Óli Björn Kárason alþingismaður:
Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, steig fast til jarðar í viðtali við Þórarin Hjartarson í hlaðvarpsþættinum Ein pæling, fyrir nokkrum dögum. Þar tók hún í raun undir málflutning Sjálfstæðismanna um að samræma yrði löggjöf og regluverk um hælisleitendur við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.
Ekki er ólíklegt að Kristrún hafi sótt ráðgjöf í útlendingamálum til Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og forystukonu danskra jafnaðarmanna. Mette kollvarpaði stefnu jafnaðarmanna í útlendingamálum enda Danir komnir í öngstræti með tilheyrandi vandamálum. Forveri Kristrúnar í formannsstóli var hins vegar ekki hrifinn. Þegar danska þingið samþykkti ný og harðari lög um hælisleitendur í júní 2021 sagði Logi Einarsson á Sprengisandi Bylgjunnar: „Ég ætla að ganga svo langt að segja að ég bara fordæmi danska jafnaðarmenn fyrir þetta.“
Stefna jafnaðarmanna í Danmörku í þessu málum getur verið góð fyrirmynd okkar Íslendinga þegar tekist er á við að breyta lögum um útlendinga, líkt og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur boðað. Það er ekki ónýtt fyrir ráðherrann að vita af því að Kristrún telur nauðsynlegt að „taka hælisleitendakerfið til gagngerrar skoðunar þar sem að við reynum að finna línu sem að er sanngjörn og mannúðleg og sjálfbærari til lengri tíma“.
Slökkviliðið kallað út
Þegar spurðist út að formaður Samfylkingarinnar teldi nauðsynlegt að breyta stefnunni í málefnum hælisleitenda fóru margir á taugum. Eldar brenna og slökkviliðið var kallað út. Tveir gamlir formenn töldu sig nauðbeygða til að taka til brunavarna fyrir Kristrúnu. Össur Skarphéðinsson hafnaði því að Kristrún hefði verið að boða stefnubreytingu og í sama streng tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Kristrún hefði bara verið með „almennar vangaveltur um ýmsar hliðar þessara mála þar sem grunnstefið var sanngirni, mannúð og sjálfbærni“, skrifaði Ingibjörg Sólrún á Facebook. En hún hafði greinilega áhyggjur af því að hinar almennu „vangaveltur“ Kristrúnar væru að ala á sundrungu innan flokksins: „Látum ekki siga okkur hverju á annað.“
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í samtali við fréttastofu ríkisins að um væri að ræða skýra og klára stefnubreytingu. Sá ágæti maður með stóra Samfylkingar-hjartað, Ólafur Þ. Harðarson prófessor emeritus, benti á í viðtali við ríkismiðilinn að formaður Samfylkingarinnar hefði ekki komið með neinar tillögur um breytingar í útlendingamálum: „Ég held að það sé vitlegast að hinkra aðeins og sjá hvaða stefna kemur úr þessu.“
Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, fór strax í varnarlið Kristrúnar. Hún væri aðeins að boða það að málaflokkurinn yrði tekinn föstum tökum. Jóhann Páll Jóhannsson, helsti samherji Kristrúnar í þingliði Samfylkingarinnar, er sammála formanninum um að hælisleitendakerfið sé ósjálfbært og að Ísland eigi ekki að skera sig úr frá öðrum norrænum löndum. Það tók Loga Einarsson, sem nú er þingflokksformaður, nokkra daga að taka undir með formanninum. Hann undirstrikaði í samtali við mbl.is að ekki væri um „neina grundvallarstefnubreytingu að ræða heldur bendi hún á að þessi nýi veruleiki sem við búum við kalli á nýja nálgun“.
Það var fyrst í gær sem Þórunn Sveinbjarnardóttir tók til máls. „Stefna Samfylkingarinnar er óbreytt,“ skrifaði Þórunn hér á síður Morgunblaðsins. Eftirtektarvert er að fram til þessa hefur Oddný Harðardóttir þagað þunnu hljóði. En Dagbjört Hákonardóttir sem tók sæti á þingi þegar Helga Vala Helgadóttir sagði af sér þingmennsku, er sammála formanninum. Afstaða Helgu Völu er skýr. Hún á ekki samleið með Kristrúnu.
Vildu fleiri flóttamenn
Í sjálfu sér skiptir ekki miklu hvor stjórnmálafræðiprófessorinn, Eiríkur Bergmann eða Ólafur Þ. Harðarson, hefur rétt fyrir sér. Kristrún Frostadóttir talar með allt öðrum hætti en þingmenn og frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa gert á undanförnum árum. Og það er ekki mikill samhljómur með orðum Kristrúnar og ályktunum flokksins síðustu ár eða málflutningi þingmanna Samfylkingarinnar á síðustu árum.
