Í Árskógarskóla var vel tekið á móti þingflokknum og boðið upp á góðar veitingar með kaffinu að hætti heimamanna í troðfullum sal. Freyr Antonsson, oddviti sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu, fór yfir helstu áskoranir og áform byggðarinnar og er ljóst að um sterkt og vel rekið sveitarfélag er að ræða. Áform eru m.a. um 5MW virkjun og lagningu Dalvíkurlínu 2. Þá er vöxtur í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu auk þess sem nýlega er búið að samþykkja uppbyggingu seiðaeldis í Hauganesi svo dæmi séu tekin um mikil sóknarfæri á svæðinu.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir alþingismaður sagði nokkur orð um þau verkefni sem hafa verið á döfinni í þinginu þessa dagana og fór yfir tækifærin á svæðinu og víðar. Á borðum og um húsið allt var að heyra hreinskiptin samtöl þar sem margt kom upp. Kjarasamningar og efnahagsmál, útlendingamál og málefni skólastiga voru rædd til viðbótar við þau sem Freyr hafði nefnt í upphafi fundar.
Að lokum þakkaði Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður, fyrir móttökurnar og gaf orðið á Njál Trausta Friðbertsson oddvita Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi sem fór yfir verkefnin fram undan hérlendis sem erlendis.
Næst fer þingflokkurinn til Akureyrar á opinn fund áður en haldið er í heimboð á svæðinu.