Húsfyllir á fundi í Reykjanesbæ um útlendingamál

Húsfyllir var á opnum fundi í Reykjanesbæ í gærkvöldi um áskoranir í útlendingamálum þar sem frummælendur voru Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Bryndís Haraldsdóttir formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

Á fundinum var rætt um stöðu mála varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd og um þær tillögur sem liggja fyrir Alþingi um lagabreytingar til að ná enn frekar utan um málaflokkinn. Rætt var um þróun mála á síðustu árum og það álag sem það hefur skapað á samfélagið og á opinbera kerfið sem heldur utan um málaflokkinn ásamt þeim gríðarlega kostnaðarauka sem sú staða hefur skapað ríkissjóði. Sú þróun hefur sett Ísland meðal þeirra ríkja á Norðurlöndunum þar sem flestar umsóknir berast um alþjóðlega vernd miðað við höfðatölu.