Í stjórnmálaályktun 2018 segir að Samfylkingin vilji „byggja upp fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Við viljum að Ísland beri meiri ábyrgð og taki á móti fleiri flóttamönnum og vandi betur móttöku á fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi.“ Þessi ályktun endurspeglaðist í grein sem Rannveig Guðmundsdóttir og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, frambjóðendur Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, skrifuðu á visir.is í september 2021: „Samfylkingin vill taka við fleira fólki á flótta.“
Í yfirlýsingu sem stjórn Samfylkingarinnar sendi frá sér í júlí 2019 gagnrýndi flokkurinn „harðlega þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur kynnt á útlendingalögum og þrengja að réttindum fólks sem sækir hér um skjól – og auðvelda jafnvel brottvísanir til landa eins og Grikklands“.
Fimm tilraunir
Í viðleitni til að kæfa eldana sem Kristrún kveikti innan eigin flokks reyna gamlir pólitískir refir Samfylkingarinnar að kenna Sjálfstæðisflokknum um hvernig komið er í málefnum hælisleitenda. Þar eru þeir samstíga Guðmundur Árni og Össur. Eins og svo oft áður eru félagarnir og samherjar þeirra saklausir eins og hvítvoðungar. Baráttan og málflutningur gegn nauðsynlegum lagabreytingum er gleymdur.
Á síðustu árum hafa dómsmálaráðherrar ítrekað lagt fram frumvörp um breytingar á útlendingalögum til að ná betri tökum á málefnum flóttafólks, tryggja skilvirkni kerfisins og koma í veg fyrir að það molni niður vegna álags og kostnaðar. En það hefur verið við ramman reip að draga.
Í apríl 2019 var lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga. Ekki náðist að mæla fyrir frumvarpinu.
Ári síðar var frumvarpið lagt fram að nýju að mestu óbreytt. Mælt var fyrir frumvarpinu og gekk það til nefndar. Ekki tókst að afgreiða málið úr nefnd.
Í mars 2021 var frumvarpið lagt fram í þriðja sinn með breytingum. Mælt var fyrir málinu, það fór til nefndar en sat þar fast.
Í apríl 2022 var frumvarpið lagt fram í fjórða sinn en í breyttri mynd þar sem það náði eingöngu til breytinga á ákvæðum laga um útlendinga varðandi alþjóðlega vernd. Auk þess var lögð til breyting á lögreglulögum. Enn á ný var mælt fyrir frumvarpinu og það gekk til nefndar án þess að það yrði afgreitt.
Haustið 2022 var frumvarpið lagt fram í fimmta sinn. Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, mælti fyrir frumvarpinu í október 2022. Fyrsta umræða tók rúmlega ellefu klukkustundir. Málið gekk síðan til nefndar og þar voru gerðar breytingar í viðleitni til að auka sátt um frumvarpið. Önnur umræða tók 91 klukkustund og þar af atkvæðagreiðsla þrjá tíma. Málið gekk aftur til nefndar og var afgreitt þaðan fljótt. Þriðja umræða stóð í nær tíu klukkustundir og aftur tók atkvæðagreiðsla um þrjá tíma.
Allir þingmenn Samfylkingarinnar ásamt Pírötum og Viðreisn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Við atkvæðagreiðslur voru andstæðingar frumvarpsins harðorðir, ekki síst þingmenn Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson: „Þetta mál hefur í för með sér mikla afturför og það felur í sér uppgjöf, uppgjöf þeirra þingmanna stjórnarmeirihlutans sem trúðu á og hafa hingað til talað fyrir mannúðlegri og frjálslyndari stefnu í málefnum flóttafólks gagnvart frekum minni hluta sem elur á andúð í garð útlendinga… Þeirra er skömmin í dag. Við í Samfylkingunni munum öll segja nei við þessu frumvarpi.“
Jóhann Páll Jóhannsson: „Hitt er hins vegar alveg ljóst að hér er á ferðinni þingmál, hér er á ferðinni frumvarp, sem grefur undan réttindum fólks … Það verður eftir því tekið hvernig atkvæði falla hér í dag.“
Oddný G. Harðardóttir: „Við í Samfylkingunni höfnum þessu miskunnarleysi og greiðum atkvæði gegn frumvarpinu.“
En frumvarpið var samþykkt í mars á síðasta ári. Öllum mátti hins vegar vera það ljóst að þörf væri á frekari breytingum til að færa íslenska löggjöf nær löggjöf annarra Norðurlandaþjóða. Það er ánægjulegt að fá staðfestingu á því að formaður Samfylkingarinnar er kominn á sömu skoðun og við Sjálfstæðismenn í þeim efnum. En það mun reyna á pólitísk bein Kristrúnar á komandi vikum gagnvart öflum í grasrót Samfylkingarinnar. Og Kristrún mun illa geta reitt sig á slökkvistarf gamalla formanna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2024.