Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Réttarríkið er grundvöllur sanngjarns og góðs samfélags. Við eigum því að horfa gagnrýnum augum á hvort lög sem eiga að vera í þágu réttarríkis séu það í raun.
Í stjórnarskránni sem og alþjóðasáttmálum er kveðið á um rétt manna til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma sem tekur einnig til mála á rannsóknarstigi. Í lögum um sakamál er þó ekki að finna nein tímamörk á því hversu lengi lögregla getur rannsakað mál og þar af leiðandi hversu lengi fólk getur verið í stöðu sakbornings.
Í síðustu viku lagði ég fram frumvarp til að bæta réttarstöðu sakborninga að þessu leyti. Frumvarpið kveður á um að lögfestur verði hámarkstími sakamálarannsókna, sönnunarbyrði um tilefni rannsóknar er færð yfir á lögreglu og bætur verða veittar vegna óhóflegrar rannsóknar.
Frumvarpið kveður nánar tiltekið á um að eftir eitt ár af rannsókn verður lögregla að fá heimild fyrir dómi til að halda rannsókn áfram og þá til einungis eins árs í senn að hámarki í fimm ár nema í vissum tilvikum. Ástæða er til að skerpa á þeim reglum sem nú gilda um rannsókn sakamála og tryggja að rannsóknir dragist ekki um of. Til eru dæmi þess að fólk hafi haft réttarstöðu sakbornings árum saman jafnvel án þess að virk rannsókn hafi staðið yfir megnið af tímanum.
Auðvitað er það svo að sumar rannsóknir taka lengri tíma en eitt ár. Í þeirri stöðu kveður frumvarpið á um að eftir það verður lögregla að færa rök fyrir dómi um að ástæða sé til að halda rannsókninni áfram. Það er á allan hátt eðlilegra að lögregla færi rök fyrir því frekar en að sakborningur þurfi að sýna fram á hið gagnstæða eins og lögin eru í dag vegna þeirrar yfirburðastöðu sem lögregla hefur gagnvart sakborningi.
Að hafa stöðu sakbornings hefur gríðarlega íþyngjandi áhrif á einstaklinga og getur sömuleiðis haft bein lagaleg áhrif á hagsmuni fólks. Það er eðlilegt og sanngjarnt að við viðurkennum þau íþyngjandi áhrif sem sakamálarannsókn hefur á einstaklinga og að skýrt sé kveðið í lögum á um að mælt sé fyrir um bótaskyldu ríkisins þegar rannsóknir dragast án ástæðu fram úr hófi, málið sé svo fellt niður eða það endar með sýknu.
Með lögum skal land byggja og lög og regla er samfélagssáttmáli sem við verðum öll að undirgangast svo við fáum áfram notið þess öryggis sem við búum hér við í friðsælasta ríki heims. Lögregla verður í því að hafa það sem þarf til að geta sinnt sínum störfum eins og nauðsynlegt er. En það er líka nauðsynlegt að virða stöðu og mannréttindi sakborninga eins og kostur er. Samfélagssáttmálann sem við undirgengumst blessunarlega fyrir löngu um sakleysi uns sekt er sönnuð verður að vernda. Það er angi af þeim sáttmála sem krefst athygli okkar að draga úr tímanum sem það tekur að fá úr því skorið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2024.