstorg. Um þá tilteknu framkvæmd spratt ágreiningur á kjörtímabilinu 2018-2022, meðal annars gagnrýndi þáverandi borgarfulltrúi Miðflokksins kostnaðinn af framkvæmdinni.
Aðalatriðið hér er að heildarkostnaður reykvískra skattgreiðenda vegna framkvæmdanna við torgin þrjú í Þingholtunum, á verðlagi hvers tíma, varð 657 milljónir króna. Eru þá meðtalin útgjöld Veitna ohf.
Torgið á mótum Pósthússtrætis og Tryggvagötu
Árið 2017 var hafist handa við að undirbúa torg á mótum Pósthússtrætis og Tryggvagötu (verknúmer 30526). Mælt á verðlagi hvers tíma kostaði sú framkvæmd A-hluta borgarsjóðs 689 milljónir króna. Ekki liggur fyrir hver hafi verið útgjöld Veitna ohf. vegna þessarar framkvæmdar.
Þetta torg komst í þjóðfélagsumræðuna fyrir skömmu vegna þess að Tómas A. Tómasson alþingismaður lýsti þeirri skoðun sinni á samfélagsmiðlinum X að torgið væri illa lukkað og betra hefði verið að halda í bílastæðin við Tollhúsið við Tryggvagötu.
Hlemmur torg
Árið 2017 hófst vinna við að undirbúa framkvæmdir á Hlemmur torg (verknúmer 30522). Framkvæmdir við það verkefni standa enn yfir. Fram til ársloka 2022 nam kostnaðurinn við þetta verkefni, mælt á verðlagi hvers tíma, 266 milljónum króna. Fyrir árið 2023 var áætlað að útgjöld vegna þessa næmu 600 milljónum króna og svo aftur 600 milljónum króna í ár. Kostnaður skattgreiðenda af þessu verkefni í lok þessa árs verður því væntanlega kominn upp í tæpar 1.500 milljónir króna. Þessi tala miðast við verðlag hvers árs og er því ekki núvirt, eins og réttast væri að gera.
Ekki liggur fyrir hvaða kostnað Veitur ohf. hafa borið vegna þessarar framkvæmdar.
Kostnaðarsöm gæluverkefni
Þau torg sem hér hafa verið nefnd eru ekki tæmandi upptalning á þeim framkvæmdum sem kenna má við nýlega uppbyggingu torga í miðborg Reykjavíkur. Þegar litið er til fyrirliggjandi talnaefnis er ljóst að þessi verkefni hafa kostað reykvíska skattgreiðendur verulega fjárhæðir, marga milljarða króna, talið á gildandi verðlagi.
Ekkert lát virðist vera á framkvæmdum af þessum toga, sem dæmi var ákveðið fyrir skömmu að ýta verkefninu „Vistgötur og göngusvæði í Kvos“ í enn frekari hönnunarþóun og áfram stendur til að umbreyta Lækjartorgi.
Á meðan svona gæluverkefnum er sinnt í miðborg Reykjavíkur skortir víða fjármagn til að Reykjavíkurborg geti sinnt grunnþjónustuhlutverki sínu með sóma. Þessu til viðbótar er skuldastabbi borgarinnar svo hár að lausafjárstaða A-hluta borgarinnar er háð því að borgin slái lán á háum vöxtum og hirði reglulega mikinn arð af rekstri B-hluta fyrirtækja.
Það er nauðsynlegt að vinda ofan af þessari óráðsíu. Samhliða þarf að breyta þeirri brengluðu forgangsröð sem er of einkennandi fyrir rekstur borgarinnar.