Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Hinn 24. febrúar verður öld liðin frá stofnun Íhaldsflokksins, fyrsta eiginlega hægri flokksins á Íslandi. Hollt er að minnast hugsjóna flokksins á aldarafmælinu. Íhaldsflokkurinn aðhylltist frjálslyndi í ríkum mæli og var mikilvægur áfangi að myndun borgaralegs fjöldaflokks, Sjálfstæðisflokksins, árið 1929.
Tuttugu alþingismenn stóðu að stofnun Íhaldsflokksins árið 1924, sem í kosningunum 1923 höfðu átt aðild að Borgaraflokknum, kosningabandalagi borgaralegra afla. Markmiðið með stofnun Íhaldsflokksins var að fylkja þessum öflum saman í einn skipulagðan flokk.
Jón Þorláksson, verkfræðingur og alþingismaður, var formaður Íhaldsflokksins og síðan fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1929-1934.
Frjálslyndi gegn sósíalisma
Íhaldsflokkurinn var stofnaður til mótvægis við Framsóknarflokkinn og Alþýðuflokkinn, sem starfað höfðu frá 1916, en þeir aðhylltust víðtæk opinber afskipti. Sósíalistar voru í mikilli sókn víða um heim um þessar mundir. Þeir vildu gerbreyta þjóðskipulaginu, færa atvinnurekstur úr höndum einstaklinga yfir til hins opinbera, skerða athafnafrelsi og jafnvel afnema einkaeignarrétt.
Stofnendur Íhaldsflokksins litu svo á að hlutverk flokksins væri að berjast gegn sósíalismanum. Halda ætti í það frelsi sem landsmenn höfðu fengið í stað þess að ganga stjórnlyndi og miðstýringu á hönd.
Íhaldsflokkurinn myndaði ríkisstjórn í mars 1924, nokkrum vikum eftir stofnun flokksins. Ríkisstjórnin sat í þrjú ár og notaði þann tíma til að koma böndum á fjárhag ríkissjóðs, sem verið hafði í megnasta ólestri eftir mikla eyðslu og skuldasöfnun um árabil. Skuldir voru lækkaðar og ríkisafskipti minnkuð. Mikil áhersla var lögð á eflingu atvinnuveganna, afléttingu hafta og að leggja niður óþarfar opinberar stofnanir.
Framfarasinnaðir frumkvöðlar
Árið 1929 runnu Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn saman undir nafni Sjálfstæðisflokksins. Þar með voru borgaraleg öfl loks sameinuð í einn fjöldaflokk, sem hefur æ síðan verið burðarás íslenskra stjórnmála.
Samkvæmt skilgreiningu Jóns Þorlákssonar er frjálslyndi vöntun á tilhneigingu til að gerast forráðamaður annarra. Af skrifum Jóns sést að hann taldi íhaldsstefnuna eiga að viðhalda festu í fjármálum og verja (halda í) fengið frjálslyndi gegn hinum stjórnlynda sósíalisma.
Andstæðingar Íhaldsflokksins notuðu nafngiftina til árása á flokkinn og sögðu heitið bera með sér kyrrstöðu, ef ekki afturhald. Ekkert var fjær sanni. Margir stofnendur og helstu stuðningsmenn flokksins voru framfarasinnaðir frumkvöðlar. Á sama tíma og þeir studdu flokkinn stóðu þeir fyrir umbreytingu atvinnulífsins og stóraukinni verðmætasköpun með nýrri tækni og bættum vinnubrögðum.
Ýmsir flokksmenn voru þó ekki hrifnir af íhaldsnafninu og viðurkenndi Jón sjálfur að það hefði ókosti í för með sér. Það væri fremur ófullkomin þýðing á orðinu „konservativ“ og ætti orðið „varðveislustefna“ e.t.v. betur við.
Eiga hugsjónirnar enn erindi?
Mörg sjónarmið, sem lágu að baki stofnun Íhaldsflokksins fyrir hundrað árum, eiga enn erindi. Nærtækast er að líta til stöðu opinberra fjármála. Ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum halla í fimm ár og Reykjavíkurborg mun lengur. Brýnt er að snúa af braut skuldasöfnunar og gera opinber fjármál sjálfbær að nýju.
Athafnafrelsi einstaklinga og atvinnufyrirtækja eru settar víðtækar skorður með ýmsum höftum og reglugerðum. Þá mælist skattheimta hér ein hin mesta í heimi. Draga þarf úr skattbyrði og reglugerðafargani með frjálslyndi að leiðarljósi.
Með stofnun Íhaldsflokksins og síðan Sjálfstæðisflokksins tókst að sameina krafta frjálslyndra hægri manna í sterkum og samstæðum flokki. Sú samvinna varð til mikillar gæfu, leiddi af sér festu í stjórnarfari og miklar framfarir í þjóðlífi.
Með fjölgun stjórnmálaflokka á undanförnum árum hefur hins vegar dregið úr stjórnfestu, sem er varhugaverð þróun. Eftir því sem flokkum fjölgar á þingi og í sveitarstjórnum má búast við aukinni upplausn og veikara stjórnarfari.
Að þessu leyti má einnig horfa aftur til þess tíma þegar borgaralega sinnuð öfl báru gæfu til að standa sameinuð í einum flokki.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2024.